Hlýrahljómur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hlýrahljómur

Fyrsta ljóðlína:Fram skal kippa Berlings bát
bls.bls. 18–31
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aaaBcccB
Viðm.ártal:≈ 1675
1.
Fram skal kippa Berlings bát,
fyrst biðja sprundin hæfilát,
þó það kosti mæðu og mát
eg má þeim ekki neita;
heldur gegna vífum vel
sem vilja þiggja Sónarpel,
gæfuefni gott eg tel
ef greiðasemi mér heita.
2.
Gott hlotnast af góðum kann,
græta má ei hugljúfan;
auðnulítill er sá mann
sem amar oft hringaskorðum.
Dæmum hans eg dreg mig frá
og Dvalins ferju staldra hjá
ef gæti hin fróma gullhlaðs gná
glaðst af kvæðisorðum.
3.
Mín þó víst sé mærðin klén
og minnst eigi skylt við Kvásers ben
vil eg þó ei að fræðafen
fari með ljóta ræðu;
heldur mæla í meinleyse,
mönnum það til gamans sé;
ef þungum yrði á þjósti hlé
þá er að varpa mæðu.
4.
Seggir hljóti sæmdarhag
og seljur klæða góðan dag;
til skal reynt að tóna brag
og toga í dælu stefni.
Á gömlum blöðum gat eg séð
glósuna sem fer eg með,
fellir hún sig við frómra geð
ef fylgja ljóðin efni.
* * *
5.
Bragurinn telur bræður þrjá
barnfædda í Evrópá,
föður sínum heima hjá
með hegðun æruríka;
en sem voru um æskuskeið,
álma ráður hreppti deyð,
sérhver þeirra banginn beið
því burt var móðirin líka.
6.
Fjórtán vetra fullt ei var
frekastan sá aldur bar;
en hinir tólf og tíu þar.
Þeir töluðu um hagi sína:
Hvort nú skyldi skipta fé
í skerfi þrjá, þó lítið sé,
og fólk sér kynna framande
en fund hvor annars týna;
7.
ellegar hitt, að halda bú
á heimili því sem áttu nú
þó vandamikil vogun sú
væri ungum sveinum?
Miðaldrinn svo mælti þá:
„Mínir bræður! hlýðið á
orðin þau sem eg vil tjá
út af þanka hreinum.
8.
Eg fæ þess minnst að faðir minn
fögur kenndi oss heilræðin;
ályktun og úrskurðinn
undan skyldum draga
til þess væri vel skoðað
vandskiljanlegt það og það;
oft kæmi líka úr öðrum stað
augljósari saga.
9.
Bíða skulum bræður vær
og brúka allar reglur þær
er okkar faðir einka kær
oss, örfum sínum, kenndi.
Gott ráð eitthvert koma kann
ef kvökum uppá skaparann
og vörumst allan vanda þann
er vekur oft stór bágjendi.
10.
Nú meðan sorgarsárin stirð
sefast ei né verða byrgð
getum vær ekki kænt með kyrrð
kosið skástu ráðin;
en þegar líður lengra frá
léttara mun oss falla þá
gæfusamt að geska uppá
sem gefa vill herrans náðin.“
11.
Hér til svara hinir tveir,
hagkvæmt svoddan játa þeir
og báðu hann oftar mæla meir
fyrst mannvit hefði stærra;
fóru svo að iðja ört
áður flest hvað sáu gjört,
billega ræktu bu[r]stahjört
en bernsklegt æfðu færra.
12.
Nú leið svo um nokkra tíð,
naumast kenndu bræður stríð
því sumargæskan björt og blíð
bjargræði þeim tærði.
Örkuðu sveinar oft á skóg,
ýmislegan að fá sér plóg,
dáðajurtir og dýrin nóg
sem daglegt starf áhrærði.
13.
Veiðar sóttu í ýmsa átt;
til annarra manna vissu fátt
því faðir þeirra flúði brátt
frá skurðgoða þjónum
með konu, börn og kvikfénað,
Krist sér hjálpa og stjórna bað
og tók sér byggð á téðum stað
hvar tíð útkljáðist hjónum.
14.
Einhvern dag, sem innt er frá,
enn voru bræður skógi á,
en sem linnti iðjustjá
allir heim þeir gengu.
Hlýrum næsta brá í brún
þá bæinn litu og heimatún.
Viðtakan, og vond var hún!
sem vinnulúnir fengu.
