Heilræða ríma (brot) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Heilræða ríma (brot)

Fyrsta ljóðlína:Enn er eg farin að efna óð
Heimild:Andvari.
bls.30. árgangur 1905, bls. 190–192
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1700
Fyrirvari:Athuga þarf hvort unnt er að lesa fleiri erindi í handriti

Skýringar

Í Andvara segir:
Brot. Gefið út af Birni M. Ólsen. Kvæði þetta er tekið eftir litiu kveri (i 160), sem var eign útgefanda en nú er í Landsbókasafninu og virðist skrifað um 1700. Það sést á þessu gullfallega og hjartnæma kvæði að það er ort af kvennmanni til bróðurdóttur hennar. Nafn bróðurdótturinnar hefur verið Sigríður, eins og kvæðið ber með sér, en nafn skáldkonunnar þekkir útgefandinn ekki að öðru en því, sem sést á undirskriftinni, að skírnarnafn hennar byrjar á M. og föðurnafn á S.
1.
Enn er eg farin að efna óð.
Orða vantar prýði.
Vildi eg gjarna vísna ljóð
vanda best1 Sigríði.
2.
Enn þó mín sé orðgnótt veik,
ekki má eg þegja.
Biður að kveða auðar eik
ung og lítil meyja.
3.
Er það gömlum óskaráð
ungum heilt að kenna.
Eikur soddan æru og dáð,
ef þeir hlýða nenna.
4.
Stirðna hljóð og ræmist rödd,
rénar listin kvæða.
Ekki verður auðþöll glödd.
Er það daufleg mæða.
5.
Annað fólk þá úti er,
eins að kvöldi og morgni,
allvel við það uni’ eg mér
innar lengst i horni.
6.
Styttir fyrir mér stundir það,
ef sturlun nokkur þvingar,
inn læðast í annan stað
ýmsar hugrenningar.
7.
Huggun er það helsta mín
hverju öðru fremur,
eymda standið eitt sinn dvín,
að þá dauðinn kemur.
8.
Erindi nokkur á eg hér,
ef þú kynnir læra.
Bögur þessar býð eg þér,
bróðurdóttir kæra.
9.
Þó min sé ekki menntin fróð,
mey svo fræða kunni,
sittu og hlýddu, systir góð,
samt hjá kerlingunni.

