* Rímur af Partalopa og Marmoríu – Önnur ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Partalopa og Marmoríu 2

* Rímur af Partalopa og Marmoríu – Önnur ríma

RÍMUR AF PARTALOPA OG MARMORÍU
Fyrsta ljóðlína:Ári fyrri var í vörum vestra skutur
Bragarháttur:Braghent – baksneitt eða braghenda baksneidd
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1851
Flokkur:Rímur
1.
Ára fyrri var í vörum Vestra skutur,
þar sem arfi þengils situr,
þrengdi að hjarta sorgin bitur.
2.
Kortu síðar kuggur gildur kom af hafi,
líkt var eins og Lopi svæfi
og lítið sig að þessu gæfi.
3.
Bárudýrið* blómlegt óð með bráðris [?] kyndi,
alsegl þanið upp að landi,
akker stóðu föst í sandi.
4.
Geislinn bjarti gall á brúnir gylfasyni,*
hreyfði lokum hvarma steina;
hóf þá göngu mátt að reyna.
5.
Þangað kom sem þiljuvargur þreyir auður,
á honum var enginn maður,
ei var Partalopi glaður.
6.
Gekk hann þá á göltinn hlés með gangvaranum,*
reis upp gnoðin, rumdi í trönum,
rakkatetrin fylgdu hönum.
7.
Garmur elris* gekk þar að og ginið brýndi,
líkt var þá sem lítt stöðvandi,
léki mund á hverju bandi.
8.
Kynleg þóttu konungssyni kjör óhlynnin,
skipið sigldi þetta þanninn,
þó hann engan sæi manninn.
9.
Andvarpaði, Ó, hvað ég er illa staddur,
í ólgu sjávar svona hræddur,
svangur, þyrstur, villtur, mæddur.
10.
Sveittur marinn súða* var á sundi hvatur,
borg á fróni Lopi lítur,
Lóðins ari* hlakkar nýtur.
11.
Hlunnabjörninn* bröltir upp af bútungsmiði,
Lopi, hestur, hundar bæði,
hauðrið á og tóku næði.
12.
Fundinn ilmur fagur lima fiðris kunnur,
fríðleikurinn Sviðris* svanna,
seggjum nærði það sem annað.
13.
Þaðan ríður þornaver og þrautum fargar,
engann sá hann utan torgar,
opin stóðu hliðin borgar.
14.
Sú var löguð ligru banda ljósi skæru,
með gimsteinum múrar vóru,
máluð veður teiknin stóru.
15.
Aldrei hafði ’ann augum litið æðri blóma,
var ei heldur vítt um heima,
velkunnugur hirðir seima.
16.
Ríður heim að hallardyrum, hjala tekur:
„Mínum harma högum líkur,
hér er kongur nógu ríkur.
17.
Hann mér veitir herbergi og hjúkrun góða“,
sté af hesti, hleypur víða,
hvergi mátti lengi bíða.
18.
Á honum var ósjálfræði, æði mikið,
var sem áður við hann leikið,
vaskur framdi hallar kreikið.
19.
Hvergi sá hann þengil þann né þegna fremur;
að herbergi einu kemur,
elfdur hurð úr skorðum lemur.
20.
Eitt og tvö hann taldi hundruð tylftir sænga,
varla þorði þar að ganga,
þrykkt af stáli vopnin hanga.
21.
Aftur snéri yfirfallinn eymd og villu,
lítur eina háa höllu,
hún var prýðileg að öllu.
22.
Þangað æðir, ötull vendir inn að dyrum,
skoða nam sig þegninn þar um,
þrautir skeytir ekki par um.
23.
Glitraði höll af gulli rauðu og gneggjum foldar,*
hörpusláttur, sorgir, sældar,
svo þær voru burtu fældar.
24.
Partalopi þenkti þá, ég þakka guði
sem mig hingað færði í friði;
forsjón hans mér varð að liði.
25.
Og þó sjái ekkert fólk á ævi minni,
eg má hafa hér í ranni,
hægð og frið með öllum sanni.
26.
Mun þó ei svo manna fár sá mælistaður;*
hvern er svoddan sómi styður,
og sævar ljósin upp og niður.
27.
Fékk að líta fallegt sæti, fremda hraður,
þokkalegur þornaviður,
þangað fór og settist niður.
28.
Mælti herrann manna Frakka menntaslyngur:
„Sposku mín ef sporin gengi,
spurt ei þetta hefði lengi“.
29.
Hrukku sporar hals af fótum, hreyft var borði,
þvegnar hendur hrings á Njörði,
hann ei vissi hver það gjörði.
30.
Skein á dúkinn, skeiðar, hnífar, skálir nettar,
hollri fæðu hann varð mettur,
hurfu borðin, nótt á dettur.
