Næturferð | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Næturferð

Fyrsta ljóðlína:Að nóttu líður. Einn ég áfram ríð
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.88–89
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt aBaBcDcD
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Að nóttu líður. Einn ég áfram ríð
um ísi þakið vatnið. Tunglið leynist
í skýjum hulið. Drungadimm er hlíð
og dimm og köld mér vetrarnóttin reynist.
Ég finn og finn, hve klárinn kippist við,
er kaldir brestir gegnum svellið dynja.
Og kolsvört vök er mér á hægri hlið;
þar heyrist vatnið lágt en þungan stynja.
2.
Þar dró frá tungli. Glætan glitrar föl
og geislar steypast nið’r af tindum blökkum.
Þeir renna á fölum fönnum nokkurn spöl
og felast loks í hellismunnum dökkum.
En sumir stökkva niður ísinn á,
svo augu glóa við úr hverri hrufu,
og lausir glampar fleygjast til og frá
og falla loks í dimma vakarglufu.
3.
Ég finn í herðum eitthvert titringsafl. –
Hvort er það golan, sem svo næmt fær þotið?
Hvað ískrar þannig? Skrapp úr spori skafl.
En skeifublaðið hef ég enn ei brotið.
Þar vælir fálkinn raunasárum róm.
Í rjúpublóðið er hann löngum þyrstur,
en þegar inn í hjartað krækir klóm,
hann klökkur sárt, – hann þekkir eigin systur.
4.
Um slíka gráa tungls og næðingsnótt
er næsta margt og undarlegt á sveimi.
Í eigin hjarta losnar draugadrótt,
sem dulin liggur fyrir manna heimi.
Mörg endurminning læðist fylgsnum frá
og fer í köldum hrylling eftir taugum
og fellir hrukkur föla gegnum brá
og flaksast eins og vofa loks að augum.
5.
Ég vildi hrópa, en ég þegi þó
og þeysi eins og klárinn getur dregið.
Þú kyssir ískalt vindur. Hæ og hó!
Ég hef á stundum mýkri kossa þegið!
En betri er kaldur koss en ekki neitt,
æ kuldi’ og hiti skiptast á í heimi,
og hvort í nótt mér kalt er eða heitt,
það kærist lítt. Á morgun ég því gleymi.