Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Næturferð

Fyrsta ljóðlína:Í glitskikkju mána er foldin færð
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902

Skýringar

Prentað í ljóðabókinni Úr Heimahögum (1902)
1.
Í glitskikkju mána er foldin færð,
við fjallsrætur skuggarnir þroka,
og náttkælan blælygna bærist um vit,
en blikudrög himninum loka;
við hafsbrún er þúsundföld þoka.
2.
Já, blika í lofti, en bakki til hafs,
það boðar hretviðri og kala.
Og eins er að litast um innra hjá mér,
um ylgeisla er varla að tala,
sem skrautblóm og ilmjurtir ala.
3.
Á ljónhvata fáknum ég löturhægt ríð
í leiðslukvöl norður á bóginn
og stefni ragur á bakkann beint,
á brimgnýinn, þokuna, sjóinn,
með beinþröngan, skorpnaðan skóinn.
4.
Og hugsa um þig, vina mín, horfi um öxl,
já, harmþrunginn augunum renni;
ég sé þig í anda, þú sefur nú vært
með svefnróna á hvörmum og enni,
og anda míns örmum þig spenni.
5.
Og þúsundum kossa hann kyssir þig nú,
hann kyssir þig mjúkan, langan;
í eyra þér mælir ástmálin þýð.
Hve erfið er skilnaðargangan.
Hann kyssir þig, vina, á vangann.