Til Björnstjerne Björnsons | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til Björnstjerne Björnsons

Fyrsta ljóðlína:Noregs frægi, nýi skáldaspillir!
bls.153
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1900–1925
Tímasetning:1902
Flokkur:Afmæliskvæði

Skýringar

Undir heiti ljóðsins stendur: „Kveðja til skáldsins frá Íslandi, þegar hann varð sjötugur.“ Kvæðið birtist fyrst í blaðinu Norðurland á Akureyri 27. desember 1902 en skáldið varð sjötugt. 8 december 1832. – Stuðst var bæði við frumútgáfu kvæðisins í Norðurlandi og útgáfu Ljóðmæla Matthíasar 1936 við birtingu þess á Braga.
Haukr réttr ertu Hörðadróttinn;
hverr gramr er þér stórum verri;
meiri verði þinn en þeirra
þrifnaðr allr unz himinn rifnar.
Arnórr Jarlaskáld

1.
Noregs frægi, nýi skáldaspillir!
Norðurlöndin sýnast eitt í dag:
meðan skáldið gjörvall heimur hyllir,
heiðra son sinn þau með einum brag!
Haukur ertu, Hörðadrottinn fríður;
hvass á brún sem fyrrum, ern og frjáls!
Dofrafóstri, frændi kær, þér býður
frægðarkveðju land þíns gamla máls.
2.
Enginn síðan aldinn Skáldaspillir
orti ljóð um þann, sem féll á Storð.
Enginn síðan sannleiks hörpustillir
söng og kendi drengilegri orð:
Enginn kappi hjó svo hart og svipti
heillar þjóðar dauðri vanatrú.
Enginn svanur landsins hjarta Iyfti
lista-snjallt og kröftugt — eins og þú!
3.
Ei var þitt í dverga gil. að grafa,
gullið skein í sjálfs þíns hjartarót.
Yfir Raumsdal, ríki þinna afa,
röðlar hlógu vöggu þinni mót.
Þrændir forðum felldu kynngi styrkri
fræknan gram — en það var blindingsverk:
Aldrei vega mundir þú í myrkri
margir þó að reiddu vopnin sterk.
4.
„Ei skal höggva!“ hrópar feigur Snorri
hjarta lands vors þegar sverðið beit;
„Nú skal höggva!“ gellur Eysteinn Orri
æru Noregs þegar hníga leit.
Óður þinn á Orra tungu mælti,
andi þinn er vígður stórri tíð;
Orra hreysti strengi þína stælti,
stríð þíns lífs *er sannleiks Orrahríð!
5.
Þjóðmæringur, þökk af hjartans grunni;
þér var gefin lífsins stóra trú!
Aldrei féll þér orð frá sjúkum munni,
efans, dauðans hrakspá smáðir þú.
Vorrar þjóðar tign og afli treystir
tímans meðan dæmdir syndagjöld.
Hjartans þökk, að þú í ljósi Ieystir
lífsins draum, og fægðir Noregs skjöld!
6.
Það er satt, að sjón hins rétta, góða,
sigrar óðum forna myrkratíð.
Óðum síga saman býlin þjóða,
sama nauðsyn jafnar heift og stríð.
Og þótt, meðan dróttir dufti klæðast,
dynji stöðugt ramur heljarfoss:
betur, betur guðlegt vit mun glæðast:
Guð er sá er lifir, býr í oss!
7.
Njót því heiðurs, Noregs skáldaspillir!
Norðurlöndin verða bráðum eitt.
Dofrafjöllin fegri roði gyllir:
Fylgjumst vel, og hræðumst ekki neitt!
Hróðrardrottinn, sterki boga bendir,
Braga niður, sittú ern og frjáls!
Dofrafóstri, frændi kær, þér sendir
frægðarkveðju landið Heklu báls!


Athugagreinar

4.8 er Norðurland. var Ljóðmæli.
7.6 sittú Norðurland. sit þú Ljóðmæli.