Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Músar- og hreindýrsríma

Fyrsta ljóðlína:Fyrnist það sem fór í lagi fyrr á dögum
Bragarháttur:Afhent eða afhending
Viðm.ártal:≈ 1850
Flokkur:Rímur
Fyrirvari:Á eftir að bera saman við handrit.
I. Inngangur (Mansöngur)
1.
Fyrnist það sem fór í lagi fyrr á dögum.
Enginn svæfir barn með bögum.
2.
Engin raular selja seims né sendir pílu
neitt um hana gömlu Grýlu.
3.
Hún er sest í helgan stein með hrygginn sára,
hyndrað þó og þúsund ára.
4.
Margur þoldi skemur skrykki af skorti veilum,
hrakningum og heimsádeilum.
5.
Látum Grýlu leita skjóls í loftsins geimi
sinn með dóm og súrt andstreymi.
6.
Berum heldur blaðið á þó bresti sóna
músar sögu og hreindýrshjóna.
7.
Fyrir börn og bríkur auðs má breyta sögu
út af þeim í basli bögu.
8.
Aldrei meiði meinin þig né myrkra slæða,
elsku systir eðla gæða.
9.
Fyrst þú barnsleg ennþá ert í anda þínum
unna muntu óðnum mínum.
II. Músar ríma
1.
Þér til gamans þá skal byrja þáttinn greina.
Skorð gulls byggði skemmu eina.
2.
Hjartagóð og hyggin var sú Hildur þráða,
þrifnað unni og dugnað dáða.
3.
Oft á ferli árla var um óttu stundu
þá víf og sveinar værðum undu.
4.
Svo bar til þá alvön önnum eldagerðar
sótti mjöl til morgunverðar.
5.
Líndrags eyja lítið fékk, sú listum unni,
mús að sat í mjölbyrðunni.
6.
Grá á lit með löngum hala lítil, otur
lág á velli, vaxtarsnotur.
7.
Skrapp í kufung skikkju Bils við skóhljóðs eiminn,
hræðilega hörð og feiminn.
8.
Auðgrund þegar augum renndi yfir hana
nærri lá hún biði bana.
9.
Vænti eftir dauðadóm af drósar vörum.
Mærin gætti að músar kjörum.
10.
Skær í máli skenkti svörin skógardýri:
„Inntu mér þitt ævintýri.
11.
Hvaðan ertu? Hvaðan komstu?
Hvað má valda
að þú gjörir hér til halda?“
12.
Músin æpti: „Meðan leyfir mér að hjara
eg skal hrinda hurðu svara.
13.
Borin hér og barnfædd er á bóli þínu,
sveitlæg orðin seims hjá línu.
14.
Hérna í veggnum hjá þér á ég höllu lága,
borðið, sæng og bekki smáa.
15.
Í gærkvöldi ég gægðist út um gatna reita,
barnungunum bjargar leita.
16.
Safnað litlum forða fékk í förubagga,
frækornum og dropum dagga.
17.
Óttinn hvatti fætur fram þá fór að dimma,
hölda sá og hunda grimma.
18.
Vana götu hljóp ég heim til holu minnar
tæpt á barmi tunnu þinnar.
19.
Ofan fyrir flugin háu fékk að bruna
í magastóru mjölbiðuna.
20.
Byltan olli ljótum leiða langan tíma,
lömuð, marin lá í svíma.
21.
Aldrei hef eg hvinnsku æft í húsi þínu
þó stiklað hafi um stól og dýnu.
22.
Áman þrengir ambátt þinni, ei má flýja.
Til góðs er eg sem *Genevía
23.
þegar hún á hnjánum skreið í höllu kúa,
særð af harmi, svengd og lúa.“
24.
„Mér er sem ég heyri,“ segir silki Nanna,
„til móðurlausu mýslinganna.“
25.
„Kvöl er mér að kveðja heim í kjallaranum,
gleymt hef andláts grallaranum.
26.
Góða kona, gef mér líf af gæsku þinni.
Drag mig upp úr dýflissunni.
27.
Mér skal ætíð miskunn þín í minni standa
meðan ber í brjósti anda.“
28.
„Hættu sögu,“ hjalar mærin hýr á vanga.
„Þú skalt líf og frelsi fanga.
29.
Hans þú eins í hörmung þinni hjá mér nýtur
sem tittlings eftir lífi lítur.
30.
Kúnst er ekki ketti á þig í kröggum siga.
Eg skal ljá þér lítinn stiga.
31.
Héðan skaltu halda skjótt með hollar gætur
fyrr en karlmenn koma á fætur.“
32.
Bríkin seims við byrðu stafinn blökk upp reisti.
Fegin mýsla þaðan þeysti.
III. Hreindýrs ríma
1.
Lukka ójafnt leikur spil að lýða sjónum
fyrir mús og hreindýrs hjónum.
2.
Hún er löngum hverful undir himinboga,
ganga löng sem sem leiðir toga.
3.
Hingað æddi hreindýrs naut um hála vegi.
Svo bar til á sunnudegi.
4.
