Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Norður fjöll (ferðakvæði) 1

Fjallasöngur

NORÐUR FJÖLL (FERÐAKVÆÐI)
Fyrsta ljóðlína:Á grund undir holtbarði háu
Höfundur:Hannes Hafstein
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1880

Skýringar

Birtist fyrst í Verðandi, 1. árg. bls. 130–131. Textamunur er töluverður og frumgerðin sýnd hér neðanmáls.
1.
Frjálst og glatt á fjöllum er,
ferðalíf af öllu ber.
Léttir, Glæsir! hlaupið hart,
hófar ykkar bila var.
Yfir gjótur ötull foli stekkur,
urðir stiklar, hoppar fram úr þeim.
Yfir klungur, hraun og brattar brekkur
ber oss jór til fjalladísa heim.
2.
Fjallatröll í fellunum,
fjallabörn í hellunum,
hraustum drengjum heilsið þér!
Heil og sæl! nú komum vér.
Lítið upp og sýnið gamla svipinn,
sýnið ykkar fornu rausnarbú!
Engin vera má nú híma hnípin!
Heil þú fjallavættur, sæl vert þú.
3.
Unaðsfagra fjalladís,
fólgin bak við klett og ís,
kom þú fram með fríða kinn,
finn þú sveina hópinn þinn.
Rís þú, hlæ þú blítt við biðlum þínum,
breið þú sparifeldinn undir þá;
gef þeim tærra linda val af vínum;
veit þeim sæti stóli þínum hjá.
4.
Hér er indæl heiðarlaut
hún er hvorki grýtt né blaut,
ágæt handa hestunum,
hæg til sætis gestunum.
Blessuð lindardís mín, kveð þín kvæði,
kyss oss, blædís, hlýtt á munn og kinn,
milda blómdís, hesta hress í næði,
himnesk ljósdís, tjalda salinn þinn.


Athugagreinar

Í Verðandi er ljóðið þannig:
1.
Glatt og frjálst á fjöllum er,
frjálsir sveinar erum vér;
látum skeiða, hleypum hart,
hest’rinn okkar bilar vart.
Komi gjótur, klárinn yfir stekkur,
komi hrjóstur, stiklar hann á þeim —
fram á stökki sérhver röskur rekkur!
Ríðum nú til fjalladísa heim.
2.
Fjallatröll í fellunum,
fjallabörn í hellunum,
hraustum drengjum heilsið þér!
Heilir svo! nú komum vér.
Lítið upp og sýnið okkur svipinn,
sýnið okkur þreknar herðar nú!
Vættur, það er synd að hýrast hnípin,
hér er nóg af gleði, sæl vert þú.
3.
Og þú fagra fjalladís,
fólgin bak við klett og ís,
komdu fram með fríða kinn,
finndu sveinahópinn þinn.
Komdu, hlæðu blítt við biðlum þínum,
breiddu sparifeldinn undir þá;
gef úr þínum lindum val af vínum;
veit þeim sæti stóli þínum hjá.
4.
Hér er bæði lind og laut
ljósgrænt klædd í sumarskraut,
ágæt handa hestunum,
hvíla besta gestunum.
Lindardísir, kveðið oss nú kvæði,
komið svo með veigar handa oss;
hjer við getum glatt oss svo í næði,
gola, kom og rétt oss svalan koss.