Við vonbrigði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Við vonbrigði

Fyrsta ljóðlína:Ég hef brotið bátinn minn í blæjalogni
Bragarháttur:Braghent – frárímað
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1897
1.
… Ég hef’ brotið bátinn minn í blæjalogni;
gengið laus frá græðis-barmi,
glatað mínum dýrsta farmi.
2.
Enda þótt mér aldrei framar ætti að skína
eygló vorsins yndisfríða,
aldrei skal þó neinu kvíða.
3.
Ég hef’ framar engu sem ég ann að glata.
Ég er búinn hug að herða
heims í straum, og sný til ferða.
4.
Fram á veginn vík ég eigi votum hvarmi,
kreppi hnefann köldu sinni,
kasta steini úr götu minni.
5.
Sigin eru sigg á hnúfa, sigg í lófa,
svo það mætti sæta firnum,
særði ég mig á rósarþyrnum.
6.
Ef til vill þó innst í huga eitthvað sviði,
mun ég ekki kveina og kvarta,
knýja dyr að neinu hjarta.
7.
Máske, köld er kólgan mig í kafið dregur,
einhvers staðar einhver merki
eftir sjái í nýtu verki.
8.
Sæll mun hann, er siglir æ í svása blænum.
Þó er betra að eiga anda,
engin slys er ná að granda.