15.
Fjórir illskumiklir menn
mæta hlýra tóku senn,
færðu strax í fjöturenn
og fleygðu í útikofa;
kváðust mundi að morgni dags
miskunnarlaust þá drepa strax,
nær beðið hefðu betra lax,
búnir að éta og sofa.
16.
Reyfarar þessir rétt í stað
rosknum höfðu sauð slátrað,
húsi og soðning settust að
og sinn bæ heita létu.
En hinir í böndum biðu þó
beiskum kvíða að þeim sló,
harmþrungnir um hyggjumó,
hátt samt ekki grétu.
17.
Allir báðu angraðer
æðstan guð að hjálpa sér.
Sá hinn elsti um síðir tér
svo til hinna beggja:
„Hamingjan gæfi að hefðum við
héðan vendað strax á skrið
þá föður vorn henti fjörtjónið
og frómra náð til seggja.“
18.
Yngsti bróðirinn ansar snart:
„Óljóst er oss nokkurn part
hvar dyggðafólkið býr svo bjart
sem bætt hefði vor meinin;
því faðir okkar fékk svo tjáð
að flestallt mengi um þetta láð
heiðið væri og dæmt frá dáð
og dýrkaði stokk og steininn.“
19.
„Betra er flest“, kvað frumgetinn,
„en fastur sitja hér bundinn
og deyðast þegar dagurinn
dreifir skarti sínu.
Er minn bróðir orðalaus
sem áður flutti spektarraus,
glaður í sama sinn eg kaus
að sæta tali þínu.“
20.
Þá réð ansa hinn þriðji sveinn:
„Það sé okkar vegur beinn,
drottinn vona uppá einn
en engu stórum kvíða.
Vilji hann nú vort vernda líf
veitast mun þá örugg hlíf
og dofna þetta dauðans kíf
sem dyggðalausir smíða.
21.
Víst má reyna, ef viljið þér,
veltast til að herðum mér
og bíta í sundur haftið hér
sem hauka þrengir láðum,
strengurinn því mundi mjór
misfarast í tannakór
ef gómaskari greitt ósljór
gengi á þætti hrjáðum.“
22.
Tveir þá veltust einum að
og óspart tuggðu snærisvað.
Frá sér gáfu ei fyrri en það
fjöturin sundur hrukku.
Dáfljót var þá höndin hans
af hinum að svipta læðings-fans.
Allir svo fyrir utan stans
út á skóginn stukku.
23.
Þökkuðu sínum drottni dátt
drengir þrír með lyndið kátt
fyrir hjálp og frelsið brátt
úr fjandmannanna höndum;
fengu sér svo fylgsni smá,
í fjarlægð komnir bænum frá,
skógarins lifðu ávöxt á,
fyrst efnum sættu vöndum.
24.
Varla þóttust vita nú
hvert víkja skyldu Hárs um frú
svo halda mættu helgri trú
en handbjargar þó njóta;
hvarms því sallinn komst á kreik,
þeir kúrðu undir stórri eik,
geðs var rótin gljúp og smeik
því griðin sýndust þrjóta.
25.
Mána systir glöggt þó glöð
gæfi varma ferðahröð,
hlýrum skýldu bjarkar blöð
blunds þeir langan festu.
Miðlungs sveinninn vakna vann
víst fyrst einn um tíma þann.
Hjá sér lítur hænu hann
hlaðna gulli bestu.
26.
Fagran glansa fuglinn bar
fram yfir allar gersemar.
Sveinninn vildi snilldar snar
snögglega þennan fanga
en fjaðranorn sér forðað gat,
föst hún ekki lengi sat,
kom í með þeim keppnis-pat,
þau kreikuðu vegu langa.
27.
Laufaviður loks um frón
á listafugli missti sjón
en það gilti enga bón
aftur að finna bræður.
Dimmri þoku um drenginn sló,
í dauðans kappi hljóp hann þó
burðina til þess burtu dró,
bölið og lúinn skæður.
28.
Villan þótti stór og stæk,
hann staðnæmdist hjá einum læk.
Þegns var lundin þeigi spræk,
þiggja svölun vildi;
fékk svo lítinn dúr dottað
dauðþreyttur í sama stað;
vaknaði aftur þó við það
sem þekkti ei glöggt né skildi.
29.
Örðugan heyrði einhvern hljóm,
ekki líkan mannaróm,
halurinn kenndi hljóðin tóm
en hvergi neitt atkvæði.
