Fyrir minni Hannesar Hafsteins | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fyrir minni Hannesar Hafsteins

Fyrsta ljóðlína:Stillið hörpur, hefjið dans
bls.492–493
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBaaaBaB
Viðm.ártal:≈ 1900–1925
Tímasetning:1904

Skýringar

Undir titli stendur: Sungið í samsæti á Akureyri 1. febrúar 1904.
Sungið í samsæti á Akureyri 1. febrúar 1904
1.
Stillið hörpur, hefjið dans,
horskir menn og brúðir ungu!
Nú er glatt hjá lýði lands:
lifi nafn vors besta manns!
Æðsta skáld vors unga lands
eggjar þjóð með dáð og tungu!
Stillið hörpur, hefjið dans,
hraustir menn og brúðir ungu!
2.
Steig á svalan Súlutind
sveinninn vor hinn listum kunni;
leit hann hrifinn lög og strind:
landsins háa dýrðarmynd;
hvíslaði djúpt í himinlind
Hávamál frá guða munni:
„Leiddu, sveinn, á lands þíns tind
líf og kraft úr Urðarbrunni!“
3.
Listatindinn sótti sveinn
síðan, studdur landsins vonum;
eins og Súlna himinn hreinn
hreimur dundi frjáls og beinn,
heilbrigðari enginn einn
yrkir brag af landsins sonum.
Frelsistindinn frægðarsveinn
fögrum gyllti sigurvonum.
4.
Valdatindinn drengur dýr
dáðum frægur hefir klifað.
Frá hans enni horfir hýr
heilladagur, bjartur, nýr,
sá er gleði sálum býr –
sigurorð af Guði skrifað!
Lengi þráði þjóðin skýr
þennan dag að geta lifað.
5.
Hæsta tindi, heill og sæmd,
haltu, prúði snilldardrengur!
Verk þín gjörvöll verði ræmd,
vitur, holl og réttvís dæmd,
þar til ánauð öll er flæmd
og hinn síðsti brostinn strengur!
Hæsta tindi, heill og sæmd,
haltu, prúði snilldardrengur!
6.
Stillið hörpur, hefjið dans,
horskir menn og brúðir ungu!
Nú er glatt hjá lýði lands:
lifi nafn vors besta manns!
Æðsta skáld vors unga lands
eggjar þjóð með dáð og tungu!
Stillið hörpur, hefjið dans,
hraustir menn og brúðir ungu!