Rímur af Flóres og Leó – tíunda ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Flóres og Leó 10

Rímur af Flóres og Leó – tíunda ríma

RÍMUR AF FLÓRES OG LEÓ
Fyrsta ljóðlína:Þó mig blíð hér nistils niftin
bls.138–155
Bragarháttur:Skammhent eða skammhenda (létthenda, drjúgmælt, hvinhent)
Viðm.ártal:≈ 1625
Flokkur:Rímur
1 Þó mig blíð hér nistils niftin
neyði um Sónar föng,
má ei fríð þér dúka driftin
dœgur stytta löng.
 
2 Eg þó leiti að Frosta föngum,
falda skorðin trú,
fram að hreyta Sónar söngum
seint vill ganga nú.
 
3 Lasta skyldi ei ljúflynd sprundin
lýðurinn geðs um bý,
guðs fyrir mildi gullhlaðs grundin
gat oss heiminn í.
 
4 Hógvœr snót er göfug gœði,
guðhrædd, vitur, kát,
sorgar bót fær sá henni næði,
sé hún eftirlát.
 
5 Í ótrú vefur sig ágœt ljúfan
aldrei ljóst né leynt,
við yfirmann hefur eins og dúfan
ástarþelið hreint.

6 Segir í letri sóma fullur
Salomon spaki frá,
að fróm sé betri en fegursta gull,
sem finnst hér jörðu á.
 
7 Eða sem sól á himni hœstum
hauðrið vermir kalt,
veraldarhjól með geislum glœstum
gleður og þíðir allt.
 
8 Sólarprýði sóma meður
sitt um hús er frú,
í mótgangsstríði mjúklega gleður
mann sinn, börn og hjú.
 
9 Líkt sem hjartað lífgast meður
ljóðum og pípnasöng,
drósin bjarta drótt so gleður
um dœgur lífsins löng.
 
10 Ýkjað frekt fær auðar þilja
ei það nokkur nú,
geysilegt hvað gjörir að skilja
góða og illa frú.
 
11 Oft þœr hýrum eyðir sverða
auka sáran móð,
klókara dýr ei kann að verða
en kyndugt svika fljóð.
 
12 Sumir snœru sorgar harða
seggir hlutu af þeim,
misstu œru, góss og garða
og gengu so frá heim.

13 Mennt ófróða mansöng hrekur
máls um raddar gil,
því mitt ljóðalœti tekur
að langa sögunnar til.
 
14 Ljóða sals að flaustur flýtur
frœða á lóna vör,
tanna mals af torgi hrýtur
tíundi Sónar knör.
 
15 Þar réð bresta, þegnar teitir,
þrotin dverga skeið,
að föllnum versta fleina beitir
Flóres borg úr reið.
 
16 Karlinn hraður kóngi færði
kauðans höfuð í borg,
þegn var glaður þá sig stærði,
þengill missti sorg.
 
17 Flóres reið nú fram að tjöldum,
frúrnar úti sá,
langa leið sem leiftur af skjöldum
lýsti gullið á.
 
18 Heiðnir ryðugan halinn líta
hleypa tjöldum að,
varla liðugan reynir ríta,
rétt þeir undrast það.
 
19 „Glópurinn verstur,“ gjöra þeir inna
geysilegt þá með spott,
„ekki brestur frúr vill finna
og færa þeim eitthvað gott.

20 Sjá hvað blómlegt sverð hann reiðir
síðunni utaná bert,
þykja mun frómlegt, þarf ei skeiðir,
það er með listum gert.
 
21 Æ, hvað grafin eru hans klæði
öll með linna ból,
geðlega skafin, gyllt úr æði,
glóa þau eins og sól.
 
22 Ef ganga vildi vort á valdið
og vera með heiðna trú,
risinn skyldi greiða út gjaldið
og gefa honum ríkin þrjú.
 
23 Með ryðugu sverði risann af sníða
riddarinn ætlar sér,
og kvintu verði að kaupa bliða
kóngsins dóttur hér.“
 
24 Ekki lætur halur sem heyrði,
hefur það öngvan stað.
Flóres mætur fákinn keyrði
fljóða skaranum að.
 
25 Otrar gjalds af eikum kenndur
ekki Flóres var,
dyrum tjalds hjá dýrleg stendur
dóttir Soldáns þar.
 
26 Á eina var síðu sómi nógur
og sélegt vatnið vænt,
en aðra fríður aldinskógur
og epla blómið grænt.

