Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Sígaunaljóð 4

Svefngönguþula

SÍGAUNALJÓÐ
Fyrsta ljóðlína:Grænt, ég þrái græna litinn,
Viðm.ártal:≈ 2000–2025
Tímasetning:1928
Til Gloria Giner
> og Francisco de los Ríos
1.
Grænt, ég þrái græna litinn,
græni vindur, limið græna.
Hesturinn á háu fjalli,
á hafsins öldum skipið vaggar.
5.
Skugga sér við belti ber hún,
blikar silfur kalt í augum,
græna hold og hárið græna
hún í draŭmi á svölum uppi.
Grænt, ég þrái græna litinn.
10.
Undir flökkufólksins tungli
er hún séð af öllum hlutum,
ekki samt hún fær þá skoðað.
* * *
Grænt, ég þrái græna litinn.
Sindra af frosti stórar stjörnur,
15.
stefna fram með skuggans fiski
inn í dögun undarlega.
Fíkjutré í svelju og svala
sverfa vindinn greinaþjölum.
Marðarkryppu myndar fjallið
20.
mikla sprottið þyrnililjum.
Kemur einhver? Hver? og hvaðan…?
Meðan hún á háum svölum,
græna hold og hárið græna,
hafið beiska í draumi skoðar.
* * *
25.
— Ég skipta vil á hennar húsi
og hesti mínum, lagsi góður,
fyrir spegil fengi hún söðul,
fyrir rekkjuvoð minn daggarð.
Kunningi frá Kabrafjöllum
30.
kem eg særður, blóðidrifinn.
— Væri slíkt á valdi mínu
við þig drengur myndi ég skipta.
En nú ræð ég ekki lengur
yfir mér né húsi þessu.
35.
Víst með sæmd ég vildi deyja,
vinur minn, í eigin rekkju.
Á rúmi ofið ullarteppi
og þess bríkur helst úr stáli.
Sérð þú ekki sár mitt þetta
40.
sem er rist frá brjósti að kverkum.
— Þrjú hundruð af rjóðum rósum
rauða lita hvíta skyrtu.
Við þinn linda lagar blóðið,
loftið fyllir sterkri angan.
45.
En nú ræð ég ekki lengur
yfir mér né húsi þessu.
— Leyf samt áfram upp ég haldi,
upp á þessar háu svalir,
leyf mér halda áfram, áfram
50.
upp á þessar grænu svalir.
Upp á svalir silfurtunglsins
síkvik þar sem vötnin streyma.
* * *
Halda upp að háum svölum,
háum svölum félagarnir.
55.
Drýpur blóðsins dögg á veginn,
drýpur á hann regnið tára.
Skjálfa stöðugt ljósir logar
lukta úr tini á húsaþökum.
Kliða þúsund kristallsbjöllur,
60.
klingja og særa morgunroðann.
* * *
Grænt, ég þrái græna litinn,
græni vindur, limið græna.
Saman tveir á svalir klífa.
Seiða vindsins löngu örvar
65.
skrýtið bragð af basilíkum,
bragð af myntu og galli á tungu.
— Hvar er, lagsi, ljúfan dapra,
ljúfan þín með geðið beiska?
— Oft á tíðum hún þín hérna,
70.
hérna beið á grænum svölum!
* * *
Sígaunamær svífur, vaggar,
svífur ofar tunglskinsbrunni.
Græna hold og hárið græna,
hagl er silfurkalt í augum.
75.
Sem ísspöng henni ofan vatnsins
uppi heldur mánaskinið.
Nótt var þegar einlæg orðin
eins og lítið torg í bænum.
Láta dynja hart á hurðum
80.
höggin drukknir þjóðvarðliðar.
Grænt, ég þrái græna litinn,
græni vindur, limið græna.
Hesturinn á háu fjalli,
á hafsins öldum skipið vaggar.


Athugagreinar

1–4 Í verkum Lorca vísar græni liturinn gjarnan til hins brigðula og fallvalta. Honum fylgir tíðum sársauki venga svika og vonbrigða í ástum. Hann er tengdur tungli og hafi, holdi og dauða. Hann er hér tákn um vonbrigði, dauða og ást; ást sem er án ávaxtar, beisk og ótrygg. Tvær fyrstu ljóðlínur Svefngönguþulu fjalla um lífið og ástina, ást sem krefst hugrekkis og vogunar. Hinn lorkíski elskhugi sýnir þar að hann er staðráðinn í að taka heilshugar þátt í harmleik lífs síns. Í upphafi ljóðsins stendur hann í sömu sporum og hetjur harmleikjanna og hans bíða sams konar endalok og ósigur og bíða þeirra. — Brimrót tilfinninganna, sem birtist í fyrstu línum ljóðsins, er eins og örvæntingarfullt ákall eftir ástinni grænu og beisku sem hefur dauðann í för með sér.
29 Í skörðum Kabrafjalla, á mörkum Kordóvu og Granada, héldu sig frægir stigamenn á 9. öld.
47 leyf hér er skyndilega breytt yfir í 2. persónu fleirtölu á spænsku sem gefur til kynna að verið sé annaðhvort að ávarpa stúlkuna eða hóp áheyrenda.
51–52 Í þessum tveim línum koma saman þrír meginþættir ljóðsins: svalir stúlkunnar, tunglið og vatnið úr brunninum. Hinir fyrri tveir virðast endurspeglast í þeim síðasta.
59–60 Þegar Lorca víkur að þessum tveim ljóðlínum leggur hann áherslu á að mynd þeirra komi ósjálfrátt fram í huga sinn:
„Ef þið spyrjið mig hvers vegna ég segi „Kliða þúsund kristallsbjöllur, klingja og særa morgunroðann“, þá skal ég segja ykkur að ég hef séð þær í höndum engla og trjáa, en ég gæti ekki sagt meir og ennþá síður útskýrt merkingu þess.“ (Prosa, bls. 9)
77–78 Til þess að skilja betur þessa myndhverfingu ber að hafa í huga að í frumstæðum og einföldum heimi Sígaunaljóða hefur hið áþreifanlega og harða mest áhrif. Þess vegna er hið huglæga hlutgert svo að harðneskjulegur efnisheimurinn færist í aukana.