Áns rímur bogsveigis – áttunda ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Áns rímur bogsveigis 8

Áns rímur bogsveigis – áttunda ríma

ÁNS RÍMUR BOGSVEIGIS
Fyrsta ljóðlína:Síst er gaman af sorg og þrá
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1400
Flokkur:Rímur

Skýringar

Sjá fyrirvara í upplýsingum um heimild.
Byggt á prentaðri útgáfu Ólafs Halldórssonar en stafsetning hefur verið samræmd.
1.
Síst er gaman af sorg og þrá
segja fólki mætu
hægra er þeim sem hefir sig frá
og harmar enga sætu.
2.
Þeim er só hætt eð hvern mann skér
ef heiminn leggst hann undir
allan sig til elsku lér
við ungar silki grundir.
3.
Sá fær meira en meinið eitt
mikil er sorg í leikum
er bæði þiggur ljúft og leitt
af ljósum gullhlaðs eikum.
4.
Fremi sá alldri um frúr né heim
frygðugt ása minni
ekki fær nema illt af þeim
angr í hverju sinni.
5.
Kvinnur læri kvæða spil
kveikt af orða láni
hirðir engi að hlýða til
hvað er vær kveðum af Áni.
6.
Halrinn var sem herma skal
og hetjur Þóris allar
norðan kominn í Naumudal
um nótt til Ingjallds hallar.
7.
Ingjalld kóngur úti sefr
í einum sterkum skála
nú er sá kominn eð köppum gefr
kóngsins harðan mála.
8.
Þórir bað þá þeyta horn
þökt eru hús með næfri
þegar var elldr og eisan forn
upp í hverju ræfri.
9.
Kóngur spyrr þegar kemr á fætr
kennir skálinn hyrjar
hver hefir uppi elld um nætr
ófrið þenna byrjar.
10.
Þórir kveikir þyrnis smán
þér skal að fullu ríða
fundið hefir þú föður minn Án
og fengið harma stríða.
11.
Sjá mun gneisti gnjóða hjalls
gnæfa hátt umd rengi
floginn af Drífu dóttur kalls
dulist hefr eg við lengi.
12.
Kóngrinn eggjar kappa sín
og kvíðum dauða öngum
alldri skulu vér óttast pín
út sem snarpast göngum.
13.
Ingjalld hafði ægi og kund
ógnar snarpan randa
vópnið bjart í vinstri mund
og vegur til beggja handa.
14.
Allir hlaupa öðlings menn
út með snörpum röndum
Þórir vegr að þrimr í senn
þeim varð hel fyrir höndum.
15.
Allir sóktu að Ingjallds höll
elldrinn lék só víða
þá var dagr að dróttin öll
dugir sem bezt að stríða.
16.
Ingjalld gjörir í örva dríf
allvel framm að ganga
Þórir vildi þengils líf
þá sem skjótast fanga.
17.
Hvórki skorti hug né megn
hann að vópna iðju
sundra lét hann sverðið Þegn
seggi kóngs í miðju.
18.
Tugunum fellu tiggja menn
trauðla stóð jór á líki
hér kom brátt að hittast enn
halr og gramr enn ríki.
19.
Þórir hleypur þengil að
þegar og höggr enn frægi
blóðrefill rístr í bringu stað
brast af kóngsins ægi.
20.
Brandrinn alla bringu rístr
búkinn ofan að nafla
só að hið feita fylkis ístr
fjell um hjölt og kafla.
21.
Kóngrinn hné með kallda stál
klofnar vizku stúka
öðling hratt hann inn í bál
ævi frá eg só lúka.
22.
Allt það sem þá eptir var
æsti griða af Þóri
hilldi bauð að hætta þar
hreysti garprinn stóri.
23.
Hlaupa þegar um borg og bý
báru saman í föngum
kléna gripi og klæðin ný
krikta þorði í öngum.
24.
Velja þeir um vópn og plögg
verður mart í róti
koma skal þegar á kroppinn högg
er kúrar nokkru í móti.
25.
Drengilega bað Drífu kundr
drósum öllum hlífa
finna vill þá fleina lundr
fegurst er þeirra vífa.
26.
Ásu tók af Ingjallds bý
og ærið gullið brennda
efna vill hann orðin ný
Áni vífið senda.
27.
Fjöldi gripa og fagra mey