27 Með dýrri prýði daga og nætur
dundu fuglar á,
þeirra fríður söngur sætur
sífellt heyrast má.
 
28 Greru þar landsins gæði á jörðu,
grös og liljan nóg,
margan kransinn mætan gjörðu
meyjarnar við þann skóg.
 
29 Mikil bar gæði móins af sulli
Marsibilla frú,
öll voru klæðin ofin af gulli
í Alexandría nú.
 
30 Höfuðbúning bar hrundin blíða
heiðnum eftir sið,
gyllt um kring og gimsteinar víða,
glóuðu laufin við.
 
31 En þegar sólargeislinn glæri
gullið fagurt á skein,
heiðnir dólar hyggur hann væri
með hjálm og skyggðan flein.
 
32 Halinn vefur hugarins þungi,
að heiðnir vakta mær,
fátt sér gefur að Flóres ungi,
fljóðunum reikar nær.
 
33 Í hóp þær saman á halinn störðu
og hlógu keskin fljóð,
firna gaman að Flóres gjörðu,
frekast Soldáns jóð.

34 „Að vorum tjöldum,“ víf frá eg ræði,
„voldugur riddari fer
með fögrum skjöldum, skoðið hans klæði,
skínandi allur er.
 
35 Mest oss undrar,“ mælti hin snjalla
Marsibilla frú,
„hvað ástin tundrar um mig alla
af þeim riddara nú.
 
36 Sorg mig vefur með sárum pínum,
síðan eg fékk þann brag,
ef hann hefur á elskhuga mínum
unnið sigur í dag.
 
37 Mér líst sá gæfur og ljúfur við dróttir,
laglegur frúnum hjá,
vera mun hæfur herramanns dóttir,
hvörju landi á.“
 
38 Ein þá meyja andsvör greiddi,
er var frúnni næst,
gullhlaðs eyjan glaðvær beiddi
að geta riddarans fæst.
 
39 „Við Mako- sver eg -met,“ hún sagði,
„mey, þess dyl ei þig,
umbreytt er mjög eðlis bragði
ekki síður um mig.
 
40 So mér veiktust sinnis æður
sem eg riddarann leit,
ástar kveiktust glóandi glæður
geyst um hyggju reit.

41 Hans athæfi ei vill kefja
ærna hjartans þrá,
Makon gæfi eg mætti hann vefja
mínum armi á.“
 
42 önnur sagði djörf með dári
drós í meyjanna reit:
„Eins nú lagði að ærilegt fárið,
eg sem riddarann leit.
 
43 Sú er það pína, riddarans rjóða
renna verð á fund
og honum mína elsku hjóða
alla lífsins stund.“
 
44 Þriðja réð svara þiljan ljóma:
„Það veit trúa mín,
af riddara ærnum blóma
eg hef hjartans pín.
 
45 Minn þó vildi meydóm gilja,
mér er so ástin heit,
feginn skyldi fá sinn vilja,
ef færi þess á leit.“
 
46 Marsibilla á mey þá deildi,
mærin varð ósvinn,
líkaði illa, löðrung skelldi
með lófa á hennar kinn.
 
47 Lectiu setur liljan bríma
lauka þöllu nú:
„Orð þín betur í annan tíma
athuga skaltu, frú.“

48 Fram því geystara Flóres ríður
sem frömdu þær meira háð,
læst sem meistari mennta fríður
að meyjunum fá ei gáð.
 
49 Seima þellum siður var slíkur,
sinnti ei halurinn þeim,
að Marsibilla mjög snart víkur
og mey greip höndum tveim.
 
50 Á fákinn hefur upp frúna hreina
Flóres ungi nú,
að sér vefur mæta meyna
og mjúklega kyssti frú.
 
51 Fljóð í krans á Flóres störðu,
þær furðar þennan sið,
varð nú stans á gleðinni gjörðu,
göfugum hnykkti við.
 
52 Þær felldu glaum, en Flóres víkur
fáknum út á torg,
herðir taum, en hesturinn strýkur
heim á leið að borg.
 
53 Þýðust mey í þegnsins höndum
þá sig illa bar,
hún vissi eigi hvaðan úr löndum
halurinn þessi var.
 