31.
Komu fögur kertaljós á kristals trönum,
stóðu frammi fyrir honum,
færðu auka hans að vonum.
32.
Partalopi lúinn var og lysti að sofa,
þá fer hann um það að skrafa,
þægar vildi náðir hafa.
33.
Úr hásæti halur sté og hygst til náða,
undan honum ljósin líða,
í langa stofu háa, víða.
34.
Hún var löguð líkt sem hin, með lagðar hvílur,
þær fimmhundruð þegninn telur,
þar að síður lengur dvelur.
35.
Greindi hingað gætinn viður Granabagga,
einum þá ei tekst að tryggja,
ég treysti mér ei hér að liggja.
36.
Þá fór ljós í þriðju höll og þundur geira,
páfuglsmynd og pellið dýra,
Partalopi sá þar hýra.
37.
Tvö og hálft þar taldi hundruð tignar sænga.
Það var leiður þrautagangur,
þó hann ekki væri svangur.
38.
Þá sem fyrri þorði hann ei þar að hvíla,
mælti fyrir meiðum stála,
mínum tapa sóknar mála.
39.
Fór þá ljós í fjórðu höll og fírinn glaði.
Guðvefs tjöldin, gullið bæði,
glugga hjörts á stóru svæði.
40.
Menn ei geta grundað hvernig gylfa niður,
var í huga þrautum þjáður,
þúsund sinnum verri en áður.
41.
Rétt tvöhundruð rekkjur leit þar riddaranna,
þenkir einnig þeir mig finna,
þessu má ég ekki sinna.
42.
Brand laus eigi barist get við buðla tjörgu,
brátt þeir mínu fjöri farga,
finn ég engan mér að bjarga.
43.
Sá hann ljóra hvítan hún til hægri mundar,
þar var gulls á gólfi sandur,
glíkur efra prýði vandur.
44.
Glansaði allur gluggabjörn af glóðum Rínar,
mátti sjá þar myndun hreina,
marmarans og eðalsteina.
45.
Komu þangað kertin undan konungssyni,
honum fanst í hyggju leyni
hnekkja birtan augnasteini.
46.
Og þar sá hann eina sæng með ábreiðuna,
brugðna vera af byrði Grana,
„bestillta“ frá Indíana.
47.
Sama tægistjaldið var í téðu húsi,
með ljómandi báru blysi,
bág teljandi lita glysi.
48.
Silfurfætur sáust undir sagðri hvílu,
þétt prentaðir Þjassa deilu,
þaktir eðalsteinum heilu.
49.
Kristallur og krúsa fans og krisolítus,
Beralas og baresdútus,
beinið foldar turiótus,
50.
Lopi sagði: „Sýnist mér að svoddan rekkja,
byggi þrælar einir ekki,
útbúnir með svik og hrekki.
51.
Heldur sjálfur herrann þessa hússins væna,
hvort sem það er karl eða kona,
kemur mér það fyrir svona.
52.
Hér skal leggjast lúinn ég og lítt að spyrja,
fyrir einum fletið verja,
frá hans beinum holdið merja“.
53.
Vígalegur varð hann þá og vendi að rúmi,
út var lesið rauna rími,
rekkju náða kominn tími.
54.
Og þó kæmi annar til ég ekki flýði,
er það ljótt á æskuskeiði,
ógeltum að nefnast bleiði.
55.
Sest hann þá á sedrus stól hjá sögðu beði,
af sér dregur ystu klæði,
allvel búinn hvar sem stæði.
56.
Sté í rekkju, reifðist voðum rauna fjáður,
faðmlög tók við bana bróður,
býsna var hann honum góður.
57.
Stundu síðar vakna vann og var þá styrkur,
eðalþvita stöpull* sterkur,
stansi gréri vits um merkur.
58.
Í sæng var aukið sjávar ljóma sætri jurtu,
þreifaði lagar buðli birtu
brúðurin var í silki skyrtu.
59.
Vala jörðu vafði um háls á vífi fínu.
Sagði: „Met ég alt að einu,
ættir, fé og hringa reinu.*
60.
Hérna skal ég halda mér um heiði pella,
hér skal enginn hug minn trylla,
hvergi framar um mig villa.
61.
Hér skal enginn af mér taka eyju hringa,
lúra skal ég við þinn vanga,
værðir lífs og yndi fanga“.
62.
Hreyfði blundi hún og sagði: „Hvaða gikkur?
Þér skal verða gerður grikkur,
gæfutjón og æruhnykkur.
63.
Hvers stands ertu, hvaðan komstu, hver þig sendi?
Heimskur, djarfur brjótur branda,
byrlar þínu fjöri vanda“.
