* Rímur af Partalopa og Marmoríu – Sjötta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Partalopa og Marmoríu 6

* Rímur af Partalopa og Marmoríu – Sjötta ríma

RÍMUR AF PARTALOPA OG MARMORÍU
Fyrsta ljóðlína:Missti snilldir mærðar teinn
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1851
Flokkur:Rímur
1.
Missti snilldir mærðar teinn
máls af dreginn stíu.
Hölda vildi hver og einn
hljóta Marmoríu.
2.
Engum fylkir* Frakkalands
fögnuð yfir lýsti,
hvorutveggja, hjartað hans,
heift og sorgin nísti.
3.
Tjást Órækju tíðindin,
tryggð var alin kvendi,
prúðann Óma páfuglinn
Partalopa sendi.
4.
Eftir hans í farir fer
flóðs á metnum linna,
ungan hrannar vita ver
vill að máli finna.
5.
Áður nefnda gnípu grey
gat hún litið augum,
þar í vörum fríðast fley
festi gildum taugum.
6.
Rögnis kvinnu* reikar á
riddurum með sínum
þar til gyrðir söðla sá
sveipaðann týgjum fínum.
7.
Þóttist kenna klárinn manns,
kappar við hann þreyta.
Mælti svanni: „Hér er hans
hauðrið um að leita“.
8.
Leitar, mætir þanka þúst
þrömin byrðar Grana,
mosa finnur flata rúst,
fótum treður hana.
9.
Heldur mikið sparkar sprund,
spjallar: „Rándýr það er“.
Fótum kvikar eitthvað und,
ekki veit eg hvað er.
10.
Liljan hrings um lyndisstig
lá við mundi stansa.
Sagði þó: „Eg særi þig -
sértu maður - að ansa“.
11.
Lágtalaður Lopi tér:
„Lindin Kraka sáða.
Þiggðu verri þökk af mér;
þú mig fórst ónáða.
12.
Skaltu vita eg þekki þig
þjassa dóma Bilin.
Viltu hvað? Þú vissir mig
við þig áður skilinn“.
13.
Mosahús Órækja reif,
ráðið þankinn greiddi;
manninn þekkan þaðan dreif
og þjórs um æginn leiddi.
14.
Með hann fór hún fram á skip,
festar dró úr sandi,
allt var það í einum svip,
ýtti byr frá landi.
15.
Sörva grér* og baugabil*
bjuggu týgjum vænum
Ránar hest, og riðu til
Rúðu fram á sænum.
16.
Þar á landið feta fús,
fjarri þorska höllu
litu standa stokkahús*
stórt og frítt að öllu.
17.
Brauð og vín á borði var,
bæði sæng og klæði,
átu og drukku inni þar,
eina viku bæði.
18.
Víst hvort hefur verið mey,
vefjan frænings sala,*
má ei vita, mér er ei,
meira leyft að tala.
19.
Þá við Lopa þorngrund* tér:
„Þér hefir aukist kraftur,
vertu hér, eg fljótast fer,
finna skal þig aftur“.
20.
Allri með þau kveðjast kurt,
kossum hreyfa fríu,
hún Órækja heldur burt,
heim til Marmoríu.
21.
Kærleiksorðum kveður fljóð,
kjósin bauga stranga,
stúrin þegar stynur móð,
styður hönd á vanga:
22.
„Eðla systir elskulig,
ert með daufu bragði,
hvað er, það sem hrellir þig“,
hún Órækja sagði:
23.
„Þó að syrgir ljóst og leynt,
lúruð hjartans pínum.
Partalopi lifnar seint,
lostinn prettum þínum.
24.
Minning hans þú kastar körg,
kærleiks neistar deyja,
en lengur hefur mærin mörg
mátt í festum þreyja.
25.
Hægt að þola þreyttum er,
þrautir einlífs dvína,
eftir páska heldur hér,
hátíð brúðkaups þína.
26.
Hjúpuð voðum hreinlífis,
hafin stjórnar línum,
drekkur soð af dramblætis,
dugnaðs verkum þínum“.
27.
Gusar anda glóandi
Gefni Rínar skara.
Marmoría mælandi:
„Mál er til að svara.
28.
Hver þig sendi syrpan óð,
sorg á mína bætir;
úr mér drykkir dauðablóð,
dyggðalaus, ef gætir.
29.
Þú mér brigslar vart í vil,
verst um giftu þrefið,
eg hef þar ei já við til,
jálkum spjóta* gefið.
30.
Engann kjósa mun eg mann,
margir að því skopa;
nauðug missa mátti eg þann
mæta Partalopa.
