Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Hrafnahrekkur

Fyrsta ljóðlína:Nú skal seggjum segja
Viðm.ártal:≈ 1775

Skýringar

Hrafnahrekkur er ekki einungis skemmtilegt kvæði um samskipti hrafna og tófu heldur einnig merkileg heimild um refaveiðar á Íslandi til forna þar sem bæði er getið um refaveiðar í boga og gildru úr grjóti. Sjá til dæmis um það grein Þórs Magnússonar: „Hrafnahrekkurinn“ í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. 77. árgangur 1980, bls. 73–87.
1.
Nú skal seggjum segja
söguþátt með skýrri grein
og þögn burt frá sér fleygja
sem fólki á stundum gjörir mein.
Komi þið hingað klæðaseljur snjallar
og sitjið á meðan sungið er
eitt sónarkver
því ljóðaklukkan kallar.
2.
Bar svo til í byggðum
bogamaður eitt sinn var
sauði að svipta styggðum,
sífellt veiddi tófurnar.
Ábataðist örvatýr við þetta,
þó nokkuð yrði stundum stans
á störfum hans
að svíkja pútur pretta.
3.
Fræknum fleinaþolli
förlast veiðiskapurinn tók
því einn íbygginn skolli
armæðu stóra honum jók.
Dratthali með drjúgu lymsku bragði
aldrei snerti agnbitann,
en ávallt hann
á þúsund leiðir lagði.
4.
Slægðar greyið grimma
grandaði margri sauðakind
en þegar að réð dimma
ætíð kom á bogans stund
og nætur allar náði agnið verja
svo önnur dýrin fældust frá
nær fjandi sá
tók í heift að hvía.
5.
Geymir góins dýnu
grét af slíku vandræði,
agni sviptur sínu
og sjálfri gróðavoninni.
Döfnuðu frost, en drýgðust snjóar harðir.
Tók að gjörast tófa svöng,
því tíð var löng
og vaktaðar voru hjarðir.
6.
Nú sem neyðin knúði,
nærfærnin svo aukast vann.
Fimleik tófa trúði
og tyllti nögl við agnbitann.
Boginn hleypur brátt sem auga renni,
en fótur á lyddu fastur sat,
hún fékk nú mat,
brá í brúnir henni.
7.
Refkeilan í raunum
ráðalítil mælti þá:
„Má eg nú mínum launum
maklegustum þreifa á.
Lambadreyrann drakk eg áður lengi
og firðum gjörði á fénu skamm,
mér finnst það vamm,
lokið er lukku gengi.
8.
Dapurt er að deyja
dögunum lífsins miðjum á;
en hitt sumir segja
að sé eg illgjörn, fölsk og flá.
Illa fer ef enginn finnst því staður;
en hitt er víst um veraldar rann
oft vera kann
grunnsær margur maður.
9.
Þar fyrir vil eg voga,
vís er dauðinn hvort sem er,
þá illur bendir boga
birtast þegar á morgun fer,
einhvern honum slægðargrikkinn gera
en hvíla mig meðan gríma grá
hér gengur hjá.
Það verður svo að vera.“
10.
Meiðir stáls að morgni
mælt er klæðist aflúinn.
Vakti hann vaninn forni
veiðiskap að stunda sinn.
Sér hann þá hvar sauðbíturinn slægi
blýfastur í boganum lá,
svo bærði ei á.
Hann drap við dauðu hræi.
11.
Kátur kesjulundur
kenndi með henni ekkert líf,
bogann benti í sundur
og belgnum fleygði Þórs á víf.
Í þessum svifum tófa tölti á fætur.
Haukastjórann hann þá rak
í hennar bak.
Það myndaði með þeim þrætur.
12.
Þótti raun ill rebba,
hún reif og skemmdi fróman mann
á munn, hönd, höku og nebba,
og hvar sem náði beit hún hann.
Seggurinn þegar sársaukann réð finna
orkan hverfur tjörgutýr
en tófa snýr
burt til byggða sinna.
13.
Særður seimaraftur
sat með skaða tilfellin,
bogann egndi aftur
og andvarpar með grátna kinn.
„Lifi eg þá stund að tófa í þér tolli,
varast skal ég vondan gamm,
mér veitti skamm,
að sleppi ei skemmdarskolli.“
14.
