Spurðu mig ei | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Spurðu mig ei

Fyrsta ljóðlína:Spurðu mig ei hvort ég ætli ekki senn
Höfundur:Jónas Árnason*
bls.51. árg. 1. tbl. bls. 43–44
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) oaoaoaaa
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1968
1.
Spurðu mig ei hvort ég ætli’ ekki senn
að yrkja minn fagnaðarbrag
um mannanna göfgi og mannanna reisn
og mannanna bræðralag.
Spurðu mig ei hver þann gálga fær gjört
sem gnæfa mun hæst í dag.
Ég get ekkert um það sagt þér, sonur minn,
því svarið veit aðeins vindurinn.
2.
Spurðu mig ei um það ágæta fólk
sem allsnægtum fagna má,
en þykist ei vita’ um þann langsoltna lýð
sem lagst hefur glugga þess á.
Spurðu mig ei hve mörg augu það þarf
og eyru að heyra og sjá.
Ég get ekkert um það sagt þér, sonur minn,
því svarið veit aðeins vindurinn.
3.
Spurðu mig ei um það blökkumanns barn,
sem bölvun í tannfé hlaut
og gengur að sofa sérhvert kvöld
með sorgin’ að rekkjunaut.
Spurðu mig ei hvort algóður Guð
beri ábyrgð á kvöl þess og þraut.
Ég get ekkert um það sagt þér, sonur minn,
því svarið veit aðeins vindurinn.
4.
Spurðu mig ei um þá hvítþvegnu hönd
sem herðist að smælingjast kverk
og miðar sinn kærleik og mannúð við það
að morðið sé réttlætisverk.
Spurðu mig ei: Hví er ein þjóð svo snauð,
og önnur svo voldug og sterk?
Ég get ekkert um það sagt þér, sonur minn,
því svarið veit aðeins vindurinn.
5.
Spurðu mig ei um hvenær endar það stríð
sem eldi um skógana slær
og eitrinu spýr um þau akurlönd
þar sem iðgræn hrísplantan grær.
Spurðu mig ei hvað sá unglingur hét
sem einmana féll þar í gær.
Ég get ekkert um það sagt þér, sonur minn,
því svarið veit aðeins vindurinn.