Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Velkominn vertu

til þessa vísnasafns lesari góður!

Miðvikudaginn 6. ágúst 2014 fengu versin á Húnaflóavefnum byr undir vængi inni á Árnastofnun v/Suðurgötu og hingað hyggjumst við að safna kvæðum og vísum sem tengjast byggðunum við Húnaflóa; sunnan úr austustu dölum Húnaþings, út að ystu bæjum Skaga og vestur um víða dali héraðsins, síðan norður Strandir og allt út að Geirhólmi.

Höfundarréttur er að sjálfsögðu hjá höfundum einstakra vísna og ljóða.



Hvað heita sveitir og kauptún við flóann?

Við skulum byrja í einni helstu sveit kvæðamanna við flóann miðjan og fara réttsælis: Þar er Vatnsnes með kaupstaðinn Hvammstanga, Miðfjörður, Laugarbakki, Miðfjarðardalir sem eru Austurárdalur, Núpsdalur og Vesturárdalur, Heggstaðanes greinir Miðfjörð frá Hrútafirði sem teygir sig inn undir Holtavörðuheiði með skóla og byggðasafni að Reykjum, Staðarskála og Borðeyri, Víkurnar, Bitrufjörður, Krossárdalur, Kollafjörður, Steingrímsfjörður, Gálmaströnd, Miðdalur, Arnkötludalur, Tungusveit, Staðardalur, Selárdalur, Selströnd, kauptúnin Hólmavík og Drangsnes eru bæði við Steingrímsfjörð, þá Bjarnarfjörður, Balar, Veiðileysu- og Reykjafjörður, Djúpavík, Gjögur, Trékyllisvík og Norðurfjörður, oft nefnt og er í Árneshreppi, síðan Ingólfs- og Ófeigsfjörður en nyrst er Skjaldabjarnarvík. Stöldrum nú við vísu Jörundar á Hellu á Selströnd sem hann orti um kisu sína:

Svona týnast heimsins höpp,
horfin er kisa frá mér.
Nú verður ei framar loðin löpp
lögð um hálsinn á mér.

Komið er nú að því að seilast austur yfir flóann, að Skagabyggðum þar sem Hreggviður skáld á Kaldrana tekur á móti Bragadrótt með vísu um veðrið. Í Kálfshamarsvík var fiskiþorp framan af tuttugustu öldinni og sveitin þar í kring var kölluð í Nesjum. Innan við Króksbjarg taka við Brekknabæir og prestsetrið forna á Hofi. Þaðan eru tvær bæjaraðir allt inn að kauptúninu Skagaströnd, en fyrrum bar sveitin Skagastrandarnafnið inn að Laxá á Refasveit. Frá kaupstaðnum á Skagaströnd, þar sem verslunarplássin kölluðust Hólanes og Höfði eða Kaupstaðurinn (Mt. 1816) liggur bæjaröð suður ströndina en upp frá henni ganga Hrafnsdalur, Hallárdalur, Norðurárdalur með leiðinni um Þverárfjall og svo sjálfur Laxárdalur, ein af grónu kvæðamannasveitunum og nær dalurinn tugi kílómetra inn milli fjallanna og skákar þar granna sínum Langadal sem er þó harla langur en mun lægri og jökulelfan Blanda líður áfram milli grasbakka og gróinna eyra. Inn af Laxárdal er bærinn Þverárdalur og bæirnir í Skörðum.

Austasti dalur Húnavatnssýslu er Svartárdalur, þá Blöndudalur, Sléttárdalur og Svínadalur. Út af þeim og niður með Blöndu kallast Bakásar en vestur þaðan liggja Ásarnir með kaupstaðinn við Blönduós. Þing og Vatnsdalur eru inn af Ásum en Víðidalur og Fitjárdalur þar vestan við, um Línakradal liggur þjóðleiðin suður en frægðarsveitin Vesturhóp liggur til norðuráttar, sjá t.d. kirkjustaðinn Breiðabólstað og bæinn Rósu á Vatnsenda. Sveitin sú er vestan Víðidals/útdalsins og er þá aftur komið að byggðum Vatnsnesinga.