Alþingisrímur – þrettánda ríma (Önnur kosningaríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 13

Alþingisrímur – þrettánda ríma (Önnur kosningaríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Þá skal tjá frá Þingeyingum,
Bragarháttur:Skammhent eða skammhenda (létthenda, drjúgmælt, hvinhent)
Bragarháttur:Skammhent ?frumstiklað - síðhent
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Þá skal tjá frá Þingeyingum,
þá var dauft og hljótt;
drúpti Bensa dáinn kringum
dauðans kalda nótt.
2.
Þá var allur „eldur dauður“
eftir voðaskell,
þegar Bensi hart á hauður
hinsta sinni féll.
3.
Yfir sig þeir ákaft jusu
ösku’ og fóru’ í sekk;
þá í augun illa gusu
æði-margur fékk.
4.
Ljótur gamli lengi hafði
legið þá í kör;
að sé rekkjuvoðum vafði
vopna aldinn bör.
5.
Sér á vinstri síðu kló ’ann,
svo í brækur fór;
hart á lærið hægra sló ’ann
hét á Krist og Þór: –
6.
„„Æðstu þekking“ ellin veitir,
á mér þetta sést;
heyri allar hraustar sveitir,
hvað mér sýnist best:“
7.
„Setjið mig í sæti Bensa,
svo er bætt vort tjón;
enn mun karlinn kunna’ að skensa
kjaftfor þingsins flón.“
8.
„Hörmung er ef hér á láði
heimskan skjöldinn ber:
eg vil Magnús minn að ráði
mektugr öllu hér.“
9.
„Bankann þarf ei, Þórshöfn dugar,
þar er Snæbjörn minn;
eg skal flytja fegins hugar
fram þau stórmælin.“
10.
„Ljótur hræðist aldinn eigi
atför Valtýings;
máske karli koma megi
kviktrjám á til þings“. –
11.
Að svo mæltu út af féll hann –
úti’ um þingreið var;
enginn vildi’ í elli hrella’ ’ann –
og þeir kusu’ hann þar.
12.
Pétur Gauti gjarnan sagðist
grípa vilja hjör;
allþungt stríðið í hann lagðist
undir svaðilför.
13.
Norðmýlingar sóttu’ að sennum,
sveigðu vopnin stinn;
rauk sem gufa af rekka ennum
Rangár-samþykktin.
14.
Einar beggja vinur vera
vildi’ í hverri þraut;
samviskan hans sýndist bera
sannfæring á braut.
15.
Jóhannes hinn furðu fríði
frækn sig heiman bjó,
þótti vera’ á þingi prýði,
þola flestan sjó.
16.
Sunnmýlingar héldu að hildi,
hríð varð ekki löng;
Axel frækni, garprinn gildi,
geira herti söng.
17.
Gutti hjá í liði lafði
landshöfðingjanum;
umboð hann og umbrot hafði
ill í maganum.
18.
Ólafur frá Arnarbæli
austr á vængjum fló;
snerist um á hnakka’ og hæli,
hvergi af megni dró.
19.
„Þarfastan“ sig „þjóninn“ kvað ’ann
þingi og landsmönnum;
heilla allra’ og heiðurs bað ’ann
Hornfirðingunum.
20.
Í hans mælsku meginflóði
margir fóru’ á kaf;
séra Jón, hinn gamli, góði,
gat ei komist af.
21.
Skaftfellingar vestri vóru
víga búnir til;
tryggðareiðinn ýmsir sóru
ýtar Lauga’ í vil.
22.
Skuggsýnt var og heljarhjúpi
hulin foldarból;
kúrði ugla’ á Keldugnúpi,
kveið þar degi og sól.
23.
Doktor Forni fúll í svörum
fór með kukl og seið;
skaut hann mörgum eiturörum,
austr á Síðu reið.
24.
Kampinn á hann byrstur bítur,
býður Lauga’ á hólm;
niður úr sorta himins hrýtur
hríðin galdra ólm.
25.
Laugi bað sér dísir duga
djöfuls kynngi mót;
fyrsta sinn með hálfum huga
hjör hann þreif og spjót.
26.
Hrakið lá í hrúgum víða
hey hjá bændunum;
uggði þá, að ótíð stríða
ættu í vændunum.
27.
