Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Alþingismaðurinn og dóninn

Fyrsta ljóðlína:Eitt skammdegiskvöldið ég skundaði seint
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1924

Skýringar

Þetta kvæði var frægt árin 1924-1925, fyrst meðal Hafnarstúdenta. Jón Helgason orti það um alþingismanninn Jakob Möller sem hafði orðið illa ölvaður í Kaupmannahöfn þegar hann átti að tala á fundi hjá Stúdentafélaginu. Kvæðið var óstöðvandi eftir að það hafði verið ort, það var gefið út á bleðli í Reykjavík undir yfirskriftinni Alþingismaðurinn og dóninn eftir Kengon. Það var síðan prentað í kvæðabókinni Úr landsuðri 1939 en birtist ekki í annarri útgáfu hennar 1948 né neinum kvæðasöfnum Jóns eftir það, að því er ritstjórn Braga best veit. Frumgerð kvæðisins, eins og það var frumflutt á fundi íslenska stúdentafélagsins í Kaupmannahöfn er birt hér neðanmáls og er tekin upp eftir bók Margrétar Jónasdóttur, sagnfræðings, Í Babýlon við Eyrarsund frá 1969.
Frumgerð kvæðisins, eins og það var frumflutt á fundi íslenska stúdentafélagsins í Höfn 1924:
1.
Eitt skammdegiskvöldið ég skundaði seint
og skuggalegt kjallarastræti;
ég dökkleitan mann gat í dimmunni greint
með dálítið nýstárleg læti.
Hann lamdi sig utan, hann hoppaði í hring,
hann hristist af beljandi öskri,
en strákalið götunnar stóð allt í kring
og starði á þessa’ athöfn með blöskri.
2.
Um hugskotsins leyndustu fylgsni ég fann
þá fljúga þann grun rétt sem skjótast,
að hér sæi’ ég íslenskan alþingismann
í ölæði vitlausan rótast,
mig furðaði á höfðingjans framkomu mest,
mér fannst ekki tignin hans háleit,
en þegar ég gætti mín, þá sá ég best,
hve þessi mín getsök var fráleit.
3.
Þú alþingis gimsteinn, sem glóir og skín
í geisladýrð manndyggðar þinnar!
eitt augnablik hélt ég þig ódrátt og svín,
nú iðrast ég vangáar minnar.
Mér sárnar að hafa jafn-sviphreinan mann
um svo mikla fjarstæðu grunað;
að áhugamál þitt var bindindi og bann
úr blöðunum vel gat ég munað.
4.
Vor alþingismaður er mikill og stór,
að mannviti og drenglyndi ríkur,
en hér einn dóni með dynjandi þjór
sem dirfist að vera honum líkur.
Í upphafi fór ég á allan hátt villt
um aðgreining þessara manna,
en nú veit ég betur og skoða mér skylt
að skýra þá frá hinu sanna:
5.
Meðan alþingismaðurinn iðkaði nám,
við einróma lofstír á Garði,
kom dóninn þar syngjandi svartasta klám,
og saklausan prófastinn barði.
Meðan alþingismaðurinn ilmaði sætt
í óvelktum hreinleika sínum
var engum hjá dónanum stundinni stætt,
fyrir stækjunni af gubbuðum vínum.
6.
Meðan alþingismaðurinn efldist og sté
án afláts til viskunnar brunna,
gekk dónanum öfugt; hann sé og hann sé
í svívirðing niður til grunna.
Meðal alþingismaðurinn lífspeki las
og leitaði á hæðirnar bröttu,
gekk dóninn með tryllingslegt dellumannsfas
og drakk sér til vistar á Sjöttu.
7.
Vor alþingismaður ber auglitið bjart,
af upphugsun göfugra laga,
en yfirbragð dónans er dólgslegt og svart
af drabbi og veikluðum maga,
en síst má þó dyljast við sannleika þann,
hin sönnu en hryggilegu undur:
sé dónanum þvegið þá þekkja menn hann
og þingmanninn trauðlega sundur.
8.
Og verið þið þess vegna á varðbergi, menn,
að villi ekki og blekki ykkur sjónin,
því báðir í borginni eru þeir enn
vor alþingismaður og dóninn,
sá orðsnjalli herra sem ígrundar mál,
uns atriðin standa í skorðum,
sá ræfill, sem drekkur burt sinnu og sál
og sofnar á knæpnanna borðum.
9.
Meðan alþingismaðurinn unir sem best
í ágætu virðingarstræti
er dónanum hrundið með hark og með brest
úr herbergi sínu út á stræti.
Meðan alþingismaðurinn hneigir sig hljótt
fyrir heilagleik morgunroðans,
þá endar dóninn sína óværu nótt
hjá æpandi kvensniftum Hroðans.


