Fjórða ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ésúsarrímur 4

Fjórða ríma

ÉSÚSARRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Ýti ég á Austra veg og espa geðið
Bragarháttur:Úrkast – óbreytt
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Rímur
1.
Ýti ég á Austra veg[a]
og espa geðið,
allt var þetta afskaplega
illa kveðið.
2.
Aldrei var mér um það sýnt
að yrkja ljóðin;
geldur þess nú fólkið fínt
og flestöll þjóðin.
3.
Skal því aftur skipt um hátt
að skálda siðum
þó ég fiski fátt og smátt
á Fjalars miðum.
4.
Þótt ég beiti orku að
og öllum mætti,
fæ ég varla fyrir það
neitt fína drætti.
5.
Öruggt veit ég enginn verður
af því glaður
enda var ég aldrei gerður
aflamaður.
6.
Óðinn minn og Æsir skilja
og óp mitt heyra.
Komi þeir inn er kaupa vilja
Kvásis dreyra.
7.
Heiti ég á heilög rögn
af hug og móði:
Byrlið mér og berið ögn
af Boðnar flóði.
8.
Þeir, sem út af ævintýrum
ortu bögur,
launin oft hjá hrundum hýrum
hlutu fögur.
9.
Ef ég gæti öðlast það,
sem aðrir fengu,
komast myndi karl af stað
og kvíða engu.
10.
Veit ég glöggt að enginn er ég
óðar jöfur.
Litlar fram og lágar ber ég
launakröfur.
11.
Ef mér gæfu kvinnur koss
og kannske fleira,
vel þá myndi ég virða hnoss
og við það eira.
12.
Nú er vanþörf engin á
að auka gleði.
Þeytum allri þykkju frá
og þungu geði.
13.
Þrautaleið er þessi öld
og þjáir lýði.
Ýta sækir sútin köld
og svefn og kvíði.
14.
Langir dagar, daufleg kvöld
og daprar nætur.
Horfin eru hvílutjöld
og heimasætur.
15.
Dauft er hvar sem fauskar finnast
flæðar bríma.
Býsna margir bragnar minnast
betri tíma.
16.
Ei var svona aldarfar
í æsku minni;
píkur sátu prúðbúnar
á pöllum inni.
17.
Ekkert þá til vansa var
um veröld alla;
drjúgum þorðu dróttirnar
að drekka’ og svalla.
18.
Skáldanna var skemmtan góð
við skvaldur glasa;
sómdi vel með sælli þjóð
að söngla’ og masa.
19.
Unga fólkið samdi sig
við siði góða.
List var sagna sæmilig
og söngur ljóða.
20.
Þá var títt að þegnar allir
þreyttu glímur,
en á kveldin kappar snjallir
kváðu rímur.
21.
Haldnar vóru hátíðir
og hávær gleði.
Allir sungu sætkenndir
að sínu geði.
22.
Fullum kerum flóði af
í fyrri daga.
Að þakka ber hvað Guð oss gaf
er gömul saga.
23.
Mestur þótti maður sá
er mest fékk drukkið.
Enginn kunni ýta þá
að óttast sukkið.
24.
Lýðir þoldu lyfin ströng
og langar vökur.
Enginn nefndi iðrasöng
né innantökur.
25.
Yngismeyjar ekki hröktu
ýta frá sér
þótt þeir reikult fram hjá flöktu
og fyndu á sér.
26.
Kvinnur ræddu kveldin löng
við kempur fríðar
þótt þær hefðu hnjáskjól þröng
og hempur síðar.
27.
Þótt við meyju meinlaust gaman
maður ætti
ámælis af öllu saman
enginn sætti.
28.
Þá var meiri munaður
og meiri kæti,
meira fjör og manndómur
og meiri læti.
29.
Kátir menn og meyjar vóru
meira saman,
þá var miklu, miklu stórum
meira gaman.
30.
Enginn maður afturkallar
æsku sína.
Ungdóminum, aldir snjallar,
allir týna.
31.
Hálm má líkja virðum við
og visna sinu;
mjög er förlað mætum sið
og mannfólkinu.
32.
Hætt skal viti ölu ei
svo alveg tapi.
Ég er ekkert asnagrey
né angurgapi.
33.
Mansöngstetrið þrýtur þá
að þessu sinni.
Fram svo halda fræðum má
og frásögninni.

