Ólafs vísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ólafs vísur

Fyrsta ljóðlína:Ólafur kóngur Haraldsson
bls.298–301
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar
1.
Ólafur kóngur Haraldsson
hann gefi oss sigur og tíma
so að eg hafi djörfung til
um aðferð hans að ríma.
2.
Ólafur kóngur Haraldsson
hann reið um þykkvan skóg:
hann sá lítið spor í leir,
slík eru minnin stór.
3.
Svaraði hann Finnur Árnason,
var honum á því þokki:
„Fallegur mundi sá lítill fótur
væri hann í skarlats sokki.“
4.
„Heyrðu það, Finnur Árnason,
hvað eg segi þér:
áður en sól til viðar rennur
meyna fáðu mér.“
5.
Þeir sáu fram á fögrum skógi
eina mey so fríða,
þeir buðu henni á stofn að stíga
og so með sér ríða.
6.
En so svaraði kóngurinn,
hann dvaldist þar um stund:
„Hvert er heiti þitt, fagra fljóð,,
sem komið er á minn fund?“
7.
„Álfheiður heiti eg, göfugur herra,
síst mun virðing þrjóta.
Nú er eg kominn á yðar fund
og þar mun eg giftu af hljóta.“
8.
„Farðu heim til drottningar
og þjóna þú henni með sóma,
þá muntu í mínu ríki
njóta sigurs og blóma.“
9.
„Heyrðu það nú, dýra drottning,
trúa máttu mér:
Ólafur kóngur Haraldsson,
hann skipaði mér hjá þér.“
10.
Drottning braust frá göfugum herra,
varð henni af því mein
því hún varð um vintrarnátt
að byggja sængina ein.
11.
Það var einn so snemma myrgin,
sólin skein í tíma,
drottning sendi Álfheiði
að leita saxa sinna.
12.
Álfheiður sig til svefnskemmu gekk,
þessi brúðurin svinna.
Kóngurinn spurði það einkafljóð:
„Hvað vildir þú finna?“
13.
En því svaraði Ólafur kóngur,
hann fréttir vífið teita,
hún lét sér það orð af munni verða,
hún kvaðst sér sonar leita.
14.
En so svaraði kóngurinn,
að því gefur hann gætur:
„Stígðu upp í sæng til mín
og þvoðu vel þína fætur.“
15.
Það var rétt með fullu tungli
og miðju sjávar flóði,
byrjaður var á drottinsdag
Magnús kóngurinn góði.
16.
Með fullu tungli og flóði að sjá,
tel eg af góðs manns æði,
tiggi byrjaði tiginn son
fyrir utan angur og mæði.
17.
En so svöruðu kóngsins menn,
so er á bókum ort,
fyrri hafði hann bætt þá synd
en hann hafði hana gjört.
18.
Álfheiði dreymdi fyrsta draum
og var sá lengst í loti
að henni þótti á sinni ævi
Noreg öll á floti.
19.
Álfheiði dreymdi annan draum,
sté hún á kirkjugólf,
að henni þótti á sinni hendi
kveikjast ljósin tólf.
20.
Álfheiði dreymdi þriðja draum,
get eg hún giftu fangi,
að hanni þótti hinn þriðji geisli
fljúga sér úr fangi.
21.
Álfheiður hugsar um sinn hag
af alls öngum þjósti,
finnur hún það með sjálfri sér
að hún hafði barn fyrir brjósti.
22.
Drottning bauð við hennar draumum
tólf sín bestu bú,
gifta hana lendum manni,
neitaði hún því þó.
23.
En því svaraði kóngurinn:
„Vant er um að velja,
þú skalt aldrei þína drauma
rétt með verði selja.“
24.
En því svaraði kóngurinn
áður hann reið til hófa:
„Eigðu sjálf og unntu vel
og njóttu draumsins góða.“
25.
Álfheiður fangar þunga sótt,
sú gekk helst af magni,
konurnar sögðu körlum til
að lítið væri að barni.
26.
En so svaraði hann Sighvatur skáld,
so er á bókum ritað:
„Hvort viljið heldur skíra barn
eða fyrir svörum sitja?“
27.
En so svöruðu kóngsins menn,
prýddir vel til dáða:
„Þennan bjóðum vér kostinn þér,
vær látum þig sjálfan ráða.“
28.
Sighvatur gekk þar inn í höll
sem kóngurinn sat yfir borðum:
„Skylt væri mér inna til
eitt . . . tal með orðum.
29.
En so svaraði kóngurinn:
„Legg eg við so ríkt:
hvör gaf þér, Sighvatur, orðlof til„
að skíra barnið mitt?“
30.
„Því lét eg hann Magnús heita,
gjöra skal á því grein:
eg vissa ekki æðra nafn
veraldarkóngs í heim.“
31.
En so svaraði kóngurinn,
hann hélt á borða ljóma:
„Þú skalt alla þína ævi
[honum] Magnúsi þjóna.“
32.
Jesús Kristus Maríuson
leysti oss frá nauðum,
þar næst hjálpi hann allri þjóð,
bæði lífs og dauðum.