Minni Íslands | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Minni Íslands

Fyrsta ljóðlína:Norður við heimskaut í svellköldum sævi
bls.1–2
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Norður við heimskaut í svellköldum sævi,
svífandi heimsglaumi langt skilin frá,
þrungin af eldi og þakin af snævi,
þrúðvangi sveipuð, með mjallhvíta brá
eykonan forna og alkunna stendur,
ættarland Ságu og frelsisins skjól,
þar sem að marghæfir mæringar endur
menntunar vermdust af geislandi sól.
2.
Í jöklanna skjóli þú járnelfdu geymdir
jólhelgar sagnir um Valhallar þjóð,
athöfnum feðranna engum þú gleymdir,
indælar fornkappa sögur og ljóð
endurtók bergmál þitt hverjum í hnjúki,
er heimur í myrkranna draummóki svaf.
Fallandi tímanna foss þó að rjúki,
hann flytur það aldrei í gleymskunnar haf.
3.
Skyldu þá arfar þér aldraðir gleyma,
ástkæra móðurland, kynsæla grund?
Á þínum brjóstum, þar eigum vér heima,
ævinnar fyrstu þar lifðum vér stund.
Blessi þig drottinn um aldur og ævi,
eflist þinn hróður og vaxi þitt ráð,
norður við heimskaut í svalköldum sævi,
svellkrýnda, eldþrungna minninga láð.