Tobbusálmur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tobbusálmur

Fyrsta ljóðlína:Sannlega vildi ég sálmtölur smíða
bls.250–254
Viðm.ártal:≈ 1825
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Kvæði þetta ásamt ’Giftingageisla’ hefur Ól[lafur] Runólfsson hripað niður eftir Arndísi Bjarnadóttur, sem hann var samtíða nokkur ár kringum fermingaraldur. Telur hann „líklegt að þau séu ekki mikið færð úr lagi, því að Arndís gamla var bæði næm og stálminnug.“ Arndís Bjarnadóttir (f. 1792) var barn á Borg í Skriðdal hjá Indriða bróður Hallgríms og Ólafur Runólfsson (1847–1927), skrásetjari kvæðanna, var í kringum fermingaraldur á Þorvaldsstöðum þar sem Hallgrímur bjó um tíma. Er ekki ólíklegt að Arndís hafi þá   MEIRA ↲
1.
Sannlega vildi ég sálmtölur smíða,
svo það mætti út berast víða,
mótlætið sem mig gerir þjaka,
mun þó fáa sárt til þess taka.
2.
Megnu er ég mótlæti kafinn:
móðir mín er steindauð og grafin.
Það var von og þess var til getið
þegar hún lengur gat ekki étið.
3.
Svoddan hrelling sárast mig grætir,
sokkatetrin mín ekki bætir,
og í skóna aldrei fær stagað
og engar mínar tirjurnar lagað.
4.
Að hjarta mínu hryggðin mjög límist,
hún var mér þó væn svona ýmist,
þó allir fengi‘ ei af því að vita,
upp í kjaft minn rak hún oft bita.
5.
Sambúð meðan auðnaðist okkur
ellistoð ég var henni nokkur.
Enginn meira gerir en getur,
ég gleðst ef henni líður nú betur.
6.
Sár á meðan sjúkdómur vafði
ég sætar við hana fortölur hafði.
Þó hjá mér sjái hagsýnir bresti
hún hafði ei þörf á lærðari presti.
7.
Ég hugði hana ei heldur bráðfeiga
og hélt það mundi dragast því mega
að sækja henni prestinn þann prúða
sem pipra gerir samvisku lúða.
8.
Um legkaup hann og líksöng nú ærist.
Lengi undan slíku ég færist;
heldur en skrattinn hann skal það hafa,
ég held ég kunni við hann að skrafa.
9.
Gef ég lítinn gaum að hans skvaldri
gripi mína fær hann samt aldrei.
Ég veit nokkuð í lögunum líka,
þó láti því ei gikkina flíka.
10.
Mig hugga‘ ekki margir í bangi
mitt þó brjóstið hrellingin stangi.
Hvern einn tekur sárast til sinna,
söknuður hefur orðið af minna.
11.
Þá árla veturs ein kind er skorin,
aldrei er það þá svo á vorin,
ef enginn þyrfti af því að reita
fyrir einn það mætti drjúgara heita.
12.
Þá er um hennar dyggðir að dæma.
Ég dylst við fyrir orsök þá slæma,
á það vil lítið þess vegna minnast,
þær adregi til neinar finnast.
13.
Svo ég ei af henni sæmdirnar dragi,
söng hún heldur í skárra lagi.
Hrósinu kunni ei hærra að flagga,
hennar eru þar listir í bagga.
14.
Aftur er það angurs í róti
eins og til þess huganum gjóti
að á mat mínum einn má ég sitja,
aldrei mun hún framar hans vitja.
15.
Yfir því get ég ei heldur þagað,
einatt fékk mig kerlingin jagað,
því vil ég nú það á mig játa
ég þoldi ei hennar jögunarmáta.
16.
Síst með tungu- sást ég þá -hafti,
ég sagði hún skyldi halda á sér kjafti.
Skellihögg í skrokk minn þá lagði,
skömm er að þér, kerlingin sagði.
17.
Geysilega greip mig þá bræði,
gleyptu mig þá sagði‘ ég í æði,
innan úr þér, allir sem vita,
áður held ég kominn þann bita.
18.
Hvað skal ég um svoddan eitt segja,
svo sem aðrir hlaut hún að deyja,
einhvern tíma átti hún að fara,
eftir má ég sorgandi hjara.
19.
Hún mátti fara seinast, ég segi,
sjálfum á upprisunnar degi,
því ég hygg að þá færi betur
þegar hún ekki neitt frá mér étur.
20.
Brýt ég hér við blaðið í skyndi
að birta meira af okkar samlyndi.
Ef ég aftur sé hana í sælu
svoddan hætta munum við dælu.
21.
Sorgardiktinn saminn í flýti
sér til fróðleiks þjóðirnar nýti.
Eg hirði‘ ei fyrir höldum að byrgja,
hvernig þeir skuli mæðurnar syrgja.
22.
Svo vil ég lykta sorgina alla,
svo vil ég láta harmana falla.
Einfaldlega er sálmurinn saminn.
Eg sé hana kannske í dýrðinni – amen.