10.
Upphaf visku er það fyrst
ótta guðs að læra,
heiðra virða herrann Krist
og heitar bænir færa.
11.
Minnstu’ á skapara mætan þinn,
mey, í ungdóm þínum.
Um það vertu ókvíðin
æ er guð með sínum.
12.
Kláran lærðu kristinn dóm2
kenndan drottins hýði;
ljúf í geði og lyndisfróm
lifðu svo með prýði.
13.
Á því láttu engan stans
elsku guðs að njóta.
Í brjósti geymdu boðorð bans,
svo blessan náir hljóta.
14.
Laðaðu til þín lausnarans náð;
lukkan sú þig styður.
Uppsker tíðum ellin þjáð,
er æskan sáir niður.
15.
Eftir hana auðmjúk bæn,
einninn trúin fróma,
sumar og vetur svo er græn,
sést með öllum blóma.
16.
Hennar prýði hrósa eg;
hefir hún listir margar,
ágæt, dávæn, ástúðleg
úr öllum raunum bjargar.
17.
Hvað skal tala hér um mart,
þó huganum þar til renni.
Heimsins auður, æra og skart. —
allt er dauft hjá henni.
18.
Vendu þig á vinnu mennt,
vel svo bjargast megir.
Iðjuleysi er engum hent,
oft til synda teygir.
19.
Jafnan sértu gegn og góð,
glöð og hýr við lýði,
í þrautum öllum þolinmóð
— það er kvenmanns prýði.
20.
Hafðu gjarna fátt um flest.
Festu tryggð í skorðum,
sú mun auka sómann mest,
svo sem áður forðum.
21.
Guðhræðsluna geðs um reit
geymdu í hjartans byggðum;
fögur hefur hún fyrirheit
fremur öðrum dygðum.
22.
Hver það hnossið höndlað fær,
hann þarf ekki að kvíða,
glóir björt með geislum skær,
glansar af henni víða.
23.
Hún er meina hýrust bót,
hjartans yndið rétta,
allra dygða undirrót,
af henni þær spretta.
24.
Scgi eg þér það, systir góð,
soddan minnast áttu,
geymdu hana geðs í sjóð,
glatast aldrei láttu.
25.
Dýrgrip þennan drottins náð,
drósin ung, þér veiti.
Allt þitt lukkist efni og ráð,
en engar nauðir þreyti.
26.
Bið þú guð að gæta þín,
og gefa þér helgan anda.
Þá mun hýrust hringa lín
hrapa í engan vanda.
27.
Holdinu gefðu hvergi taum
– heftu viljann bráða –
stjórnin þess er ill og aum,
andann láttu ráða.
28.
Hirtu ekki um heimsins prjál,
hverninn sem hann lætur.
Athuga, þú átt eðla sál.
Á henni hafðu gætur.
29.
Bið þú guð þér leggja lið;
lítur hann til með sínum.
Haltu fast við hreinlífið,
hafðu að ráðum mínum.
30.
Þó þú heyrir heimsins glaum
hljóma þig i kringum,
eg bið, gefðu engan gaum
að hans svívirðingum.
31.
Hann er vanur í hrekkja dans
hópinn sinn að draga.
Sinntu aldrei siðum hans.
Svei þeim alla daga!
32.
Athæfið hans eykur pín,
einna mest í dauða.
Lítur hann síðar launin sín
í loganum vítis rauða.
33.
Afdrif hans eru engum duld,
afla mörgum trega.
Gjör því fyrir guðs þíns skuld;
gakktu forsjállega.
34.
Hvar þú góða siði sér,
er sæma þínu standi,
hirð þá sömu og hegða þér
sem heiðurs-kvenna er vandi.
35.
Forð ... 3
36.
Tak þér dæmi, drósin, nú
af dygða frúnum kláru,
að hendi þig ekki hefndin sú
er hinar seinni báru.
37.
Hugurinn þinn sé himnum á,
hér þó verðir þreyja.
Villugjörn er veröld flá.
Vertu forsjál, meyja.
38.
Kvölda tekur og kólna nú
en kristindómi halla.
Best er að vaka í bæn og trú
— brúðguminn senn mun kalla.
39.
Hugsa vel um haginn þinn.
Hlýddu guði þínum,
svo verði ei sálin varbúin
við elskuhuga sínum.
40.
Altíð áttu, auðgrund fróm,
eftir góðu sækja,
kristinn heiðra kennidóm
og kirkjur tíðum rækja.
41.
Forðast skaltu fals og spott
og fróman að misgruna.
Aumum liðum gerðu gott
— guð vill það umbuna.
42.
Guðhræddum þig haltu hjá,
sem hreinar stunda dygðir;
blessan efla bestu má
að binda við þá tryggðir.
43.
Á andlátstímann þenktu þinn
það ei gleymast láttu.
Vel því vertu viðbúin.
Víkja héðan áttu.
43.
Guðs ... 4
44.
... lifðu guðs í friði.
Þess óskar af alhuga. M. S. D. 6


Athugagreinar

1.
Bætt við af útg.; vantar í hdr.
2.
Svo í hdr. (í tveimur orðum).
3.
Hér vantar eitt blað (eða fleiri?) inn i handritið
4.
Hér vantar í handritið part úr blaði eða meira. Af blaði því sem niðurlagið hefur staðið á, er ekki til nema slitur neðst af blaðinu. Hitt er rifið af.
5.
Getgáta útg.; nú sést ekki nema siðasti stafurinn, hitt rifið af.
6.
D stendur vísast fyrir dóttir.