Fyrsta kviðan úr Vítisljóðunum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fyrsta kviðan úr Vítisljóðunum

Fyrsta ljóðlína:Við hálfnað skeiðið einn og engum nærri
Höfundur:Dante Alighieri
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Við hálfnað skeiðið (Sjá 90. sálm Davíðs: Ævidagar vorir eru sjötíu ár, o.s. frv.) Áætlað er að Dante byrji á verkinu vorið 1300 og er þá 35 ára.

Með skóginum á hann ekki aðeins við að hann hafi hvarflað frá hinum rétta vegi þegar eftir dauða Beatrice, heldur dregur hér upp tvöfalda líkingu, sem bæði á við „villunótt mannkyns um veglausa jörð“ og ekki síður við stjórnmálaerjur samtíðarinnar, sem hann var sjálfur við riðinn og harðlega flæktur   MEIRA ↲
Fyrsta kviðan úr Vítisljóðunum
(Skógurinn)

1.
Við hálfnað skeiðið einn og engum nærri
ég áttavilltur stóð í myrkum viði,
þeim stíg, er skyldi ég fara, órafjarri.
2.
Ó, það að lýsa þessu dimma sviði,
hvar þöglir stofnar naktar greinar teygja,
rænir mig ennþá ró og sálarfriði, —
3.
mér væri tæpast þyngri þraut að deyja;
— þó var hið góða nær en vænta mætti,
því hlýt ég frá því öllu í söng að segja.
4.
Ei veit ég enn með hverjum dularhætti
ég hingað kominn var, í þungum dvala,
svo ekki lengur réttrar götu gætti.
5.
En sem ég steig úr djúpum skógardala
og dauðageigs í hjarta mínu kenndi,
þá sá ég fjallið, faðmað morgunsvala
6.
og birtu þeirri, er sólin ein oss sendir,
sú sól, er jafnan braut til lífsins greiddi
og villtum manni á veginn rétta bendir.
7.
Sú sýn að nokkru angist þeirri eyddi,
sem um mitt hjarta nóttin hafði vafið,
sú nótt, sem mig í villu og vanda leiddi.
8.
Sem sá, er skip sitt á í öldum grafið
og einn að landi komst, til baka lítur
og döprum augum horfir yfir hafið,
9.
svo leit ég yfir skóginn, þar sem þrýtur
vort þrek, af eigin dáðum, leið að brjóta
í myrkri og neyð, — og margur farast hlýtur.
10.
Nú fannst mér samt ég nýrra krafta njóta
og nálgast tók ég fjallsins undirhlíðar,
við endurheimta orku þreyttra fóta.
11.
En einmitt þar sem heilsa hæðir víðar,
þar hóf sig deplótt pardursdýr úr leyni,
með léttleik meiri en sá ég fyrr né síðar,
12.
og leið mér varði. Ég hinn svifaseini,
sá mér ei annað fært í miklum vanda,
en hörfa undan líkt og lostinn steini.
13.
En sólin reis — og hlýtt til hafs og landa
hún horfði í fylgd með sínum stjörnuverði,
er skipað var við hennar hlið að standa
14.
þann tíð, er drottinn heim og geima gerði, —
því gladdi ég minn hug í þessum voða
og óttans tár af augum mínum þerrði:
15.
Sjá, þetta dýr mun gjarnan gæfu boða,
með glæsilit á sínum mjúka feldi,
umleikið vorsins mildi og morgunroða.
16.
En þá á ný ein svipleg sýn mig hrelldi:
ég sé hvar grimmlegt ljón mér bannar veginn,
augu þess brunnu af hungri og heiftareldi.
17.
Enn sá ég fleira: að mér hinumegin
úlfynja horuð, fýsnum mörkuð, læddist,
— margur var lágt af hennar hrammi sleginn.
18.
Nú varð mér þungt um spor, minn hugur hræddist:
ó, hvenær næ ég fjallsins björtu tindum?
án styrks og vonarvana brjóstið mæddist.
19.
Sem sá, er dró sér fé í fýsn og syndum,
en finnur tapast allt, er honum græddist,
og fyllir hugann sorg og myrkum myndum,
20.
svo barst ég undan eins og strá í vindum,
óargadýrum hrakinn, til þess staðar,
er þögull hnípir, sviptur sólarlindum.
21.
