| Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra
AAAA2
Enga ljúfa ástarkennd
áttu framar hjá mér.
Þau eru öll á báli brennd
bréfin gömlu frá þér.

Ekki get ég að því gert
að oft í hug mér líður.
Haturs ertu ekki verð.
Ástar miklu síður.

Þér hefur kannske þótt ég smár.
Þótt mig skorta gjaldið.
En ríkur margur hefur og hár
hættu og falli valdið.

Rétt þér fús ég hefði hönd.
Á höndum mér þig borið.
Hefðirðu ekki ástarbönd
okkar sundur skorið.

Fegurð þín er afbragðs agn.
Ekki er því að neita.
En hún mun aðeins geta gagn
gert sem tröllabeita.

Oft eru ljós á æskubrá
undurfljót að dvína.
Hverju er til að tjalda þá
í tálbeituna þína.

Ekki skyldi undra mig
þótt yfir þér síðar hljómi:
Fyrsti steinn sem felldi þig
var fegurð þín og blómi.

Þú hefur máske af því arð
aðra tali að vinna.
Ekk´ er að gresja um auðgan garð
ástarblóma þinna.

Þótt þig einhver svinnur sveinn
úr sorpi vildi draga
því mun ekki orka neinn
alla þína daga.

Láttu aðra leika á þig.
Leiða þig út í bláinn.
Það kemur ekki mál við mig.
Mér ertu löngu dáin.