Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Ljóðabréf til bóndans, Jóns á Veiðilæk

Fyrsta ljóðlína:Gínars litli gaukur minn
Viðm.ártal:≈ 1850
Flokkur:Ljóðabréf

Skýringar

Ljóðabréf til bóndans Jóns á Veiðilæk er ort undir nafni Þorsteins Þorleifssonar.
Frumhandritið að þessu ljóðabréfi er varðveitt, en því miður eru smábitar rifnir út úr því á tveimur stöðum. Það reyndist erfitt að ráða í síðasta orðið í þriðju línu 17. vísu, en líklega á þar að standa spur. Engan veginn var unnt að átta sig á hvað standa á í þremur línum; í síðustu línu 27. vísu og í annarri og fjórðu línu þeirrar 28. Þeim orðum varð því að sleppa.
1.
Gínars litli gaukur minn
gæti ég hnitlað vanga þinn,
láttu fitla fjörvænginn
farðu að kitla Sóns drottinn.
2.
Þurr er gómur minn á mjer,
mennta tómur sinnu hver.
Sæktu óma sala ker,
svo að blómist kraftarner.
3.
Ef hann argur verður við,
veittu bjargar handtakið,
steldu kargur, fældur frið,
frár sem vargur sendu lið.
4.
Vil ég kærum vini mín
veita skærast Boðnar vín,
mitt á hrærir minnis skrín,
mögnuð hærum gleymskan brýn.
5.
Segja má ég eins og er,
eigi tjáir barma sér,
funa láar frægur ver,
fer ég þá að heilsa þjer.
6.
Yndið tífalt æru og fjer
árið nýa færi þér,
yndis hlýjar hagsælder,
hróðurs día vitur grér.
7.
Frétta vonin fer á stjá,
frá þingonum mála þá,
bæði konu og börn ég á,
brúði og son því trúa má.
8.
Mjer til yndis mest og flest
margur hrindir lagi best,
hyrjar vindi mínum mest,
míar kindug skulda pest.
9.
En ef ég hræri hamarinn,
og heilsa nærir vilja minn,
og ég væri vel iðinn,
vaxa færi meganin.
10.
Nokkrir giftast höldar hér,
hringa nift sem prýði ber,
aðra sviptir yndi fjer,
ó, hvað skiptir lukkan sér.
11.
Hannes gili Hauka frá,
heyrði ég til og líka sá,
Hólmfríð ylinn ásta þá,
odda víla gjörði ljá.
12.
Fleina Höður fræg tindur,
frá Hrappsstöðum Sigurður,
honum glöð í hönd tekur,
hadda bjóðin Sigríður.
13.
Allt til lagði fullan frið,
frétt ei þagði samkvæmið,
hýr í bragði brosti við,
Bakkus sagði: Drekkið þið.
14.
Skemmti mengi, brúði og beim,
búin fengin sal í þeim,
barkastrengir hljóða hreim,
höfðu lengi og fagran eim.
15.
Óveðráttan hér í haust,
hölda knátt til skaða laust.
Kári þrátt sem reyndi raust,
rumdi hátt í hvelfing braust.
16.
Hrellir guma vindvargur,
vetti suma rótskefur,
ellihrumur hræsvelgur
hellir, fumar, upp selur.
17.
Elris hundur háhvæftur,
hreif í sundur vatnsþekjur,
hvílík undur enginn [spur]
örva lundur tíræður.
18.
Jarðar bannið tírum tjón,
tjörgu hrannir vítt um frón
eins formanna lægisljón,
laus við hrannir niður í spón.
19.
Grund óþíða gegnum kól,
gekk sú tíðin framm á jól,
fékkst þá blíða sjást af sól,
svallið hríða niður fól.
20.
Margur hafli mens iðinn
megnar afla hákarlinn,
hans við skaflinn harðleikinn,
honum stafla í Rágöltinn.
21.
Gjöldum hæða Guði ans,
glaður fæðir mildin hans,
þökkum gæði gjafarans,
gnægt af svæði hins innra manns.
22.
Nokkrir þreygja höldar hér,
hinna eyja syngur hver,
tíðin veginn fram svo fer,
fæstir deyja nafnkennder.
23.
Þó er taldur Þunds á kvon,
þegninn Baldvin Hinriksson,
freistni kvaldur lét ei lon,
laus við aldur kapta don.
24.
Sjálfur skar hann sig á háls,
sem að bara væri frjáls,
þennan hara Þjassa máls,
þraut er var að dæmi Sáls.
25.
Hyggju bar í hólonum
hana þar að gólonum,
eymdir snarast ólonum,
en það var á jólonum.
26.
Vörumst bræður synda sið,
sóma klæðum lífernið,
veiti hæða fylkir frið,
forði mæðu en sendi lið.
27.
Hvíldar beiðist lundin lest,
línan veiðir blaðið klesst,
letin eyðir afli mest,
Austra [. . . . ] er sest.
28.
Veittu máli mínu stað,
[. . . . . .] sem ég kvað,
í nafni sálar brenndu blað.
[. . . . . .] það.
29.
Ég bið þess og ég lýsi
Jakobs blessan þrefaldri,
yfir hress með einlægni,
urnis vessa konungi.
30.
Hefnir þrekinn hýsingar,
hestinn rekur marvaðar,
grjers í skjekinn skarði hvar,
Skrímis tekinn jaxlinn var.[1]
[1] Hér.skj. A-Hún: Helga Björg Þorsteinsdóttir.


Athugagreinar

1) Hér.skj. A-Hún: Helga Björg Þorsteinsdóttir