Lágnætti við Laxfoss | Kvæðasafn Borgfirðinga
Kvæðasafn Borgfirðinga

Innskráning ritstjóra

Lágnætti við Laxfoss

Fyrsta ljóðlína:Nú færist húmsins kyrð á mæddan meið,
Viðm.ártal:≈ 1900
Flokkur:Náttúruljóð
Nú færist húmsins kyrð á mæddan meið,
á mann og hest, og ljúfir vindar streyma.
Í gljúfrum dalar valur yfir veið,
hann veit hvað djúpin undir niðri geyma.
En hugur vakinn flögrar langa leið
og leitar sem hann eigi hvergi heima. -
Sof rótt á meðan, veröld víð og breið
og vek ein neinn sem þarf að dreyma og gleyma.

Þey, næturvindur, far þjer ei svo ótt
með ilminn burt af mínum skuggavegi;
og giljalækir, vaggið vært og rótt
að vökudraumar mínir styggist eigi.
Og, foss minn, lát þú bogann bærast hljótt
sem blæ, er vængnum aðeins lyfta megi -
jeg kynni að hitta og höndla það í nótt
sem horfið væri og týnt á næsta degi.

Nú liðast yfir Múlann mánans lín
svo mjúkt sem þel, sem vögguhjal í lænum.
Nú tendrar minning björtu blysin sín,
nú blikar stjörnudögg á laufum grænum;
en æ er stjarnan sú er skærast skín
í skýjum hulin hvernig sem vjer mænum -
vor óskastjarna, hugans sólarsýn,
í söng, í draumi eða vonarbænum.

Nú lokast aftur loftsins hallardyr,
og ljós í gluggum sjást nú færri og færri.
En hugarsnekkjan hefur ætíð byr
á haf þess liðna, en seglin smærri og smærri;
á dýpri leiðir lagði hún áður fyr,
en leifturvitar skinu á tindum fjærri -
nú kýs hún helst að vagga á vogi kyr
er veðrabrigðin taka að færast nærri.

-Ó, blessuð veri hver sú húmsins nótt
er hugans þreyttu vængi lyftir undir.
Til þín er fegurst draumadýrðin sótt,
í dúnsæng þinni bestar hvílustundir.
Já, þökk sje þjer, mjer er svo unaðsrótt
sem öll mín braut sje lögð um sljettar grundir-
því jeg hef hitt og höndlað þessa nótt
þá helgu dóma feldi þínum undir.