Ósigur guðsins | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Ósigur guðsins

Fyrsta ljóðlína:Djöflinum inn fyrir dyrnar þeir hleyptu
bls.75 - 76
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915-1921
Flokkur:Heimsádeilur

Skýringar

Úr syrpunni „ Villiblóm “ 1915-1921....
Djöflinum inn fyrir dyrnar þeir hleyptu,
demöntum horn hans og klaufir greyptu.
Svo hóf hann sín drísildjöfla mál
og dreypti eitri í þeirra sál.
Þeir teyguðu það eins og líf væri að leysa
og væri hann hamingjuríkið að reisa.

- En úti stóð guðinn, ungur og fagur.
Um hann hvelfldist hinn sólbjarti dagur.
Þá húmaði að í hans hjartarót,
er horfði´ann á dapurt sálnablót.
Hann kom til að lyfta þeim - láta þær hækka.
En sá þær grynnast og sífellt smækka. -

- Hann sveif inn um dyrnar. En myrkelskur múgur
mætt´onum þar eins og grafkaldur súgur.
Þeir reittu hans vængi og rifu hans hár
og ristu á brjóstið háðungarsár.
Svo hrópuðu þeir frá hlið og göflum:
Við hrækjum á guði, en hömpum djöflum.

- Út fór guðinn, ungur og fagur.
Um hann hvelfdist hinn sólbjarti dagur.
Svo hvarf hann til uppheima einn á brott.
En eftir stóð fjöldinn - með klaufir og skott.
Og ennþá fyrir þá djöfullinn dansar.
Það dreifast yfir hann perlur og kransar.