Passíusálmaplús - Undir gafli Hallgrímskirkju í Saurbæ | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Passíusálmaplús - Undir gafli Hallgrímskirkju í Saurbæ

Fyrsta ljóðlína:Morguninn eftir andvökunótt
bls.5. árg. bls.
Bragarháttur:Stuðlaður kveðskapur án ríms og reglubundinnar hrynjandi
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:2007
Morguninn eftir andvökunótt
illra drauma
og himintungla af brautu
rísa blóm í túnfæti skáldsins
og klæði blakta
(innra þig angrið sker)
þá er gott að ganga inn með Strönd
og gá að söngvum
um herrans Kristí dauðastríð
halda í höndina á trúnni
tyggja jerúsalemskan pálma.

Daginn eftir vökunótt
yfir særðum vini
situr tjaldur á steini við leiði skáldsins
(blóðdropar dundu þar)
þá skal gengið í grasgarðinn
ofan við kirkjuna hvítu
tígulsteinda
þar vagga bjarkir í vindi
og bláar klukkur
(innra þig angrið sker)
þar má syngja í hljóði
finna afskorið eyra í grasi
horfa út yfir Hvalfjörð
rífa í hárið á trúnni.

Svo kemur kvöldið
sólmyrkvinn
og Botnssúlur hverfa í sortann.

Annan dag undir fréttum
af ókyrrð í eyddu landi

í Betlehem, Nablus, Gaza
eða Golgatahæð
(blóðdropar dundu þar)
má falla á kné í hlíðar
eða klífa turninn mjóa
meðan einhver glamrar á orgel
horfa inn eftir hafi
hermannagrænu á lit.
Yfir öðrum botni innhafs
er sammæðra sól að sortna
(dapurt dauðans stríð)
tveggja ára börn í blóði
táningar slengja grjóti
brotajárnssprengja í bænar stað
hungur í rifnum húsum
þá er erfitt að tolla í turni
við íslenska strönd
þótt þakið sé skothelt, eiri lagt
– krossar vaxa við kirkju.

Kannski er Kristí pína gleymd
(mæðusöm urðu myrkrin)
því enn er fólki fórnað
í sama svörð.

Svo kemur sandbarið kvöldið
og þyrstum býðst bensín í klút
eins og edikið forðum.

Þá mótar fyrir Hauskúpuhæð
yfir Hvalfjarðarströnd í þoku.

Og enn, að lokinni líkvöku
yfir línhvítu enni bróður,
systur, dóttur, móður,
(dapurt dauðans stríð)
er vant að leggjast í fjöru
finna saltvatnið særa tungu
draga hljóðlega þyrna úr enni
flétta bláklukkukórónu þétta
því blómin spretta að ári
aftur úr sömu mold.

Þá er í lagi að leggjast og tárast
á leiði skáldsins og sjá
kirkjugluggana glóa
og Ferstikluhimininn hvítna
því senn kemur sunnudagsmorgunn
saffransól
og hvelfingar standa opnar.

Þá er óhætt að tjarga bát
og draga um vonarvötnin
mæna á kirkjuna ljósu
og Getsemane við gaflinn
og purpuraklæðin prestsins
blaða í gömlum sálmum
– og gleyma engu –
því enn koma andvökunætur
þar sem einhver liggur í rúmi
og sjötta orð Kristí á krossi
er harðangurssaumað í svæfil
þá má gráta, gantast, vaka
losa um takið á trúnni
ráðgera ferðir um fjörðinn
með hárrétt tungl fyrir stafni
(mildari urðu myrkrin)
því enn vakna klukkur í túni
og ljós á leiði skáldsins.

Og eymdanna öld hin nýja
mun eyðast á efsta degi
– þangað til má því þrauka
við Þyril og Jórdan og Jenín
og þröngan fjörð við hvaltennta strönd
með handlegg um hálsinn á trúnni
í saffransvita
með sunnudagspálma við enni
og annars manns eyra í grasi.