Leppalúðakvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Leppalúðakvæði

Fyrsta ljóðlína:Þegi þið börn mín
bls.212–220
Viðm.ártal:≈ 1650

Skýringar

Margrét Eggertsdóttir gaf kvæðið út í Hallgrímskveri 2014 eftir Lbs 450 8vo, bls. 263–271. Hér er farið eftir þeirri útgáfu. Aftan við kvæðið gerir Margrét eftirfarandi grein fyrir Grýlu- og Leppalúðakvæðum og sjálfu Leppalúðakvæði Hallgríms:
„Grýlu- og Leppalúðakvæði má flokka sem barnagælur, þ.e. kvæði eða vísur til að hafa ofan af fyrir börnum eða svæfa þau – en sennilega er réttara að kalla þau „barnafælur“, þ.e. kvæði ort til að hræða börn, siða þau og hafa á þeim hemil. Mörg slík kvæði voru ort á sautjándu   MEIRA ↲
1.
Þegi þið börn mín,
hafið ekki hátt.
Hér kom hann Lappalúði
heim að í nátt.
2.
Hér kom hann Lappalúði
hræðilega stór
einn var eg staddur
innar í kór.
3.
Einn var eg staddur
og þá kom hann þar
sviplegur í bragði
sýndist mér var.
4.
Sviplegur var hann
í sjón og í hátt
með skósíða kampana
og skeggið kolgrátt.
5.
Skósíða kampana
og skinnstakkinn með
ekki hef eg sýnina
aumlegri séð.
6.
Ekki var hann fríður
til augnanna par
kafloðinn belginn
á bakinu bar.
7.
Kafloðinn belginn
hann *kreikaði með hér,
það var hans hið fyrsta
hann heilsaði mér.
8.
Það var hans hið fyrsta,
heyrði eg það,
bað hann mig um barnkorn
að brytja sér í spað.
9.
Bað hann mig um barnkorn
og belginn sinn skók
undir það í fyrstu
ekki ég tók.
10.
Undir tók eg þannin
ekki er það hér
ekki þarftu um börnin
að biðja hjá mér.
11.
Ekki þarftu börnin
því annað fæst nóg
þú kannt vel að hjálpast við
kútmaga og slóg.
12.
Þú kannt vel að hjálpast við
höfuðin hörð
grenjaði hann Lúði
svo glumdi undir jörð.
13.
Grenjaði hann Lúði
og svarið gaf sitt
sjálfur máttu eiga
sjófangið þitt.
14.
Sjálfur máttu eiga
hrognin þín hrá,
karlæga kellingu
heima ég á.
15.
Karlæga kellingu
kannastu við
hún heitir Grýla
með gráloðinn kvið.
16.
Hún heitir Grýla
grá eins og örn
hún hefur farið víða
að fala sér börn.
17.
Hún hefur farið norður
og fundið hann *séra Gvönd
uppbar hún fyrir hann
efni sín vönd.
18.
Uppbar hún fyrir hann
bónorð um barn
þá var ekki klerkurinn
guðsþakkagjarn.
19.
Ekki var þó klerkurinn
örbyrgur þá
allvel í þann tíð
til barnanna bjó.
20.
Allvel hann þóttist
þá gera til
skenkti hann henni hann Skeggja
sem skýra ég vil.
21.
Skenkti hann henni hann Skeggja
skrímslistetrið það
*lesti hann hana í lærinu
því lötraði ég á stað.
22.
Lesti hann hana í læri
liggur hún síðan veik
fýsti mig á fund þinn
því fór ég á kreik.
23.
Fýsti mig á fund þinn
að fala mér barn
mér er sagt að þú sért nógu
guðsþakkagjarn.
24.
Mér er sagt þú alir
bæði gangandi og gest;
í leiðindabörnin
mig langar þó mest.
25.
Leiðindabörnin
hann Lappalúði kvað
sagt er mér þú eigir
og seldu mér það.
26.
Sagt er mér hún Steinunn
hríni svo hátt
hún banni henni móður sinni
svefninn um nátt.
27.
Hún banni henni móður sinni
