Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Nú sefur jörðin

Fyrsta ljóðlína:Nú sefur jörðin sumargræn
Viðm.ártal:≈ 1925
Flokkur:Náttúruljóð
I

1.
Nú sefur jörðin sumargræn.
Nú sér hún rætast hverja bæn
og dregur andann djúpt og rótt
um draumabláa júlínótt.
2.
Við ystu hafsbrún sefur sól,
og sofið er í hverjum hól.
Í sefi blunda svanabörn
og silungur í læk og tjörn.
3.
Á túni sefur bóndabær,
og bjarma á þil og glugga slær.
Við móðurbrjóstin börnin fá
þá bestu gjöf sem lífið á.
4.
Nú sofa menn og saklaus dýr.
Nú sofa dagsins ævintýr.
Nú ríkir þögn við ysta ós,
svo ekkert vekur Þyrnirós.
5.
Og áin líður lygn og tær,
og lindin sefur perluskær.
Í dvala hníga djúpin hljóð
og dreymir öll sín týndu ljóð.
6.
Í hafi speglast himinn blár.
Sinn himin á hvert daggartár.
Í hverju blómi sefur sál,
hvert sandkorn á sitt leyndarmál.
7.
Nú dreymir allt um dýrð og frið
við dagsins þögla sálarhlið,
og allt er kyrrt um fjöll og fjörð
og friður drottins yfir jörð.
II

1.
Nú sefur allt svo vel og vært
sem var í dagsins stríði sært,
og jafnvel blóm með brunasár –
þau brosa í svefni gegnum tár.
2.
Hin og snauði, sem á engan að
og aldrei neinn um gjafir bað,
hann nýtur þess að andinn á
sér óskalönd og draumaþrá.
3.
Og sá, sem alla yfirgaf,
fór einn um fjöll með mal og staf, –
hann teygar svefnsins svölu veig
og sál hans verður ung og fleyg.
4.
Og sá, sem allt og alla sveik
og alltaf rann og skarst úr leik,
hann hlýtur svefnsins næturnáð
þó nafn hans sé af öllum smáð.
5.
Og sá, sem lög og boðorð braut
og bölvun allra manna hlaut
og vakan aldrei veitir grið,
fær væran svefn og drottins frið.
6.
Og sá, sem þunga bölsins ber,
fær byrði dagsins létt af sér,
fær launuð öll sín kvalakjör,
fær kraft í nýja píslarför.
III

1.
Nú dreymir allt, hvert foldarfræ,
að friður ríki um lönd og sæ.
Nú lifir allt sinn dýrðardag.
Nú drottnar heilagt bræðralag.
2.
Einn draumur getur bætt allt böl
og breytt í sælu allri kvöl
og allri jörð í akra breytt
og öllum þjóðum frelsi veitt.
3.
En mildi Guðs er mannkyn háð,
að minnast hans er æðsta náð,
án hans er engin hetja glæst,
án hans fær enginn draumur ræst.
4.
Og jörðin svaf – og sefur enn,
og sofið lengur, draumamenn.
Er birta fer um byggð og fjörð
þá bíður ykkar – friðlaus jörð.