Nú er að tala um tófu,
Hún tölti burt frá særðum rekk
en hrafnar frakkir flóu
um foldarsvæði hvar hún gekk;
kasta á þá kveðju hún gjörði sinni
en þeir báðu ólukkann
að eiga þann
sem flagð væri í fögru skinni.
15.
Þegar hún þetta heyrði
þungan blés og staldrar við;
skútunum illa eirði
og erta vill þá dálítið.
Varpar hún sér í viðar þykkan runna
og æla lést af offylle
svo áfram hné,
uppfull eins og tuna.
16.
Krummar svangir svara:
„Svelta megum vér dag og nótt,
en aðrir um foldu fara
fullir og spýju hafa sótt;
jafnara má skipta fé og föngum;
hvar skal dubba nú hafa náð
svo nægri bráð?
Þangað er gott vér göngum.“
17.
Tófa reis úr runna,
ræddi svo með velgjubrot:
„Ykkur vil eg unna,
að eta hjá mér kjöt og flot
því allra skepna eruð þið maklegastir
að njóta góðrar næringar
svo þrífist þar
vinirnir vel trúfastir.
18.
Ei þarf langt að leita,
ef leggið rétt til austurs hér
krásin kynjafeita
kynni að verða opinber
sem einn er biti á flötu fannarkorni,
því að í skafli þessum þar
eru þjósirnar;
yddir á efsta horni.“
19.
Þetta krummar kváðu
kynlegt vera um vindsvals nið,
fréttir framar tjáðu:
„Fundvísa þig köllum við.“
Hún þá mælti: „Heillapiltar góðir!
Einhvern tíma eg var rösk
og vinnukö[rs]k
áður um æskuslóðir.
20.
Myndi eg mína drauma
matur yrði nógur til.
Hungraði oft hin auma
sem engin vissi á fróðleik skil;
hjartans kvöl hvað hjábægt ykkur verður
drengilegum og traustum tveim
í tökum þeim,
eða er ykkur galdur gerður?“
21.
Hrafninn ansar annar:
„Yður vil eg þakka beint
ef sagnir eru nú sannar
og svoddan efni gjörvallt hreint;
þar með líka þénustubúnir vera.“
En hún sagði: „æi já!“
og eins kvað þá
sig aftur obligera.
22.
Síðbuxar þá sögðu:
„Síst hér lengi tefja skal.“
Kátir á leið svo lögðu,
léttfærir um vindasal,
kvöddu ref með repútjerlegheitum.
Tófa vafrar kaldri kló,
í kampinn hló
með hljóð af stórum streitum.
23.
Kári kylju hvessti,
krummana lætur byrinn fá,
báðir á brúnu vesti
bitanum kepptust við að ná;
en annar hver hlaut áform slíkt að vinna,
ótvílráður krækti í krás ;
en kvað við lás;
greip hann stálið stinna.
24.
Kroppurinn var í kreppu,
kreistur á millum járna þar,
en hinn við skemmdar skreppu
skaust því burt og beið ei par.
Bóndinn sá af bæjarhlaði sínu
eitthvað dökkt í boganum beið
svo brodda meið
glatt varð geðs um línu.
25.
Arkar strax af standi,
stóran arngeir tók í hönd,
þar um helst hugsandi
holta-þór að veita grönd;
en sagði er leit á vængja blærinn blakka:
„Elía spámanns nokkur nú
skalt njóta þú
og burt með friði flakka.“
26.
Krunkur fjöri fagnar
og flýtti sér úr sögðum reit,
skvaldur mikið magnar,
mælti svo: „Þess strengi eg heit,
áður en líða árin tvö með sanni
lágfótu eg launa skal
sitt lymskuhjal
svo einhverja kreppu kanni.“
27.
Víðförull að vonum,
vitja fór um maka sinn,
tíðindin tjáði honum
og talar vel um bogmanninn;
hermdi og líka heitstrengingu greiða
en hinn kvaðst mundi hjálpa til,
með hagleiksskil,
meldogginn að deyða.
28.
Þá voru þorradægur
þrotin flest um þetta bil,
en veturinn mjög óvægur
og vont að afla matar til.
Urðarkrakkar umferð víða reyna,
eitt sinn komu þangað þeir
er þorna Freyr
gildru egnir eina.