> * * *
34.
Lýðir muna, lykta réði
ljóða hjalið,
sjóli hafði’ að sínu geði
sveina valið.
35.
Þrír og níu þessir vóru
þundar snæra
eins og réðu’ af riti stóru
rekkar læra.
36.
Kristur út um sveitir sendi
sína karla.
Þróttalinir laufabendi
leist þeir varla.
37.
Gist þeir höfðu Gyðinganna
glæstar borgir;
höfðu líka margra manna
minnkað sorgir.
38.
Kenndu þeir að kominn væri
kóngur ríkur;
enginn yfir foldu færi
fylkir slíkur.
39.
Öllum sögðu askar harðir
Ægis brímans
að færi að nálgast fyrr en varði
fylling tímans.
40.
Garpar þeir, með geði frómu,
greinir saga,
allir saman aftur kómu
utan baga.
41.
Er þeir kómu’ á öðlings setur
allir saman,
Herrann gjörðist heldur betur
hýr í framan.
42.
Allgóð þeirra verkin vera
virtust honum,
eða að því, sem um var að gera,
eftir vonum.
43.
Í stærri miklu stíl því vildi
starfið reka
og óðar frelsa alla skyldi
ýta seka.
44.
Tygi sjö af traustum rekkum
tiggi sendi;
lýður þessum lýðnum þekkum
líka kenndi.
45.
Innt var frá að allir þessir
ýta synir
áttu’ að kenna einkar hressir
eins og hinir.
46.
Herrann kenndi fræði fín
af fornum bókum;
orðum beitti ávallt *sínum
afar klókum.
47.
Drjúgum kenndi dögling sá
í dæmisögum
eins og nú skal inna frá
í öðrum bögum.
48.
Mildings tunga mögnuð var
og mælskan liðug.
Dýrðleg vóru dæmin þar
– svo djöfull sniðug. –
49.
Kappinn reyndist karskur mjög
í kennslustandi:
margar þuldi sannar sögur
svolátandi:
50.
„Himnaríki helst er líkt
með hegðan fína
liljum gulls, er léku ríkt
með lampa sína.
51.
Tíu mátti telja þessar
tróður glaðar;
gulls vóru allar eikur hressar
óspjallaðar.
52.
Eikur gengu Ægis blossa
ört að vonum
beint á móti’ og buðu kossa
brúðgumonum.
53.
Fimm þær vóru forsjálar
en fimm hinsegin;
þær vóru svona vangerðar
– já, veslings greyin! –
54.
Hinar vitru viðsmjör tóku
víst án trega
enda gekk þeim, innir bókin,
ágætlega.
55.
En þær heimsku höfðu ekki
hirt um þetta;
því er ljótt allt það ég fékk
af þeim að frétta.“
56.
Svo er skráð að segði lundur
sjávar funa.
Rengir nokkur rómu Þundur
Ritninguna?
57.
Sögu aðra segja vann
af sannri speki.
Skrifa ég það sem skjótast kann
með skíru bleki.
58.
Jesúsar um visku og veldi
vitni ber hún.
Þyl ég hana á þessu kveldi.
Þannig er hún:
59.
„Sjálft Guðs ríki, sælu rann
á sannleiks vegi,
harla svipað,“ sagði hann,
„er súru deigi.“
60.
Í Guðspjöllunum get ég þetta
glöggt sé bókað.
„Kona nokkur kurt með netta
kom og tók það.
61.
Í mæla þrjá af mjöli hreinu
mæt það lagði,
sýrðist það þá allt í einu
á augabragði.
62.
Ríki þess, er ræður háum
röðuls fleti,
enn er svipað, að því gáum,
einu neti.
63.
Ýtar fleygðu’ því út í hasti
á Ægis brautum,
fylltist það í fyrsta kasti
af fiski blautum.
64.
Þeim er komið þótti nóg
af þeirri vöru,
upp það tóku, inn það drógu
og upp í fjöru.
65.
Vondum fiski virðar þeyttu
í víði bláan,
af þeim vildi, ýtum þreyttu,
enginn sjá hann.
66.
*Góða fiskinn síðan úr
þeir sorteruðu;
ýmsir fluttu’ hann inn í búr
en aðrir suðu.
67.
Eins munu gjöra englarnir
á efsta degi.
Athugið það nú, angarnir,
hvað yður segi.
68.
Þá mun illum útsnarað
til eldiviðar.
Hinir njóta í hlýjum stað
ins hinsta friðar.“
69.
Svona vóru sögurnar
og sumar betri,
skráðar á gömlu skruddurnar
með skíru letri.
70.
Of langt væri upp að telja
allar saman;
samt er að þeim, ef vel kann velja,
voða gaman.
71.
Því er fyrir þá, sem vilja
þetta muna,
rétt að lesa og reyna að skilja
Ritninguna.
72.
Ekki meira ætla’ eg þetta
um að spjalla.
Niður læt ég lestur frétta
og ljóðin falla.


Athugagreinar

35.
vísa er númar 36 hjá Iðunni.
46.3 sínum ætti ef til vill að vera sín. (Ath. handrit)
66.1 Hér vantar stuðul í fyrstu línu.