Stabat mater dolorosa | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Stabat mater dolorosa

Fyrsta ljóðlína:Stóð að krossi sefa sárum
bls.249–251
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AAbCCb
Viðm.ártal:≈ 1850–1875
Tímasetning:1858

Skýringar

Sjá þýðingu Stefán Ólafssonar á Stabat mater dolorosa á Braga og einnig þýðingu kvæðisins á Esperanto: Staris la patrino plore.
1.
Stóð að krossi sefa sárum
sorgum bitin, drifin tárum,
móðir þar sem mögur hékk;
og um hennar hyggju skarða,
harmi lostna, böli marða,
eggjabrandur bitur gekk.
2.
Ó, hve hrelld og hrygg til dauða
himna drottins var hin auða
einkasonar móðir mær,
sem réð fanga sorg og stranga
sút, er hanga kvöld við langa
sinn leit mæra soninn skær.
3.
Hverir gráta menn ei mundu
móður Krists á þeirri stundu
ef að horfðu hrelling á?
Hver svo hjartað herða mætti
hans að eigi lundu grætti
góðrar móður sorg að sjá?
4.
Fyrir þjóðar sinnar syndir
sá hún Jesú dreyra lindir,
kross á gálga hengdan hann;
varð að líta sinn hinn sæta
soninn kvölum einan mæta,
meðan lífið láta vann.
5.
Eia móðir, mér að finna
meginsorga byrði þinna
kenndu, lindin kærleikans!
Svo mér brenni hugur og hjarta
helst að elska son þinn bjarta
að eg feti fótspor hans.
6.
Heilög móðir, mér, hin besta,
mundu kvöl í hjarta festa
Kristí, sem á krossi dó!
Sonar þíns er sár í hildi
sjálfur fyrir mig ganga vildi,
veit mér hlut í þjáning þó!
7.
Lát mig gráta með þér, mæta
míns og Jesú krossins gæta,
meðan fjör í æðum er:
því að engin mér skal mærri
mæðubót, né huggun stærri,
en að tárast þar með þér.
8.
Allra skírust mærin meyja
mig ei láttu einan þreyja,
en þér harma æ við hlið;
lát mig kenna drottins dauða,
dýr, og finna hlutann nauða,
hans og bölið berjast við.
9.
Lát mig hörðum höggum særa,
hans að krossi glaðan færa,
fyrir sakir sonar þín!
Vek mér eld og ást í huga,
að mér megi traust þitt duga
þegar dómadagur skín!
10.
Lát mig kvölum krossinn verja,
Kristí dauða fyrir mig erja,
að eg njóti náðar hans!
Svo þegar lík mitt liggur í moldu
ljóss mín hljóti önd á foldu
hæsta gleði himna ranns!