Athugagreinar

1.
Eitt kvöld um það bil þegar röðullinn rann,
þá reikaði ég einmana um stræti;
í dimmunni sá ég einn dökkleitan mann
með dálítið nýstárleg læti,
hann lamdi sig utan, hann hoppaði í hring,
hann hristist af beljandi öskri,
en strákalið götunnar stóð allt í kring
og starði á þessa athöfn með blöskri.
2.
Um hugskotsins leyndustu fylgsni ég fann
þá fljúga þá hugsun sem skjótast,
að hér sæi ég íslenskan alþingismann
í ölæði vitlausan rótast,
mig furðaði á höfðingjans framkomu mest,
mér fannst ekki tignin hans háleit,
en þegar ég gætti mín, þá sá ég best,
hve þessi mín getsök var fráleit.
3.
Þú alþingis gimsteinn, sem glóir og skín,
í gulli og reykelsi og myrru,
eitt augnablik hélt ég þig ódrátt og svín,
nú iðrast ég þvílíkrar firru.
Hve hróplegt það ranglæti að hugsa til þín,,
hve heimskuleg fjarstæða að gruna
jafnhófsaman öðling sem hatar allt vín
það hefði ég víst átt að muna!
4.
Vor alþingismaður er mikill og stór,
að mannviti og drenglyndi ríkur,
en hér einn dóni með dynjandi þjór,
sem dirfist að vera honum líkur.
Í upphafi fór ég á allan hátt villt
um aðgreining þessara manna,
en nú veit ég betur og skoða mér skylt
að skýra þá frá hinu sanna:
5.
Meðan alþingismaðurinn iðkaði nám,
við einróma lofstír á Garði,
kom dóninn þar syngjandi svartasta klám,
og saklausan prófastinn barði.
Meðan alþingismaðurinn ilmaði sætt
af angandi brilljantínum,
var engum hjá dónanum stundinni stætt,
fyrir stækjunni af gubbuðum vínum.
6.
Meðan alþingismaðurinn efldist og steig
án afláts til viskunnar brunna,
gekk dónanum öfugt; hann seig og hann seig,
í svafli og slarki til grunna.
Meðal alþingismaðurinn lífspeki las
og leitaði á hæðirnar bröttu,
gekk dóninn með tryllingslegt dellumannsfas
og drakk sér til vistar á sjöttu.
7.
Vor alþingismaður ber auglitið bjart,
af upphugsun göfugra laga,
en yfirbragð dónans er dólgslegt og svart
af drabbi og veikluðum maga,
en síst má þó dyljast við sannleika þann,
hin sönnu en hryggilegu undur:
sé dónanum þvegið þá þekkja menn hann
og þingmanninn trauðla sundur.
8.
Og varið ykkur því vesælir menn,
að villi ekki og blekki ykkur sjónin,
því báðir í borginni eru þeir enn
vor alþingismaður og dóninn,
sá orðsnjalli herra sem ígrundar mál,
unz atriðin standa í skorðum,
sá ræfill, sem drekkur burt sinnu og sál
og sofnar á knæpnanna borðum.
9.
Meðan alþingismaðurinn unir á Park
í indælli hófsemd og kæti,
er dónanum hrundið með háðuglegt spark
úr herbergi sínu út á stræti.
Meðan alþingismaðurinn hneigir sig hljótt
fyrir heilagleik morgunroðans,
þá endar dóninn sína óværu nótt
hjá örgustu kvensniftum Hroðans.