| Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra
AAAA2
Skrautleg óttu skarta tjöld
skini merlað vengið.
Signuð hafa sólarvöld
seint til náða gengið.

Logar himinn loga skír.
Loftsins vitar brenna.
Snemma hefur Drottinn dýr
daginn tekið þenna.

Heilsar vor hjá Herðubreið
heilög ró og friður.
Kyndir lágnótt sólarseið.
Sefur dagsins kliður.

Jökla, tinda, fjöll og fell
faðmar himins veldi.
Brunahraun og blómskrýdd höll
baða í sólareldi.

Nóttin margan dýran draum
dregur upp á muna.
Þegar röðull rósaflaum
reifar náttúruna.

Vakna þrár sem vorhug tjá.
Vonir hljóta fylling.
Læknast sár sem lúinn þjá
við ljóssins undra hylling.

Geislar krýna eggjar ál
orpnir guða mundum.
Mun til dauðans anda og sál
eiga í slíkum stundum.