Dauði Þormóðar Kolbrúnarskálds | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Dauði Þormóðar Kolbrúnarskálds

Fyrsta ljóðlína:Stundin er komin, æviár
bls.96–99
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1861
1.
Stundin er komin, æviár
enduð og sérhver jarðarmæða;
megnar nú enginn mín að græða
maður hin dauðasollnu sár.
Helmyrkur fyrir sjónir sígur,
en sálin bráðum glöð burt flýgur
glepjandi heimsins glaumi frá
gullbjörtum engilvængjum á.
2.
Sælt er nú eftir unnið stríð
unaðarsæta hvíld að taka;
svefninum fagnar sorgfull vaka,
því hann er þjáðum huggun blíð.
Lifað hef ég og löngum notið
lífsins gleði, en meðfram hlotið
bitur að þola sorgarsár
og sollið margt að fella tár.
3.
Lifað hef ég og liðið margt,
leitað hvíldar, en fundið eigi.
Andlát mitt því ég óðfús þreyi
og óttast eigi helið hart.
Vinar mig styður enginn armur;
ýmist er lífið sæld og harmur,
því allt um víðan heimsins hring
háð er sífelldri umbreyting.
4.
Stóð ég við vinar hrausta hönd
er hildarleika aldrei flúði
en hvassan brand í blóði dúði
og féndur marga firrti önd.
Honum ég unni heitast bragna
en hlaut þó samt að boði ragna
– það mínu hjarta sárast sveið! –
við sverðs að skilja frægan meið.
5.
Fjölmörg við unnum frægðarverk
fimbulrammir um Hildarvengi;
háðum við stríð við hrausta drengi
og rufum glæstan Róðaserk.
En hann, sem engar hættur flúði
og hreysti sinni einni trúði
varð þó að falla fölur nár,
Fóstbróður vaktist harmur sár.
6.
Fór ég um drafnar dimmblátt sund,
drifinn að Grænlands köldu ströndum.
Bar ég þar flein í hraustum höndum
og falla lét á græna grund
hann sem að vin minn heli seldi.
Hvössum ég veifði Báleygseldi
og fyrir fjöndum varðist vel
en veitti mörgum þeirra hel.
7.
Kom ég á Noregs góða grund
og gylfa horskum þjóna náði,
sem nú í dag á sínu láði
sofnaði rótt hinn síðsta blund.
Glaður eg fylgi grami fríðum,
gunnfrægum dey með hetjulýðum
og svíf um himins geislageim
glaður frá jörð að betra heim.
8.
Sat ég hjá mærri silkihrund
í svölum blæ á morgni fríðum;
kvökuðu hljómi himinblíðum
kátir fuglar í kyrrum lund.
Svöluðu vörum varmir kossar,
vöktu í hjarta ástarblossar
komandi og liðin hvarf mér tíð,
hverfandi stund var sæl og blíð.
9.
Hvíldi ég mig við brennheit brjóst
brosljúfrar meyjar fagurleitrar,
yndisblíðrar og ástarheitrar
með kolsvart hár og hörund ljóst.
En það varaði stutta stundu,
straumar tímanna fram mér hrundu.
Hurfu mér víf, og aleinn eg
óstuddur gekk um lífsins veg.
10.
Horfin er ævi, hjartað kalt
í heljarsærðum barmi titrar;
ægja mér dauðans ógnir bitrar,
runnið er blóð úr æðum allt.
Hið myrka spor ég má nú stíga
og magnlaus nár á svæði hníga
því allt, sem lifir, hrífur Hel. –
Heimur og elska, farðu vel!