64.
Greindi Lopi göfuglegur geðs um krána,
ætt og leiðir allar sínar,
ansar foldin loga Rínar:
65.
„Ég er meyjan Marmoría menntaríka,
dæmi ég það dirfð einstaka,
af darra við á mér að taka.
66.
Ræð ég mörgum ríkjum kongs og rentu þjónum,
hertogum, jörlum, herrum fínum,
Hlöðver líka föðum þínum.
67.
Hefurðu ekki heyrt mín getið hér í ríki?
Hver er þeirrar maktarmaki,
maður eður sá ég taki?
68.
Rétt fimm hundruð röska hef ég riddarana,
ekki kemstu Freyrinn fleina,
frá mér leyni götu neina.
69.
Hálfu fleiri her lýður með hjörinn* stranga.
Átti hingað orku ringur,
erindis kornið vesalingur“.
70.
Þá við meyju mildings* arfinn mælti svona:
„Eg hræðist ekki hermenn þína,
hreysti þó ei spari sína.
71.
Mínu fjöri fæ ég hlíft með Fjölnis skari,
fremdar meira falla væri,
fyrir þeim sig nokkuð hræri.
72.
Veit ég nú að völd ert þú að villum mínum,
fyrir svoddan af mér einum
ættir þú að mæta skeinum.
73.
Þér skal verða þrágoldið með þeirri vissu;
hér í hvílu meydóm missa,
munninn á þér líka kyssa“.
74.
Fljóðið mælti: „Far þú burtu fýsnum taptur,
eins og hundur halakliptur,
heiðri bæði og lífi sviftur“.
75.
Lopi sagði: „Sver ég það við sálu mína:
Ég hræðast skal ei hótun þína,
hvað sem girnist mig að pína.
76.
Áður enn ég lífið læt þú liggur þunguð
happasnauð og heiðri ringuð,
hyggju sorga og plágum þvinguð“
77.
Fljóðið sagði: „Fífldjarfur í föðurgarði;
muntu vera hringa hirðir,
hátign mína lítils virðir.
78.
Ljúga sögur síst að kryddur sóma stykki,
þjóðræmt víða er þitt hugrekki,
þér að enginn maður hnekki.
79.
Vissi ég þetta, villti hingað verinn plátu,*
ann ég þér úr öllum máta,
ef að skyldi nokkrum játa.
80.
Marmoría mildings jóð frá Miklagarði,
kennir dals þó Freyrinn furði
frekar yfir þeim tilburði.
81.
Það sem girnist þú skalt fá í þessum ranni,
bráðla sleppi ég blíðu minni,
best jafnaði móti þinni.
82.
Engann líta máttu mann og mig ei heldur,
þú ef sæist þorna Baldur,*
þínu lífi týndir kaldur.
83.
Mér að gæta, mér við hlífir megnum voða,
eins og barni í skírnar skrúða,
skatna fylgdin mín hin prúða.“
84.
Hennar máli Hlöðvers arfinn hlýtur svara:
„Sárar nauðið sinnið skera,
ef sé þig eigi hjá mér vera.
85.
Mínu geði þóknast þig að þekkja betur,
þú ert kona kær og vitur,
kurteis mun þinn yfir litur“.
86.
Brann í hjörtum beggja hyrinn* blíðu kræfur,
kjörin máttu að kræsti* lifur,
kættist frægur járnabifur.
87.
Þannig klingdu þeirra negg* við þreifað yndi;
þangað til að bjuggust blundi,
bæði þar í friðar lundi.
88.
Sér fer drungi í sönsum mínum sæti byggja,
næsta rór í nætur skugga.
Naustið gistir óðar dugga.


Athugagreinar

3.1 bárudýr: skip. bráðris kyndi] > bráðri skyndi [?]
4.1 gylfi: konungur.
6.1 gangvari: hestur, gæðingur, góðhestur.
7.1 elris garmur: stormur.
10.1 súðamar: skip.
10.3 Lóðinn: jötunn. Lóðins ari (örn): vindurinn [?]
11.1 hlunnabjörn: skip.
12.2 Sviðrir: Óðinsheiti. Sviðris svanni: jörðin.
23.1 foldargnegg: steinn.
26.1 mælistaður] > mæti staður [?]
57.2 þvitastöpull: steinstólpi.
59.3 hringarein: kona.
69.1 hjör: sverð.
70.1 mildingur: konungur; mildings arfi: konungssonur.
79.1 plátuver: brynjaður maður, hermaður.
82.2 þorna Baldur: hermaður eða karlmaður.
86.1 hyr: eldur.
86.2 kræstur: dugmikill [?].
87.1 negg: hjarta.