31.
Slíkt á ég að þakka þér,
þrauta bindst ég kífi;
fólið versta færði mér
Freyrinn seims með lífi“.
32.
Víst Órækja vita fékk,
vilja frænku sinnar,
hálfbrosandi burtu gekk,
brátt til eyjarinnar.
33.
Partalopa finna fer,
fréttir engar sparði;
honum greinir eins og er,
allt frá Miklagarði.
34.
Hún það sagði hentugast;
hirði ættartanga,
hann á eggjar heldur fast,
heim til borgar ganga.
35.
„Til að prófa riddi rí,
rekkum meður fríðum.
niflungsson af Normandí,
nefnast skal hjá lýðum“.
36.
Skildu þau í þetta sinn,
þrotinn hótum meina,
ríða tekur riddarinn,
röskur, leið um eina.
37.
Hún var bæði breið og löng,
blikaði rósum fegri;
hver annari aldinstöng
ilmaði dægilegri.
38.
Milli láðs og svoldar sund,
sjólar hrannar bríma
út á ríða ey af grund
urðu um fjöru-tíma.
39.
Til Órækju reikandi,
rekkar hljóðum brýnum
kalla: „Rauði riddari
ríður í eyjum þínum“.
40.
Þeir við skrafa skarlats Gná:
„Skal hann hér innlendur,
hvert erindi hefur sá?
Hvaðan var hann sendur?“
41.
„Ekki veit ég um það par“,
Órækja nam svara,
í því bili bar að þar
börinn Óðinsskara.
42.
Hljóp af jór og heilsaði,
hrönum [?] byrðar Grana,
til Órækju reikaði,
og ræddi blítt við hana.
43.
„Hvaðan ertu“, hringhöll tér,
„heitið segðu líka,
þykir varða miklu mér,
menn að hitta slíka“.
44.
Rjóður ansar riddarinn:
„Rikisór eg heiti
fékk Normanndí faðir minn,
frægur að öllu leyti.
45.
Eg er sendur á þinn fund,
angurs fyrtur meinum.
Sagt er mér að sóma sprund,
sértu í öllum greinum.
46.
Hjá þér vil eg vera um sinn,
vænstan þiggja sóma“.
Vífið sagði: „Velkominn
vertu beitir skjóma.*
47.
Þitt eg rífka ráð hjá mér
rjóður axa blíði
má til eigna metast þér
minn kastalinn fríði.
48.
Þú skalt hafa fátt um flest,
forvitinn þó síður,
Rínarglóðum býttu best,
brögnum viðmóts þýður“.
49.
Að Miklagarði mærin fór,
meira ei ræðir hana um,
rausnar fjáður Rikisór
ræður kastalanum.
50.
Eitt sinn fer hann út að sjó,
augum skemmta sínum,
eina sér hann árakló,
undir seglum fínum.
51.
Glaður sporum fjölga fer,
fram að hnísulandi,
skoðar gnoð að gamna sér,
greip á festar bandi.
52.
Talar þá við sjálfann sig:
„Sviður Fáfnis palla
ei forvitinn mundu mig
meður réttu kalla. -
53.
Þó eg tæki á þóttu hund,
þeim úr fjöru sneri,
og á honum yfir sund,
eg til gamans réri“.
54.
Lausan hrífur hjörva Þór, -
heldur ráða góður,
- knörinn, seglið feldi, fór
fram á lýsu rjóður.
55.
Tókst að róa tveim höndum
týru lagar Hropti,
elris hundur háþöndum,
hrímugum geyjar hvofti.
56.
Vall óholla froðufall,
fram úr garmi stórum,
óró sjávar illa skall,
uppi á Rikisórum.
57.
Gat ei róið grunnungsmið,
gustur óa tekur,
áls um móinn snögt á snið
snekkju hróið rekur.
58.
„Það á sannast máltak mér“,
mækja ver nam segja:
„Sjaldan venst ef varað er,
verð eg nú að deyja“.
59.
Þegar nauða þuldi hjal,
þollur beða slanga,
bátinn rak með heilum hal,
háum lands að tanga.
60.
Samt ei brestur sundsotur,
sjós í grandi stríða,
hjörva lestir hundvotur,
hljóp á landið fríða.
61.
Fennulanga Fjölnismey,
Fullu spanga harinn,
varð að ganga, vanur ei,
vantaði stangamarinn.
62.
Rikisórus ráðþrota,
réð ei hug ókyrum
komst að einum kastala,
karl stóð fyrir dyrum.