54 Sagði frú með sorgar læti:
„Sé eg ei faðir þig,
ellegar þú minn elskhuginn mæti
um ævina lítur mig.
 
55 Raunir í dálpa, riddarinn vafni
mig reiðir burt með sér,
gjörið að hjálpa í goðanna nafni
góðir heiðnir mér.“
 
56 Hennar emjan heiðnir á stræti
heyrðu langt um bý,
þá var gremjan, þuss og læti
þeirra tjöldum í.
 
57 Yfrið hraðir á fáka fljóta
flösuðu hvör sem má,
hertygjaðir til handa og fóta,
hringþöll vildu ná.
 
58 Flóres sá hvar firðar ríða
með fagran skjöld og rít,
talar hann þá við brúði blíða:
„Eg brátt þig missa hlýt.
 
59 Um ungan mig er, auðgrund snjalla,
ástin heit á þér,
eg girnist þig yfir gripina alla
og gullið veraldar hér.
 
60 Lát þú sætust seimgrund ljósa
sorg af hjartans múr,
þig vil eg mætust meyjan kjósa
mér til ektafrúr.
 
61 Í hyggju landi hal fyrir snauðan
haf nú öngva sorg,
hjó eg með brandi dógling dauðan
í dag fyrir Párís borg.

62 Af andarvisnum ástar gengið
ei fær lengur þú,
hef eg kristnum hilmir fengið
höfuð risans nú.
 
63 Því leggur hinn trylldi, lauka tróða,
lengur ei ást við þig,
en eg vildi yður bjóða
til ekta sjálfan mig.“
 
64 Trúa gerði ei döglings dýra
dóttir hjörva meið,
af ryðugu sverði riddarans rýra
risinn hreppti deyð.
 
65 Kom nú lýður með kappi hörðu
kóngs að sækja jóð,
hart á síður báðar börðu
beisladýrin móð.
 
66 Flóres undan fákinn lúna
flengdi hart um bý,
hafði ástundan halur með frúna
að hleypa borgina í.
 
67 Ræða gjörði ríkt við vífið:
„Rjóðust elskan mín,
fyrri kjörði eg láta lífið
en ljúfust missa þín.
 
68 Þó nú liljan lægis bríma
leggi ei ást við mig,
auðar þilja, einhvörntíma
eignast mun eg þig.“

69 Með þeim ræðum mengrund hreina
í mestri kyssti neyð,
af hennar klæðum ermi eina
ungur Flóres sneið.
 
70 Lítill friður líst honum núna,
lengur ef undan flýr,
hann lét niður á hauðrið frúna,
heiðnum móti snýr.
 
71 Hundrað þeystu að hjálma njóti
heiðingjarnir þá,
frúna leystu af fleina brjóti,
Flóres gjörir so tjá:
 
72 „Hratt mun eg bráður hlífar klúta
höggva yðar á torg,
einn skal áður stássarinn stúta
en stundi eg flýja í borg.“
 
73 Í hópinn strýkur heiðnum móti
með hlíf og blakka gjörð,
undan rýkur ryðugu spjóti
rambarinn margur á jörð.
 
74 Flóres dáða vel sig varði,
vítt um flokkinn óð,
á hendur báðar heiðna barði,
hrundi á torgið blóð.
 
75 Margan gaurinn gjörði að sníða
geirinn fölur að ná,
heiðinn paurinn hugði að stríða
og hjalandi undan gá.

76 Þeir segja úr díki djöfullirm sjálfur
dollsi þar á ferð,
í riddara líki randa álfur
með ryðugan skjöld og sverð.
 
77 Þessar heyrðu á hölda ræður
heiðnir kóngar tveir,
í hópinn keyrðu: „Hvör ertu, skæður?“
hjöluðu báðir þeir.
 
78 „Fús mun eg bíða,“ Flóres sagði,
„ef fréttið eftir mér.“
Að honum ríða báðir að bragði
og benda skyggðan hjör.
 
79 Fjölnirs tundur Flóres reiddi
framan í stælta gjörð,
báða í sundur bófana sneiddi,
bútarnir duttu á jörð.
 
80 Af sjóla falli svarta og rauða
setti heiðna menn,
þeir litu á hjalli dólga dauða
dottna báða í senn.
 
81 Álma rjóður nam einn fram ríða,
Amírall nefndist sá,
sjóli var bróðir Soldáns stríða
og sat í Persíá.
 