Kjörþingsdaginn röðull roða
reifar engi’ og tún;
glit af skærum geislaboða
gyllti fjallabrún.
28.
Fáir kappar Forna mættu
á fundi þennan dag;
heyja sinna gildir gættu
garpar sér í hag.
29.
Doktor Forna féllust hendur
fyrir sólarbrá;
hann varð þá að steini’ og stendur,
stór við Kötlugjá.
30.
Laugi stoltur slíðrar vigur,
stál var ekki reynt;
frægan hafði’ ’ann hlotið sigur,
hélt á alþing beint.
31.
Rangæingar rómu stikla
ramma þeyttu í gríð;
sendu Þórð og Magnús mikla
að magna geira-hríð.
32.
Eggert svartur hempu hristi,
hleypti vindi’ á stað,
atkvæðanna megnið missti;
manninum gramdist það.
33.
Á skal minna Árnesinga:
Ýmsir vildu þar
gildir, framir Gautar hringa
grípa Sigtýs skar.
34.
Símon hafði beislað bæði
Bakka og Flóamenn;
lét þá sprikla’ í leyniþræði
lengi marga í senn.
35.
Pétur gapti’ og gleiðum túla
galli tómu spjó;
þóttust allir þekkja fúla
þaralykt frá sjó.
36.
Skældi’ hann sig og skók sig allan,
skratti málugur,
hristi lengi ljótan skallann;
lá svo óvígur.
37.
Hannes stóð á hávum palli
hampaði Þjóðólfi,
eins og gamalt goð á stalli,
grenjaði: „Þjóðfrelsi!“
38.
Upphaf sig og endi sagði’ ’ann
allra framkvæmda;
á hvert minnsta orð sitt lagði’ ’ann
áhersluna „ha“ – – –
39.
Móti Birni bændur stælti’ ’ann,
byrsti’ og yggldi sig:
„Eg er fastur fyrir“, mælti’ ’ann,
„flekar enginn mig“.
40.
Í brjósti allir um hann kenndu –
inn á þing hann flaut; –
en með honum samt þeir sendu
Sigurð „ráðunaut“.
41.
Um þær mundir ærnar róstur
urðu’ í Reykjavík;
fór sem vofa’ um hraun og hrjóstur
hundvís pólitík.
42.
Tryggvi karlinn kunni’ að smala,
kallar hann á fund
sjómann hvern og hóf að tala
hátt á þessa lund:
43.
„Standi þið, piltar, hérna hjá mér,
hefjum málmagný,
sjómannsbragur er nú á mér,
enginn neitar því.
44.
Árin mörg í víking var eg,
víða’ um höfin fór,
stýrði Gránu og brandinn bar eg
burða’ og tignar stór.
45.
Mig var á úr meyjaskara
mörgu sinni bent,
með eg þótti fimur fara
flein við turníment.
46.
Nú skal Valtýr hörðum halla
haus á foldar svörð,
Arntsen-Warburg fá að falla
fyrir mér á jörð.
47.
Flota vil eg fagran búa
föntum slíkum mót;
hlaða vígi, hafið brúa,
hefja siðabót.
48.
Inn í bankans hvíta höllu
heim eg yður býð;
gull og gnægð af góðu öllu
gef eg mínum lýð“. –
49.
Sjómenn Tryggva sögðust fylgja, –
sumir héldu þó,
geigvæn kynni undirylgja
á þeim rísa sjó.
50.
Sankti-Lárus sagt er héti
síðan kappinn á,
og glóðaraugna-Gísli léti
guða’ á hverjum skjá.
51.
Einar brátt og Búi fóru
um borg í leiðangur;
eiða hvorir öðrum sóru
eins og fóstbræður.
52.
Agiterað inn við Laugar
er af pilsvörgum;
risu’ úr haugum rammir draugar,
riðu húsunum.
53.
Gísli hljóp og engu eirði,
ákaft þandi hvoft.
Einar hausinn á sér keyrði
upp í háva loft.
54.
Mátti ei jafnast Jón við slíkum
jötna’ og þussa-leik,
hné þar búin Herjans flíkum
hetjan föl og bleik.
55.
Ljóðin enda, óðinn sendi’ eg
ungri hringa-Bil,
hvar sem lendir, héðan vendi’ eg
hróðugr þingsins til.