Brynjutýr nam tefja í hlé
til þess són[n]inn þagnaðe
og þenkti um mjög hvað svoddan sé,
hann syrgir og fagnar bæði.
30.
Fetaði svo með fjallsins hlíð
furðu gætinn nokkra tíð,
í fögru rjóðri fann um síð
falleg húsakynni.
Kurteis bær og kirkja smá
kynja fríð stóð velli á.
Klerkurinn var að kenna þá
kristnum lýð þar inni.
31.
Vaktist upp fyrir vopnarjóð
að verið hefði klukknahljóð
sem hann heyrði á sinni slóð
sóninn þann hinn snjalla.
Helga messu að heyra þar
honum þótti nýjungar;
úti stóð sem vonlegt var
fyrst vissi ei siðina alla.
32.
En um miðja messugjörð
*minja gekk út einhver jörð
og fann þann unga fleina Njörð
svo fáum skiptust orðum.
Hafði ei fyrri kappinn kær
komist upp á nótur þær
að eiga tal við yngismær
og auðar gá að skorðum.
33.
Meyjan spurði málmabrjót
hvort mæddur vildi ei hvíla fót
og ganga í kirkju snöggt með snót
svo sniðugt fengi sæti.
Sveinninn gefur aftur ans,
á því mundi verða stans
því sinn vondi fantafans
sig firri þeirri mæti.
34.
Þessi hin unga þorna gná
á þegninn starði og litum brá.
Honum segi eg færra frá,
en fólk skal meining ráða.
Hún hefur kennt í brjósti um beim
er bölið leið svo snemma í heim,
og barnslundin í báðum þeim
borið hyggju þjóða.
35.
Kæran ung til kirkju gekk,
karskan skildi þar við rekk,
móður sína fundið fékk
með fagra bæn í hljóði:
„Munaðarlausan sá eg svein
sem hefur ratað þyngslamein,
klæðfár úti kúrir á stein
kesjuviðurinn rjóði.
36.
Ó! Mín móðir elskulig!
ástsamlega bið eg þig
að látir þenna mann fyri mig
miskunn hjá þér finna
og veitir honum velgjörð þá
sem volkuðum helst nú liggur á
svo dapurleikinn dragist frá
og dempist sorgin stinna.“
37.
Sú hin eldri seimaslóð
sagðan hitti skjómarjóð
og mörg þau atvik greiddi góð
er grátnum þótti haga.
Kvendið bar fram kost og vín,
klæðin líka í máta fín,
honum svo bauð í húsum sín
að hýrast nokkra daga.
38.
Þakkar sveinninn þornabil
þetta veitt af kærleiksyl,
hún kreikar síðan kirkju til
en kenning var á þrotum. –
Hópurinn kristni fregnað fékk
fljótt um sagðan komurekk;
flykktist að honum þjóðin þekk
þægðar með atlotum.
39.
Maðurinn ungi minnishress
mælti fram sitt reisuvers,
gjörla alls svo gat hann þess
gengið hvernig hefði
um sína daga og seggi bað
sér að hjálpa mest mest um það,
að bræðrum leita strax í stað
og stórt ei við það tefði.
40.
Karlmenn allir keyrðu á hest,
klerkurinn líka búinn sést,
reið þá hver sem mátti mest,
meir en sextán taldir.
Þeir sér dreifðu um þykkvan skóg,
þyrmdi enginn sinni dróg,
leituðu sumir lengra en nóg
liðsmenn rétt til valdir.
41.
Á þriðja degi; það er skráð
þegnar tóku hvíld og náð,
sváfu þreyttir svo með dáð
en sveinninn vakti hrelldur;
heyrði hann brak í skógi skjótt,
skyggndist eftir þessu hljótt,
þá var dimmt og þoka um nótt,
þjarkinu hvað sem veldur.
42.
Litlu síðar líta kann
hvar loddari nokkur koma vann,
stórvaxinn, og stelur hann
strax þar tveimur hestum;
heppinn þetta höldum las,
þeir hýddu af stað með ekkert þras,
mjög svo þreyttu ferðaflas
í flýti allra mestum.
43.
Hvergi litu skemmdarskrjóð,
skatnar röktu döggfalls slóð
uns þeir komu stór hvar stóð
sterkur skáli á velli.
