Dalvísa | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Dalvísa

Fyrsta ljóðlína:Fífilbrekka! gróin grund!
bls.179
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBaaaBaB
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1843
Flokkur:Náttúruljóð

Skýringar

Samið 1843. Tvö eiginhandarrit eru til. Hið fyrra er var-veitt á Landsbókasafni í handritasafni Jóns Sigurðssonar (JS 129 fol.). Hið síðara er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b V).
Frumprentun í: Fjölnir 7. ár, 1844.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847. [Fyrirsögn: „Dalvísur“].
Heimild að skýringum: jonashallgrimsson.is.
1.
Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum,
flóatetur, fífusund,
fífilbrekka, smáragrund!
Yður hjá ég alla stund
uni best í sæld og þrautum,
fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum!
2.
Gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum,
góða skarð með grasa hnoss,
gljúfrabúi, hvítur foss!
Verið hefur vel með oss,
verða mun það ennþá löngum,
gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum!
3.
Bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi,
sólarylur, blíður blær,
bunulækur fagurtær,
yndið vekja ykkur nær
allra best í dalnum frammi,
bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi!
4.
Hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar,
heyjavöllinn horfið á,
hnjúkafjöllin hvít og blá!
Skýlið öllu, helg og há,
hlífið dal, er geisa vindar,
hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar!
5.
Sæludalur, sveitin best!
Sólin á þig geislum helli,
snemma risin, seint þá sest.
Sæludalur, prýðin best!
Þín er grundin gæðaflest,
gleðin æsku, hvíldin elli.
Sæludalur, sveitin best,
sólin á þig geislum helli.