Vaðalfjallabragur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vaðalfjallabragur

Fyrsta ljóðlína:Nú vík ég upp á Vaðalfjallatind
bls.130–131
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt aBaBcDcD
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Nú vík ég upp á Vaðalfjallatind
og Vestfirðinga kveð í hinsta sinni:
Mér skín í heiði heljar-beinagrind
sern hroll og furðu vekur sálu minni! —
Þú flensað hræ af frumheims jötunhval
úr fjötrum skaut þér ís og logabrandur,
með hengiflug, með hraun og fjöll og dal —
„hræleifar mínar“, svarar Jörmungandur! —
2.
En er ei víst að ótal öldum fyr
en ís og funi ruddu hér til landa
hér staðið hafi hlýjar sólardyr
og hafið sofið milli blómsturstranda, —
því milljón ára standi steingerð skrá,
í stuðla greypt, er „surtarbrand“ vér nefnum
sem reginmagna rökum skýri frá,
er ráði heimsins lögum, sköpun, stefnum? —
3.
Vér Íslandsbúar áttum ei að fá
neitt Eden skrýtt með fullum sælublóma
og svipað Adam öllu rekast frá
og aldrei skilja lífsins regindóma. —
Ég skil, ég skil! Nú skýrist öll mín sjón,
nú skil ég ykkar fornu dularrúnir!
Og allt í einu fríkkar þetta frón
sem fögur sólin gylli dalabrúnir.
4.
Hvar magnast betur þol og þróttur manns
en þar sem gæðin fást með stríði hörðu?
Hvar vitkast betur þol og þroski hans
en þar sem mest er reynslan hér á jörðu?
Hvað skapar auðlegð, ef hún gefins fæst?
Óhóf og þrældóm, svall og girndaræði?
Í þyngsta stríði horfir andinn hæst
og hugann festir við hin sönnu gæði.
5.
Í harðindum vér höfum auð vorn grætt,
við háskann nærðist kjarkur vor og hugur,
við hregg og ís er hreysti-táp vort fætt
og hvar í auðnum greri meiri dugur?
Hér fæddist Gestur, Gellir, Sturludrótt,
gæðingar, kappar, skáld og þjóðmæringar.
Og hverjir lyftu lands vors sögu-nótt
í ljósan dag sem gömlu Vestfirðingar?
6.
Og sögubók mér sýndist fold og mar,
við sólskin andans sný ég hennar blöðum.
Lífsspeki Guðs ég læri hér sem þar
því lífsins saga grær í öllum stöðum.
Hver sveit er skóli (segir sagan oss),
hver sókn, hver bær, hvert hús oss kennir, varar,
hvert strá er orð, hvert blóm er bæn, hver foss,
hver bunulækur Huldumáli svarar.
7.
Þú vinafjöld, sem átt hér urtagarð
að yrkja og vakta: Kanntu að lesa og skrifa? —
Öll mennt er góð en mestan gefur arð
sú meginlist að kunna réttlifa.
Set mark þitt hátt, svo forðist flúð og sker,
og fylgdu þeim sem rata bestu leiðir.
Það verður mörgum að ei setja sér
það sigurmark er allan vanda greiðir.
8.
Hvað mað’rinn hafi megnað, vitum vér,
þá visku kennir öllum liðin saga;
en hvað hann muni megna hulið er
í myrkri framtíð — eflaust betri daga.
Með dáð og samúð, segir andans spá,
þú sigra munt sem fyrri margar þrautir.
Og yfir þessa auðn, sem horfi eg á,
í anda sé ég þúsund sigurbrautir!

> — — —
— Nú sígur undir sól við Glámutind
og sorti byrgir æsku minnar haga.
Ó, Vesturland, nú myrkvast öll þín mynd
og minnir mig á bráðum talda daga.
Velkomin stjarna! Ert’ ei elskan sjálf
er oss að kvöldi lýsir daginn farna?
Ó, kom og lýs mér, lífs míns Valaskjálf,
og liðnum sjónum skín sem morgunstjarna!