63.
Nefnist Gramur beslu bur,
búi ramur fjalla,
galdrahamur, grályndur,
gæðatamur varla.
64.
Hafði lotinn herðabrík,
hnút á bringuteinum
hans voru glirnu greyin lík
glóandi kvarnarsteinum.
65.
Lafði strýið ljótt og svart,
liður skeggið sneri;
allt að nafla ofan snart,
eins og tagl á meri.
66.
Nasirnar sem naustin víð,
næsta blár í kinnum,
ljósgrá eyrum loðin, síð,
líkust varga skinnum.
67.
Skakkann hákarls skaflinn bar,
skúm frá gómi rennur,
voðalegar voru þar,
villigaltar tennur.
68.
Bar í síðum brúnunum,
bræði merkið fauti,
húðin snörp á hálsinum,
hrukkaði þykk sem nauti.
69.
Bar á fingrum kynja klær,
kauðinn hár og digur,
hefur verið hverri mær
hrikinn óttalegur.
70.
Hvorki þurfti hlíf né gerð,
heiftin sinnið vafði,
fjandans klærnar fyrir sverð,
fjallabúinn hafði.
71.
Lopi þá með sjálfum sér,
sagði í hug brynjaður:
„Slík ófreskja, fjandinn er
fúll, en ekki maður.
72.
Kargur risi rammaukinn,
rænustór að vonum,
ef ég bæri brandinn minn,
bana skyldi honum“.
73.
Risinn glápti á geirsstafinn,
greinir arfinn tyggja:
„Góðann daginn Gramur minn,’
gisting vil ég þiggja“.
74.
Ansaði Gramur óindæll:
„Ertu sendur hvaðan,
mig að spotta þreklaus þræll,
þrjóttu að heillum“, bað ’ann.
75.
Gramur þrífur geymir brands,
gjörði friðinn taptann,
báðar hendur bindur hans
bakið fyrir aftan.
76.
Holdið kreistir hjörs á njót,
heldur illmannlegur,
átján tröppur, orð með ljót,
upp í turn svo dregur.
77.
Kvásar af mæði kjaft opinn
kauði gæða sviðinn,
hnepti í læðing harðsnúinn,
hrjáðann klæða viðinn.
78.
„Mér hefur tekist mikið vel“,
mælti karl með pínum,
„þú skalt svelta hér í hel
hjá lagsmönnum þínum“.
79.
Ofan gengur ánægður,
eftir vinnu ófína,
friði sönnum frábægður
finnur kvinnu sína.
80.
Farðu sagði hann fljóðið verst,
fagnaðu riddaranum,
sem ég hefi haft að gest,
hér í kastalanum.
81.
Siðan brá við heldur hart,
hrekkja knái sniðill,*
tók upp á sig tignar skart,
týgjaðist þá sem biðill.
82.
Lét orms jörð á loppu sér,
lagaður skalla krúnum,
söðlar brúnann blakk og fer
burt með þræl harðsnúnum.
83.
Held ég megi hlakka til
hýrleit Marmoría,
hann því ætlar hrings við Bil
hjúskaps notað drýgja.
84.
Frúin gekk í fanga krá,
frá sem áður ræddi,
þar hún átján ýta sá,
alla pínan mæddi.
85.
Hún á þegna starði og stóð,
stansi hyggjan gréri:
„Minn húsbóndi“, mælti fljóð,
„margbölvaður veri“.
86.
„Mér hefur stolið mellubur,
mig í þrautum elur,
villir garpa göldróttur
og góssi þeirra stelur.
87.
Sínum treystir fræðum frí,
fyltur metnaðs arði,
hann er reistur héðan því,
heim að Miklagarði“.
88.
Fangana spurði falda Gná,
fyrstur Lopi kenndur;
sagði hvernig öllu á,
ætt og ferðum stendur.
89.
„Væri ég í Hildarham,
hlífa gyrtur flagði,
færi ég strax að finna Gram
fús“, hann Lopi sagði.
90.
„Einatt hef ég Yggs á frú,*
átt við bágt að stríða,
þó samt aldrei eins og nú
orðið í böndum líða“.
91.
Frelsi býður refla rún,
ræsis syni bjarta,
Lopa síðan leysti hún,
hann lofaði guð af hjarta.
92.
Þáða lífgjöf þakkar best,
Þundur drakonshlíða,*
þaðan leiðir góðann gest
Gefnin tvinna blíða.
93.
„Fyrst þig lystir“, frúin tér,
„fyrir mig að stríða,
Fjölnis þigg þú föt af mér
og fagrann jór að ríða.