29.
Yggur lægis ljósa
lystugur skildi fuglamál.
Krummar glöggt þá glósa:
„Gefðu nú fyrir þinni sál
eina máltíð okkur gestum báðum,
eitthvert skal þá lukkulag
þér láta í hag,
víst að vorum ráðum.“
30.
Maðurinn gjarn á greiða
gaf þeim ræfil strax af sauð;
en þeir upp á sneiða,
og eyddu þar með hungurs nauð,
báru með sér bógpartinn um grundir
uns þeir tófu sína sjá
hvar soltin lá
kletti einum undir.
31.
Settust krummar kátir
kjúku ýmis þegar á,
mjög svo mikillátir
mat sér gjörðu strax að fá.
Hávaxinn var næsta salur Suðra,
lágfóta þá lítur hátt
með lyndið grátt,
krumma í kring að snuðra.
32.
Klók með kjaftinn flennta
kallar upp til þeirra í stað:
„Skylt er sagt að senda
svoleiðis einn þá kemur að,
er það nú þegar afbragðs herrar slíkir
og höfðingjar um heimsins storð,
þeir halda borð,
mildir og menntaríkir.
33.
Ó! hvað lukkan lénti
að lifði eg slíka gleðistund,
hamingjan þörf mér þénti
þegar eg komst á ykkar fund
og vera nú stödd í vina slíkra húsum
sem bæði hafa góðfúst geð
og góssið með,
saddir af silfurkrúsum.
34.
Vítt hef eg farið um foldu
og fallegar skepnur margar séð
en enga ofan á moldu
öldungis svo við mitt geð
eins og yður, dáfríðustu drengir!
Ó! hvað ljómi er svoddan sjón,
eg syng við tón,
og herði á hljóðastrengi.“
35.
Krummar upp buxum bregða
og brúka þvílík svör á mót:
„Hver er sú flærðar flegða
sem fer með þvílík smjaðurhót?
Eða eru nokkuð langt að komin, Kella!
Hefurðu okkur áður séð
við ómabeð?
Láttu í góm nú gella.“
36.
Tófa tók að mæla:
„Töm er ríkum drambsemin
en auman frá sér fæla
og fixera hann fyrir glapyrðin.
Voldugra spurn eg verð þó úr að leysa.
Blóðdrekk kalla bragnar mig,
og byrsta sig
svo lítt má eg rönd við reisa.
37.
Lúin af löngum erli
eg lagðist undir þessa klöpp;
mark er á mínum ferli,
mér er illt í einni löpp;
smáhvinnska sér smeygði inn hjá mér snemma
en þjóðin ekki þolgóð er
ef það til ber,
vill mig kvelja og klemma.
38.
Báða ykkur unga
eg sá forðum hreiðri í;
liðuð þjáning þunga,
þeygi neinn réð sinna því;
en foreldrar í fjarlægð voru staddir.
Egg og silung eg þá bar
til ykkar þar
svo allvel urðuð saddir.
39.
Nú vil eg kaupið kjósa
og kerlingunni sendið sneið
fyrir þá grein, sem glósa,
græddi eg forðum ykkar mein.
Ættkvísl þessa elska eg því svo stórum,
mér og einninn mun hér vís
ein matarflís
af sauði eða svæfðum jórum.“
40.
Krummar sögðu: “Ó systir!
sæmd er okkur að bjarga þér,
en nú eru vorar vistir
varla eftir neinar hér.
Horfðu nú sjálf á þúfulegginn þarna,
skafinn eins og tálgað tré
svo trautt má ske
að mat við geymum gjarna.“
41.
„Hvað skal um svoddan segja
ef synjandi eg fer á burt.
Virðar við oss sveia,
víst er það og engin kurt
að bregðast þeim sem bjargað áður hefir.“
„Ráð viljum kenna þarflegt þér
sem þar efter
ávöxt góðan gefur.
42.
Sérdeilis þar við sjáum,
síst er að efa þína dyggð;
engan annan fáum
sem eins vel heldur sína tryggð.
Láttu nú enga lifandi kind það vita
heimulegt hvað hjölum vær,
þú heldur fær
oftar ætan bita.“
43.
Tófa talar af létta:
„Taki mig“, sagði hún, „Belzibub,
ef eg skal yður pretta
svo yðar breytni komist upp.