En sem mitt enni óttans sveiti baðar
og angist þung minn fót á göngu tefur,
ég sé hvar maður fer og ferðum hraðar.
22.
Ég æpti: Veit mér líkn, ef líf þú gefur,
hvort liðinn eða mennskur ert! Hann svarar,
rödd þess er langa-lengi þagað hefur:
23.
Mig dáðu og hylltu forðum fólks míns skarar,
mín fræga ætt frá Lombardí sig taldi,
við Mantúu er upphaf (minnar) ævifarar.
24.
Þann tíð var Sesars tími á undanhaldi,
við tignan falskra guða bjó ég lengi,
í Róm, í Ágústusar vern og valdi.
25.
Ég var það skáld, er orti á orðsins strengi
Ankises syni lof, er heim hann sneri,
þá Trója féll og rúðist gæfu og gengi.
26.
En hver ert þú, er flýrð sem fældur héri
að fylgsnum harms og dauða, en vogar eigi
til fjallsins, þar sem gleðin eilíf greri?“
27.
Þá ert þú Virgill, orðsins ódauðlegi
ástmögur fyrr og síð, ég mælti í hljóði,
að handan kominn langt um leynda vegi.
28.
Þú, sem af öðrum barst í list og ljóði,
ó, leys mig, bróðir, vegna stefja minna
og vegna þess hve ann ég þínum óði.
29.
Þú, sem með tign og töfrum strengja þinna
þann tón mér gafst, sem fólk mitt ann og dáir,
meistari, lát mig hjá þér frelsun finna;
30.
vík óvætt hinni soltnu, er þungt mig þjáir
og þrengir minni sál með óttans kvölum,
frá brautu þeim, er hjartað heitast þráir.
31.
„Ef burt þú vilt úr skógardjúpsins dölum,“
hinn dauði kvað, „þá vel þér aðrar leiðir
en þessar, upp að fjallsins sólarsölum.
32.
Ylgurin, sem þinn fót á flótta neyðir,
ferðir um land sitt bannar, veginn girðir,
og þann sem vogar, hremmir hún og deyðir.
33.
Illvilji hennar engi takmörk virðir,
ómettanleg hún sérhvert lögmál brýtur,
og græðgin vex því meira sem hún myrðir;
34.
með grimmum dýrum girndar sinnar nýtur
og girndin vex, – uns fjarrir tímar senda
þann veiðihund, sem varginn sundurslítur.
35.
Og hann skal ríkja í löndum fornra fjenda
frá Feltró og til Feltró, sigurvirkur,
réttlæti trúr og dyggur utan enda;
36.
hans fæða er hvorki gull né mold og myrkur,
en mildi, afl og viska, — og hann skal boða,
í hinum sanna guði stór og styrkur,
37.
ítölsku landi hinn unga morgunroða,
sem Evríalus, Kamillu og bæði
Túrnus og Nísus bar í banans voða.
38.
Ylgina skal hann hrekja í helgri bræði
Helvítis til hvar fyrr hún átti heima,
er öfund vakti hið illa drekasæði.
39.
Nú skal ég þig um ógna- og undrageima
eilífðarinnar styðja hendi minni,
margt það að sjá, er munt þú aldrei gleyma.
40.
Angist og kvöl mun ægja sálu þinni
hvar andar Vítis hrópa í neyð og kvíða
og dauðann biðja ásjár öðru sinni.
41.
Þú munt og sálir sjá, er glaðar líða
í sektareldsins greip, en vona og trúa
að þeirra muni hin fagra frelsun bíða. —
42.
Loks munt þú sjá hvar sáluhólpnir búa
í sælu og náð, — þá skal þig annar leiða
verðugri mér, en eg mun aftur snúa.“
43.
Því inn í himinsali sólarheiða
hinn sanni herra, er ríkja um eilífð hlýtur,
mér, brotamanni, vill ei götu greiða.
44.
hans tignarsæti er hvar sem helst þú lítur,
jafnt hér sem þar hinn óumbreytanlegi;
— ó, sæll er sá er drottins náðar nýtur.“
45.
Í nafni hans, sem önd þín þekkti eigi,
ég innti þá, til hjálpar þig ég særi
í hættum þeim, sem verða á mínum vegi.
46.
Stíg með mér yfir lífsins landamæri
og leið um dauðans ríki veikan bróður,
að hinu gullna hliði, vinur kæri.

Hann hóf sinn langa gang. Ég fylgdi hljóður.