94.
Einnar bónar bið eg þig,
Bör spjóts ærutamur,
að hann finnir fyrir mig,
fúll er karlinn Gramur“.
95.
Þannig ræðir þorna ver:
„Þetta skal eg gera,
aldrei þarftu mein af mér,
menjalindin bera.“
96.
Lopi kveður lauka ná,
lengur þar ei bíður.
Herjans klæddur úlpu á,
eftir Gram svo ríður.
97.
Var ei kominn langt á leið,
lundur snáka dýnu,
heyrði bæði hróp og reið,
hann að baki sínu.
98.
Hikar við og hljóp af jór,
hyggur fremur vita,
sá hann koma kesju Þór,*
kófsveittann af hita.
99.
Lopi kennir hann til hálfs,
hyggju verður glaður,
heilsar brennu Ulli áls,*
aðkomandi maður.
100.
Barbarús til blíðu snar,
burði greinir frétta.
Partalopi líka þar,
lét hann sjá hið rétta.
101.
Inn um beggja brjóstið þar
bestum með fögnuði,
ilmur stígur ánægðar,
ástþökkuðu Guði.
102.
Lagsmenn riðu listugt þá,
ljóns um grænu bælin,
Gramur illi svoddan sá,
sagði fljótt við þrælinn:
103.
„Hingað skunda skatnar tveir,
skulum oss ei leyna,
turnimentið* munu þeir,
máske vilja reyna.
104.
Vopn og hesta þeirra af þeim,
þróttgir, skulum taka,
klæða snauða svifta seim,
sendum þá til baka.
105.
Ef þú dugar dörs við göll,*
dyggur þessu sinni;
þín skal virðing aukast öll,
út af hátign minni.
106.
Hún Órækja ráðist þér,
ríkdóms meður arði,
þá ég drottinn orðinn er,
yfir Miklagarði“.
107.
Hýrnar aulinn hjal við Grams,
hvorugur þurfti bíða,
álmaviðir* innan skamms
ötulir þangað ríða.
108.
Gramur ljótann glenti kjaft,
greinir: „Njóta klóta[18],
held ég þrjóti hug og kraft,
hér í róti spjóta“.
109.
Gramur kalla náði nú,
níddi barka lóðir:
„Versti fantur þorir þú,
þessa ríða slóðir.
110.
Ef þér heyrðist heiti mitt,
horuðum og svöngum,
veit ég félli vopnið þitt,
veikt úr knúatöngum.
111.
Þig að skera met ég mér,
minnkun herra fínum.
Fjölnis plögg og föt af þér,
fáðu þræli mínum.
112.
Einnig bitils úlfur* þinn,
umsjár missi þinnar,
far sem hrjáður hundurinn
heim til konu minnar“.
113.
Lopi hjalar: „hrygð ei nein,
hnekkir geði mínu,
minn ég slíðra mistiltein
meður hjarta þínu“.
114.
Gramur eirir engu þá,
atti breiðu spjóti;
Partalopi líka brá,
linna sárs á móti.
115.
„Læt ég garpa að gamni sér,
glingrið spjóta herða.
Frægsta ráðið finn ég mér,
fyrir þeim ei verða“.


Athugagreinar

2.1 fylkir: konungur.
6.1 Rögnir (Óðinsheiti); Rögnis kvinna: jörðin.
15.1 sörva grér: (mannkenning).
15.1 baugabil (kvenkenning).
16.3 stokkahús: bjálkahús.
18.2 fræningur: ormur; fræningssalur: ormaból, gull; vefjan frænings sala: kona.
19.1 þorngrund: kona.
29.4 jálkur spjóta (mannkenning).
46.4 skjómi: sverð; beitir skjóma: hermaður.
81.2 sniðill (er í raun sverðsheiti). [?]
90.1 Yggur: Óðinn; frú Yggs: Jörðin.
92.2 Þundur (Óðinsheiti) drakon: dreki; drakons hlíð: gull; Þundur drakons hlíða: maður, hermaður.
98.3 kesju Þór: hermaður.
99.3 brenna áls: gull; Ullur (einn hinna fornu guða, sonur Þórs og Sifjar) áls brennu (gulls): maður, karlmaður.
103.3 turniment: burtreiðar.
105.1 dör: spjót; göll: hávaði, gnýr; dörs göll: orrusta, bardagi.
107.3 álmaviður (mannkenning).
108.2 njóta klóti: hermaður. [?]
112.1 bitill: beisli; bitils úlfur: hestur.