Væri nú hjá mér vitnisburðir mínir,
tvímælin þeir tækju af hér
eg trúföst er,
eins og seðillinn sýnir.“
44.
Fjaðranjótar náðu
nú að mæla hægt og stillt:
„Að orðum okkar gáðu
ef til góða þú brúka vilt.
Við höfum fundið vistir óþrjótandi
upp á einum urðarmel,
og veit það vel,
enginn á Íslandi.
45.
Grjót og stórir steinar,
standa að sönnu allt um kring,
um dyr dálitlar einar
daglega skríðum kjöts að bing.
Það veit eg, að þú ef komin værir,
áræðin og orkukná
þeim urðum frá
fallegan bita bærir.
46.
Við skulum fljótt þér fylgja
svo finna kunnir greindan stað,
að fæðis engine ylgja
áskynja neitt verði um það,
átta mílur eru þangað vegar.“
Tófa þakkar tilboð ríkt,
og telur slíkt,
glósur gleðilegar.
47.
Öll á stað svo streyma,
stiklar tófa en flökta þeir
um öræfis eyðigeima,
ekkert segir frá þeim meir
fyrr en krummar kvölds að einni stundu
komu þar sem klöpp var há,
og kváðu þá
hvílast til morguns mundu.
48.
„Henni tófu hér um
höldum við næsta kunnugt sé,
á ferli aldrei erum
þá af er komið dagsetre.
Til morguns verður máltíðin af að letjast
því nú er skammt á nefndan stað,
hvar nægtum að,
öll munum síðan setjast.
49.
Við skulum fara á fætur
fljótt þegar dagar“, sögðu þeir.
Lágfóta þá lætur
líkt sem vilji hún sofa meir
og bað þá hvílast hvað sem annars væri.
Í hellisskúta hátta fer,
en hrafnarner,
bjargs á fremsta færi.
50.
Tófu vært ei verður,
vaxa tók nú áhugenn,
skopleg skottugerður
skjökta nam á fætur senn.
Fýsir hana að forvitnast um betur
grjótmelur hvar mundi sá
er minnst var á,
og fljótt hann fundið getur.
51 Nasvís nú sem kunni
nokkurn veginn strax þá sér
hvar gat eða grenismunni
gerður á milli steina er.
Inn þar hleypur athugalaust með skyndi,
hentuga flís í hvofti dró,
en heyrðist þó,
eins og eitthvað hryndi.
52.
Ætlaði út að gægjast,
óttafull um sinnubý,
en þá nam henni ei hægjast,
hurð var komin dyrnar í,
og allt um kring fannst engin minnsta smuga.
Hún ólmaðist með spink óspart
og sparkið hart,
það náði ei neitt að duga.„
53.
Kvásis æða unni
eg vík nú til gildrumanns;
í dögun klæðast kunni,
komu hrafnar þá til hans:
„Bonus dies, besti vin!“ þeir mæla,
„veiðisteinar vænta þín,
því vargur hrín,
við Fenris festarhæla.
54.
Ylgur illa lætur,
ýmis millum jaxla nú,
hamdísar grand grætur
ef græðir ei slíka styrjöld þú.“
Stóð þá ekki stálagrér við lengi,
grimma hitti grenjaslödd,
hún gleymdi rödd,
hel trúi ég fljótt hún fengi.
55.
Nefjar um búkinn báðu,
þá búið væri að taka af skinn,
brátt þá beining þáðu,
bartskera tóku verkfærin
og allan búkinn anatomeruðu.
Kátir sátu að veiddum vörð
og víða um jörð
spottlega spasséruðu.
56.
Hyggnir vilja halda
hafi þessir hrafnfuglar
greindum gætir skjalda
gjört að færa Bezóar.
Sagan er klár en Suptungsmjöð á þrotum.
Öllum frómum er mín bón,
minn eyrnasón
horfi að heillanotum.
57.
Bið eg nú bragna kæra
og bríkur auðs, sem hlýddu skrá,
ljóðin í lag að færa
og leirburð mínum ei hneykslast á.
Mærðin stirða nefnist Hrafnahrekkur.
Frosta hast hér brýt eg bát
við bylgjumát,
en Brandur á land upp stekkur.