vinnuna og værð,
oft er hún fyrir ærslin
og *óvandann kærð.
28.
Oft eru mér fyrir eyrum
ólætin slík
þetta sagði hann Lappalúði,
kló hann sér á *krík.
29.
Þetta sagði hann Lappalúði
veik hann þá inn
*skapfellegur þætti mér
hann Eyjólfur þinn.
30.
Skapfellegur þætti mér
en skilur okkur eitt
hann þylur fram úr bókunum
og það er mér leitt.
31.
Hann þylur fram úr bókunum
og þrásyngur í kór;
mér þætti hann litli Gvöndur
mátulega stór.
32.
Mér þætti hann litli Gvöndur
mér haga best
latur er hann að læra
og leik fellur mest.
33.
Latur er hann að læra
og les heldur tregt
stendur í honum stumpurinn
og stamar heldur frekt.
34.
Stendur í honum stumpurinn
og stamar heldur frekt
kreppir að honum krummurnar
kellingin grett.
35.
Kreppir að honum krummurnar
kellingin þá
brytjar hún hann ofan í
belginn minn grá.
36.
Brytjar hann í belginn
og býr til fyrir sig
út af þessum orðunum
óttaði mig.
37.
Út af þessum orðunum
ótti mér stóð,
öll á ég börnin
athæfisgóð.
38.
Öll á ég börnin
blíðlynd um sinn
kostulega les hann
litli Gvöndur minn.
39.
Kostulega les hann
þá ljósið kemur inn;
farðu út til Ingu
þú fær þar viljann þinn.
40.
Farðu út til Ingu
– ókunnugrar þér –
hún á þann drenginn
sem ópsamur er.
41.
Hún á hann Símon
hann hrín eins og dýr
þá ætla ég hún Sigga litla
sé ekki hýr.
42.
Þá er hún Katrín
með ungbörnin þrjú,
ekki hefur hún ástæðis
nema einspena kú.
43.
Ekki á hún mjólkina
mörgum að ljá.
Vittu hvort hún vill hann ekki
Jón litla ljá.
44.
Vittu hvort Valka litla
verður ekki föl
það má verða hún Þuríður
þiggi þar dvöl.
45.
Það má ske hún Þuríður
þýðist þig best
farðu norður til landa
og finndu þar prest.
46.
Farðu norður til landa
og flýttu nú þér
hann Bergur og hún Manga
í belginn þinn fer.
47.
Hann Bergur og hún Manga
bíður þín þar
ekki færðu að sinni
frá prestinum par.
48.
Ekki færðu að sinni
þitt erindi hér
hamaðist hann Lúði
og hljóp nú að mér.
49.
Hamaðist hann Lúði
og hugðist mér að ná.
Ég var kominn í hökulinn
það hlífði mér þá.
50.
Ég var kominn í hökulinn
og *hírði ég með mak
hann rann til á hellunni
og hausinn niður rak.
51.
Hann rann til á hellunni
um hálfa fimmtu spönn,
*ball hann á kórslána
svo brotnaði úr honum tönn.
52.
Ball hann á kórslána
og beljandi upp stóð
hann hljóp úr kirkjunni
með ofsamikil hljóð.
53.
Út hljóp hann úr kirkjunni
en ég fór þá heim
ekki vil ég gestinum
oftar mæta þeim.
Lbs 450 8vo, bls. 263–271[1]


Athugagreinar

7.2 kreika: staulast.
17.2 séra Gvöndur: séra Guðmundur Erlendsson (1595–1670) skáld í Felli í Sléttuhlíð.
21.3 lesta: meiða, skaða.
27.4 óvandi: ósiðir, óþekkt.
28.4 kló hann sér á krík: klóraði hann sér á lærinu.
29.3 skapfellegur: hæfilegur.
50.2 híra: tefja, bíða, þrauka; mak: ró, kyrrð.
51.3 bella: skella.
[1] Sbr. Jón Samsonarson. 1996. Leppalúði Hallgríms Péturssonar. Þorlákstíðir sungnar Ásdísi Egilsdóttur fimmtugri 26. október 1996, bls. 43–49.