En handan vors er haust | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

En handan vors er haust

Fyrsta ljóðlína:Fiðrildin svífa sæl á milli blóma
bls.63–64
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbCC
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1946
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Fiðrildin svífa sæl á milli blóma
í sólskini kvöldsins þyrst í hunangsveig,
skjálfandi af yndi litlir vængir ljóma,
en loks þegar nóttin kyssir grænan teig,
fiðrildin hníga í svefn við reyrsins rætur,
og reyrinn angar og döggvum nóttin grætur.
2.
Á vatninu hvílir dýrð og dalalæða,
í draumi við bakkann vaggar sef og stör.
Blundandi nótt, frá bláma þinna hæða
blærinn að morgni hefur sína för
og þúsund bárur á fleti vatnsins vekur.
Ó, vor, í þínum faðmi er enginn sekur.
3.
En þó er það stundum eins og loftsins ljómi
litist við ystu heiðar feigðarblæ,
og andvarinn hvísli fregn af dauðadómi
úr dýpstu fjarlægð norðan yfir sæ.
– Heiðríka vor, þó heitir vindar blaki,
er haustið að koma langt að fjallabaki. –