Kornbrekkur | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Kornbrekkur

Fyrsta ljóðlína:Komstu að Kornbrekkum
Heimild:Samvinnan.
bls.4.tbl. 1958
Viðm.ártal:≈ 1882–1890

Skýringar

Gríðarleg eyðing varð á Rangárvöllum í langvarandi norðan stórviðri vorið 1882. 
Verst var það frá 25.apríl til 9.maí. Þá var marga daga varla fært út úr húsum fyrir sandbyl. Uppblástur var ægilegur og hús fennti í kaf í sandi. Hross og sauðfé lá dautt á víðavangi þegar veðrinu slotaði.
Ein af þeim jörðum sem þá fóru í eyði voru Kornbrekkur, þar sem búið hafði verið rausnarbúi.
,,Komstu að Kornbrekkum?"
Kom ég þar fyrrum,
sumar í garði.
hlógu við hagar
og í hundraða flokkum
skipuðu sauðir
sólbjarta grund.

Brosti við búrausn.
Bóndi kom til dyra.
Blíður í bragði
bauð mér til stofu.
Gerhygli, greiði
og göfuglyndi
fyllti fögnuði
farmóðan gest.

,,Komstu að Kornbrekkum?"
Kom ég þar aftur.
Sá ég þar sandmel
og svartar rústir.
Úti bauð gestum
auðn og kuldi,
en súgur um sorg
söng við inni.

,,Komstu þá að garði?"
Kom ég og starði.
Allt var í auðn
og engin heima.
Sá ég austur á Sand.
Sorgarskari
dapur var á ferð
með dökkri kistu.

Hafði helja
héraðsmiðju
farið ránshendi
og rjóður gert.
Sló húsbóndann
og svo hvað af öðru
hús og haga
hjarðir og tún.

Þá var mér sýnt
að sveitin drjúpti
og að hjör henni
við hjarta stóð.
Vildi og ei lifa
eftir valmenni
eitt kuldastrá
á Kornbrekkum.

,,Komstu að Kornbrekkum?"
Komstu þar í vetur?
Sástu þar lauk þann,
er lifir eftir?
Sá er sífrjór
sumar og vetur, -
það er góðs manns orð
sem grær þó frjósi.