Söngvarinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Söngvarinn

Fyrsta ljóðlína:Við látum hann fljúga, ég segi þér satt
bls.135
Bragarháttur:Átta línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcDcD
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Við látum hann fljúga, ég segi þér satt!
Hvern sjálfan á hann inn í bæinn,
sá kóngur, sem einginn galt alin í skatt,
sú ugla sem svaf ekki á daginn?
Að syngja sinn hroka út í vonleysu og vind
og vera aðeins hýstur af flónum! . . .
Ég þekki’ ekki hlálegri’ og kátlegri kind
en konung, sem ríkir á tónum.
2.
„Og þó að við vildum nú leggja’ honum lið
og láta ekki tónana’ hans deyja,
þá syngur hann eitthvað sem síst ætti við,
og svo er hann vís til að þegja.
Ég skil ekki hverjum er skemmt við þann óm.
Og skoðaðu gemlinginn betur:
með hnarreistan kollinn, á karbættum skóm,
hvað kaupirðu’ hann dýrt undir vetur?“

3.
Þú hoppar svo langt, sem að heiðið er blátt
og himnarnir geta þig borið;
þá líður mér best er þú leikur svo kátt,
það léttir svo dæmalaust sporið.
Þú gígjunnar frjálsi, þú sólbrenndi son,
þinn söngvari titrar við hreiminn,
er frægð hans og unað og framtíðarvon
þú færir í dansi’ yfir heiminn.
4.
Að vísu á hann skjóllítið, saungvarinn sá,
en sólskinið er honum dýrast,
því tónarnir vefa sér vængina þá
er vorkvöldin brosa sem hýrast.
Og gígjan hans kaldan úr klungrunum hlær
er kóngarnir manntölin halda;
af skammdegi og eyðimörk á hún og fær
þann einasta skatt sem þau gjalda.
5.
Og skarpt var um nestið og skjótt var því eytt;
þú skilur það kannske hvað veldur:
hann vann hér til einskis og átti ckki neitt
í eilífu sjóðunum heldur.
En allt eins við tónana binda má blý,
það bagar ei flugið né hreiminn,
þeim lætur eins dansandi létt fyrir því
að líða út í eilífan geiminn.
6.
Hann fær ekki reiðslu. Þá finnur hann vað;
það fór aldrei langt þó hann næddi;
hann grunnstingull fór ekki að fleipra með það
þó fótunum svolítið blæddi.
Og kvein eru engin í ómunum þeim
sem út eftir hjarninu fara,
þeir fá aðeins kaldari og fjötraðri hreim
sem frostbundin á milli skara.
7.
Til sólarlags hefur hann síléttan fót
og syngjandi leiðina gengur,
og skórinn er gleymdur, hann skeytir ei hót
hvort skemur hann vinst eða leingur.
Og þetta er sigur hins syngjandi manns:
þú sérð ekki að veðrið hann bagi,
því stormurinn skrikar á hljómunum hans
og hríðarnar fara út af lagi.
8.
Og húmið hans nálgast sem niðómur vær,
hans nótt líður brosandi úr sjónum,
er purpurakápunni kvöldroðinn slær
um kónginn sem ríkir á tónum.
Til dagseturs enn er þó dálítil stund
og dansandi líður hann veginn,
því pokinn er léttur; þar lýir ei pund
af laununum hvorugum megin.