Att var hundum bæ frá bæ á björninn gráa,
aftur og fram um ísinn bláa.
5.
Dýrið elti manna mergð um möðru svæði.
Frá var því að nokkur næði.
6.
Reiðgotunum renndu á skeið um Rindar elju
svo fjallagranni fyndi helju.
7.
Snerru lundar snoturlega slógu hringinn
utan um snauða snjálendinginn.
8.
Hringinn brýtur, hraustur komst úr höndum manna
ötull dreki óbyggðanna.
9.
Mjög að vonum mæddist þó, af munni froða
um brjóstið féll í föllum boða.
10.
Gæskan mönnum gleymdist þá og gengu að betur.
Fjöldinn dýrið fangað getur.
11.
Firða gjörði frár og snar með fótum berja,
fjörið móða vildi verja.
12.
Á stóð gægjum inna dýrs með augum votum
fjalls við brún í fjörs umbrotum.
13.
Þegar maka sinn hún sá í solli nauða,
hertekinn og dæmdan dauða.
14.
Leiddur var af lundum korða laus við skaða
heim á bæinn Bessastaða.
15.
Í háa tóftu heiðarbúinn hlaut að síga,
bundinn eins og bófi stíga.
16.
Bragnar þó ei byrja vildu bana slaginn
upp á sjálfan sabbatsdaginn.
17.
Friðhelgan því flestir játtu fleins við þingin
aumstaddasta afréttinginn.
18.
Drykk og kost á dúklaust borðið drífa mundu
*þegar eins og föng til fundu.
19.
Fiskisagan fór nú eins og fleygur valur
sem rekið hefði reyðarhvalur.
20.
Bæði menn og bríkur fríðar báru roða
fangann vildu fá að skoða.
21.
Fljóð og sveinar fóru nú í fötin skárri
sem ætti von á veislu dárri.
22.
Kvöldstundina kaldlundaða kærast báðu
með sér vera rör í ráðum.
23.
Nett svo gæti notið kæti niftir banda
hún bauð Kára ei að anda.
24.
Sleða, skauta, bönd og brodda bragnar tóku.
Kvenfólkinu kappar óku.
25.
Skjótt sem kúlu skotið væri um skilvings grundu
ferðum áfram hraðir hrundu.
26.
Mímirs beðjan meiddist undan manna fótum.
Dillað var þá dýrum snótum.
27.
Skemmtunar þá skuggann bar um skarir ísa
norður gjörðu ljósin lýsa.
28.
Þegar meiddi Þundar frúna þessi leikur
máninn að því brosti bleikur.
29.
Bauð að ljá þeim birtu og fylgd með bjarma glöðum
beina leið að Bessastöðum.
30.
Leiddi skarann ljúfur hari ljósa día.
Hurðu þar ei þurfti knýja.
31.
Úti stóð þar ýtum veitir öldu krúsar
Sveinn ágætur son Magnúsar.
32.
Komugestum heilsar hýr á hlaðstéttonum,
mönnum, börnum, meyjum, konum.
33.
Sendir banda síðan smíðar svar óþvingað:
„Eitthvað veldur, vendið hingað.
34.
Grun minn sló að glaðir hingað gestir mundu
koma þessa kvölds um stundu.
35.
Héðan burtu haldið síst frá heimilinu
nú í dauðans náttmyrkrinu.“
36.
Sunda ljóma seljur beimi svar útvega
ofur blítt og auðmjúklega:
37.
„Gisting ekki girnumst við en göltinn hvíta,
sem felldir þú, oss lystir líta.“
38.
Svar með brosi svona lagar sverða hauður:
„Sá er jökla jói dauður.
39.
Héðan burtu hleypti frá að Heljar sölum
og heldur jól í jóa dölum.“
40.
Sætur aftur svöruðu með sinnis þráann:
„Lofaðu okkur samt að sjá ’ann.“
41.
„Hægt er það,“ kvað hylja ljóma hirðir spaki.
„Göngum skjótt að bæjarbaki.
42.
Vera má að vífum ekki virðist dáinn
hábeinóttur hlaupa Þráinn
43.
ef settur væri á frían fót og fengi að nýju
hlaupa burt úr hallri stíu.“
44.
Seljum borða syrti fyrir sjónar baugi
þegar komu að hreindýrs haugi.
45.
Opinn stóð sem gin á gröf en gljáin bláa
sleipa veggi huldi háa.
46.
Í festi bragnar fóru niður firrtir trega
í dauðans gapið draugalega.
47.
Bænir þuldu brúðir hljótt og báðu mána
skærasta sitt skin að lána.
48.
Heyrði kvakið hátignaður herra día,
brá sér undan skörum skýja.
49.
Hafðar voru í hreindýrs inni hrundir banda,
haugbúanum heilsan vanda.
50.
Alúðlega umgjörð hans á alla síðu
skoða tóku fljóðin fríðu.
52.
Höfuð, fætur, háls og lend um hálfan tíma.
Hér er kveðin hreindýrs ríma.
53.
Er sú fundin eldri mér um aldaraðir.
Eg er hennar fimmti faðir.