Alþingisrímur – önnur ríma (Valtýs ríma og Benedikts) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 2

Alþingisrímur – önnur ríma (Valtýs ríma og Benedikts)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Nú skal byrja braginn á
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Bragarháttur:Ferskeytt – víxlhent (frumhendingalag)
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Nú skal byrja braginn á
Bensa hinum gamla;
mest á þingi þótti sá
þjóðskörungur bramla.
2.
Hátt var ennið, hvatleg brá,
harka í andlitsdráttum;
gustur kaldur gaus um þá
úr geysimörgum áttum.
3.
Þar hafa örlög ramma rún
rist, er fáir skilja;
atalt skein und augnabrún
eldur þrjósku’ og vilja.
4.
Þung var röddin, römm og snjöll
rétt sem ofsaveður,
eða hrynji hæstu fjöll
heljar-skriðum meður.
5.
Liðs fyrir þing sér leitaði’ hann,
um landið var á hlaupum,
en berserk aðeins einn hann fann
í þeim mannakaupum.
6.
Karli var það um og ó
út á fari tveggja
stjórnmálanna’ á saltan sjó
í svarta roki’ að leggja.
7.
Valtýr undir Lómsey lá,
laust í rómu harða;
Nellemanni fékk hann frá
feikimikinn barða.
8.
Trjóna’ á dreka gein við grá
gráðugu Hildar róti;
mátti stæltan stálkjaft sjá
standa fjöndum móti.
9.
Rafmagnsljós ei lýstu þar
lýðum Valtýs snjöllum,
en „mýraljósið“ magnað bar
mikla birtu öllum.
10.
Lauga mun eg minnast á,
mesti jötunn var hann;
ægilega ygglibrá
andlitssvartur bar hann.
11.
„Grenjaði voða-hljóð með há“,
hnefum skjöldinn barði,
dreka Valtýs djarfur sá
drengilega varði.
12.
Glæsimenni Valtýr var,
af virðum flestum bar hann;
þó um hann þytu örvarnar,
aldrei smeykur var hann.
13.
Orðahremmsur þutu þétt,
þrumdi’ í mælsku tólum;
stjórnarskútan leið fram létt
líkt og vagn á hjólum.
14.
Gramt var Lauga í geði þá,
gráðugur valköst hlóð hann;
meir en fyrr var biksvört brá,
blóð í kálfa vóð hann.
15.
Honum vits mun frýja fár,
en fremur um græsku mundi
grunaður sá kappinn knár;
hann komst í land á sundi.
16.
Spýttust „eiturormar“ þá
út úr Guðjóns túla;
og engir brandar bitu á
berserkinn í Múla.
17.
Landshöfðinginn lagði frá
löngum hríðum mála:
fús hann leggur aldrei á
ísinn slétta’ og hála.
18.
Nú var Bensa brjóstið þreytt,
beygði karlinn mæði,
en Valtý hann ei hræddist neitt,
hjartað sló af bræði.
19.
Bleki spúðu berserkir,
beittir pennar flugu,
málaoddar eitraðir
inn í hjörtun smugu.
20.
Sungu lengi sverðin blá
seggjum dánarlögin;
dundu í lofti og þutu þá
þungu reiðarslögin.
21.
Hné þá Bensi helveg að,
hetju mæddi elli;
eins og Hannes Hafsteinn kvað,
hélt þó kappinn velli.
22.
Íslands grétu fjöllin forn,
fossinn gígju stillti;
Einar sat og hljóður „horn“
harma sinna „gyllti“.
23.
Þá var mikil þjóðar sorg,
þá voru’ augu á floti,
gnístran tanna í glæstri borg,
grátur í Tobbukoti.
24.
Minna Gustav Adolf á
afrek kappans snjalla,
sem við Lütsen sverði brá
með sigri’, en hlaut að falla.
25.
Það er gott að falla’ að fold
fyrir ættjörð sína;
látins yfir lágri mold
ljúfar stjörnur skína.
26.
Lofaður mun hann ekki um of,
afrek hans og geðið,
úr því Hannes Hafsteinn lof
hefur um hann kveðið.
27.
Valtýr undan halda hlaut,
hraustur seint þó flúði;
upp á drekann Einar „graut“
ákaflega spúði.
28.
Kvað þá Valtýr: „Örvænt er
ekki’ um landsins bjargir,
svo sem Nelli sagði mér,
sjóli’ og ótal margir.
29.
Annars dags eg betra bíð
bröndum með að stríða;
sérhvað hefur sína tíð,
síst er neinu að kvíða“.
30.
Lauk þá rómu, einskær ást
til ættlands sást þar skína,
þar sem enginn, enginn brást
elsku’ og rækt að sýna.
31.
Enda læt eg óðsmíði,
en aftur hef eg kliðinn,
þegar Valtýs vitjaði
vinur aldinn liðinn.
32.
Sofa rósir, dreymir draug
dóm og kærur saka;
ofar ljósin luktum haug
ljóma skær og vaka.