En sem rekkar riðu heim
risinn kom á móti þeim,
hetjur þar með höndum tveim
honum leifðu elli.
44.
Bragnar kanna byggðir hans,
bræður fundu hins unga manns
og gersemanna góðan fans;
glatt var nú á mengi.
Bófinn hafði hlýrum hleypt
í hlemma-fylgsni niðurgreypt,
þursans áttu að þola heift
í þrældóm illa og lengi.
45.
Báðu prestinn bræður þrír
og burðugan sérhvern vopnatýr
að hildarsöngur hefjist nýr
við hermda ránsmenn fjóra.
Sagði já við bókabör
ef brytust ei úr sinni för.
Kváðust mundu svinn með svör
sveinar hjá honum tóra.
46.
Gumnar fundu bræðra bæ
og brutu hann upp en sagt var: æ!
Þau hin vondu hrekkja hræ
hrepptu þungar nauðir.
Þeim var boðið að taka trú.
Til þess sagði einn: „ójú!“
Hinum féll ei siðsemd sú;
síðan féllu dauðir.
47.
Kappar tóku kvikt og dautt;
við kotið skildu tómt og snautt.
Síðan var um ævi autt
en ýtar héldu að byggðum.
Glöddust allir guðs við náð
er gaf þeim bræðrum hjálp og ráð,
fagran lofsöng fengu tjáð
en fólk allt sleppti hryggðum.
48.
Þessu mæst til það eitt bar
þrætumál að uppkom þar.
Dómari enginn viss þó var
í virða flokki tjáðum;
skipuðust um það skástu men
skýrslu að gjöra um réttinden;
þvílíkt byrjað eins var enn
eftir prestsins ráðum.
49.
Myrkt og flókið mál það var,
mjög vandgæft til úrskurðar,
seggjum ekki saman bar
sannast hvað þá væri.
Miðlungs bróðirinn mannvitsskýr
merkti þetta lyndishýr.
Hann þenkti um slíkt og þangað snýr
nær þótti tækifæri.
50.
Greinilega hann görpum kvað
hvað gjöra skyldi um málið það.
Maður fann þar enginn að;
allir slíku játa.
Þá hölknameiður heyrt það fékk
heimti hann til sín ungan rekk
og batt hann sér við blíðu hlekk
í bestum kærleiks máta.
51.
Lundur skjóma lærði þá
af letragæti marga skrá,
bóklistirnar fljótt nam fá,
fallega skilningsbráður.
Útlærður svo Ullur brands
eignaðist dóttur kennimanns,
við kirkjudyr sem kom til hans
og kveðið hefi eg um áður.
52.
Þeirra samvist þótti góð;
það hefi eg frétt af stálarjóð
að dómari varð hjá dýrri þjóð
og dugnað margan framdi,
bræðra sinna bætti hag,
byrjaði margan hildar slag,
görpum heiðnum gaf ei dag
en gott með kristnum samdi.
53.
Fjölgaði við það fólkið hans
og færðist út um byggðir lands
en eyddist þar við illur fans
sem engum sætti griðum.
Mektugur varð nú málma Þór,
mikill lofstír af honum fór,
að viti og mannskap varla sljór
og vænstu kurteis-siðum.
54.
Unni honum ýtasveit,
öllum sýndi hann riktugheit,
aldrei tryggð og trúskap sleit
til síðustu daga
og enti líf sitt aldurs hár.
Ýtum þrengdi harmur sár
þá fluttur var til foldar nár.
Fellur þannig saga.
— — —
55.
Nú hefi eg sagt þér, niptin gulls,
nokkurn veginn út til fulls,
lífssögu þess laufa Ulls
sem löngum framdi dáðir
og föðurs ráðum fylgja kaus;
fannst því aldrei hjálparlaus
þá styrjöldin að garði gaus
gáfust aftur náðir.
56.
Brátt fáum vér af bragnum séð
að bræður hans þess nutu með,
það hann sér tamdi gætið geð
og guði treysta vildi;
en hyggja sumra heims um bý
horfir lítið eftir því.
Þeir eru með sitt hopp og hí
hofmóðugri en skyldi.
57.
Öllum mönnum óska eg góðs,
orð mín taki ei sér til móðs.
Hér skal verða endir óðs
því Óðreyr finns mér tómur.
Far vel seggur og faldavör!
fullsælust þá dvínar fjör.
Kýs eg þetta kvæðishrör
kallist Hlýrahljómur.