færa lét hann Áni
hann fór sjálfr í sverða þey
sigur gafst honum að láni.
28.
Syngja lét hann sumrin fimm
sverð í gylldum röndum
enn á vetr og veðrin grimm
var hann á ýmsum löndum.
29.
Frá eg hann heim með fagran plóg
færi haustið sétta
hefr hann allan heiðr í nóg
er hendur mega til rétta.
30.
Þá tók Án við Þóri blítt
þegar vill Ásu finna
kæran tók að kveina lítt
kát var brúðrin svinna.
31.
Þórir frá eg við aura óf
Ásu væna festa
brast upp síðan brullups hóf
búin er veizlan mesta.
32.
Hæveskt víf með heiðri fekk
og hennar góðan vilja
veizlan út með æru gekk
allir sáttir skilja.
33.
Fólkið þiggr af feðgum tveim
fé sem æska villdi
sagði mikið að sóttu heim
sveit af þeirra milldi.
34.
Færnings líður frændum sorg
framm er komið að vóri
feðgar gengu tveir um torg
talaði Án við Þóri.
35.
Nú skal eigi tígnin trauð
tak við eignum þessum
þú munt vera fyrir afl og auð
jafni dýrum hersum.
36.
Eg skal norðr í eyna gá
að erfðum mínum sitja
hvór skal okkars annars þá
með ást og prýði vitja.
37.
Girnstu ekki frændinn frægr
fylkis kóngr að heita
en þá komi það annað dægr
að ekki megir þú veita.
38.
Betra er þér með burgeis stétt
bóndi ríkr að kallast
enn að leggja lofðungs rétt
og lagt úr veginum hallast.
39.
Segir eg þér með sannri spekt
sendir Freyju tára
eytt mun þessari allri mekt
innan fárra ára.
40.
Það skal minnast múgrinn framr
þó mín sé önd úr líki
einn mun verða einvallds gramr
að öllu þessu ríki.
41.
Ásia veittu alla stund
Erpi og fóstra þínum
vertu trúr að veita lund
vinum og frændum mínum.
42.
Fjell þar tal með fyrðum niðr
fróð var garpsins hyggja
í Hrafnistu hringa viðr
hraustur fór að byggja.
43.
Furðu illur flagða gangr
frá eg í eyni væri
sjalldan var það Áni angr
þótt iðnir gengi næri.
44.
Ef villdu garpi veita smán
vættir klæddar skinni
þegar að glettust þær við Án
þeirra hlutur var minni.
45.
Heraði frá og þegnum þeim
Þóri hálegg ráða
allskyns mekt og ærinn seim
eignast frá eg þá báða.
46.
Allvel frá eg að Ása og hann
undu sínu ráði
þótti einn hinn mesti mann
margar rómur háði.
47.
Sú var ættin afreks manns
opt lét sveiginn benda
Ögmund vissi eg arfa hans
akra spilli kenndan.
48.
Þessi réð með þungum brand
þegna marga falli
sonr hans byggir suðr í land
Sigurður bjóða skalli.
49.
Án hefir reist í eyju ból
sem áður greindi kvæði
dóttur frá eg að dýra ól
drengr og Jórunn bæði.
50.
Sú var fögr og furðu snjöll
fekk hun orðlof bragna
kurteis heitir kæran Mjöll
hun kemur til margra sagna.
51.
Þar varð Án af elli dauðr
einn hinn mesti kappi
meyju tæmdist mekt og auðr
mörgum varð að happi.
52.
Katli raum sem kunnegt stendr
kæru heyrða eg gipta
þeirra son er Þorsteinn kenndr
þá hlaut arfi að skipta.
53.
Hans var arfi Ingimundr
Íslands fór að vitja
í Vazdal gjörði vópna lundr
virðulegur að sitja.
54.
Þetta fólk er mart og mætt
mun só greina verki
garps var út af gilldri ætt
Grettir kominn enn sterki.
55.
Margir neyta mennta láns
um mætar frúr og drengi
eg hefi barið um bögurnar Áns
bað mig þessa engi.
56.
Engi skylldi auðar Bil
efni þvílík spotta
reikna eg næsta róstu spil
rímur þessar átta.
57.
Hirði engi að hlýða á
hindurleysur slíkar
hér skal fræðið falla í strá
fari þann með sem líkar.