82 Gaurinn trylldi gerði að stefna
göfugum Flóres mót,
kauðinn vildi kónga hefna
og keyrði í skjöldinn spjót.
 
83 Flóres rekur fleininn breiða
framan í kóngsins brjóst,
illskufrekum aflar neyða,
á jörð hlífin slóst.
 
84 Kónginn risti rítin rauða
ryðug í vopna skúr,
Amírall gisti dapran dauða,
datt hann söðli úr.
 
85 Kóngsins dauðinn heiðna hrelldi,
þeir hjöluðu so af móð:
„Sjá hvar kauðinn vagar um veldi
og veitir skemmdir þjóð.
 
86 Drepur hann vora drótt með sverði,
drengja er skömmin ljót,
ef ei skulum þora álma skerði
allir að ríða mót.“
 
87 Með hjarta klóku heljar nauðir
hleyptu Flóres að,
spjótin skóku bófar blauðir
og benja reiddu nað.
 
88 Flóres lætur geirinn ginja
gylltum spöngum í,
vítt um stræti hjáhnar hrynja,
hrottann bar við ský.
 
89 Bilar nú hestur í branda svæði,
beisla særðist dýr,
fákurinn lestur féll af mæði,
Flóres undan snýr.

90 Halurinn sá hvar herlið vendi
harla geyst um torg,
Flóres þá þar Clemus kenndi,
kominn úr Párís borg.
 
91 Af risans hafði falli fengið
fylkir gleðinnar stund,
þá ei tafði, þegar bjó mengið
þetta á Flóres fund.
 
92 Clemus leit að Flóres flýði
fyrir heiðinni þjóð,
hann á beit þá harmurinn stríði
og hestinn keyrði af móð.
 
93 Svartir kauðar sjá nú þenna
siklings her um bý,
hetjur blauðar hlaupa og renna
heim sín tjöldin í.
 
94 Clemus riddurum kristnum meður
keyrir í hópinn þá,
að heljar kryddurum hann fram veður,
hjuggu og lömdu að ná.
 
95 Karlinn hraður um völlinn vendi
og veitti mörgum slag,
var sem maður sá meins ei kenndi,
þó mjög sé hniginn á dag.
 
96 Tvö þar hundruð heiðinna lýða
heljar fundu nauð,
lágu sundruð völl um víða
virða líkin dauð.

97 Heiðnir karlar hjör við rauðan
hleyptu undan tveir,
risans fall og dóla dauðan
daprir sögðu þeir.
 
98 Marsibilla mæt í tjöldin
mey kom bundin sorg,
heiðnir illa hrepptu gjöldin,
að hún var ei flutt í borg.
 
99 Clemus gildur karlinn góður
keyrði hest um bý,
hleypa vildi heiftar móður
heiðnu tjöldin í.
 
100 Flóres mesta fólksins grúa
fyrir kvað þar með dáð:
„Ef mínum hesti mætti eg trúa,
mundi það óska ráð.“
 
101 Flaug um grundu fregnin nýja
fyrir þá kristnu sú,
að heiðnir mundu af hræðslu flýja
í herbúðirnar nú.
 
102 Með bardaga ströngum bragnar þeysa
bófana heiðnu á,
þeir töpuðu föngum, tóku að reisa
í tjöld, þar Soldán lá.
 
103 Heiðnir störðu á hjálma Ulla,
hlíf nú enginn ber,
í hosurnar gjörðu dólgar drulla
og drógu so allt með sér.

104 Báru ei hrumir vopn né varnir,
vöguðu so um bý,
voru sumir af fötunum farnir
á flótta tjöldin í.
 
105 Margur kannaði dapran dauða
drengur á þeirri stund,
hálft lá annað hundrað kauða
höggvið þar á grund.
 
106 Skunda hart því skjómann kenna,
skjöld nú enginn bar,
í Dampmartin dólgar renna,
þar dögling Soldán var.
 
107 Til herbúða heiðinna lýða
hleypa kristnir nú,
grípa þar skrúða, gullið fríða
og glæsta linna brú.
 
108 Með hraðri snilli herbúðir sviptu
hlífum og orma ull,
sín á milli seggir skiptu
sex hundruð marka gull.
 
109 Heim til borgar höldar vendu
með hlífar og bríma glóð,
öngrar sorgar kristnir kenndu,
kát var heldur þjóð.
 
110 Virðing náðu og heiður hýrum
höldar Flóres tjá,
sóma kváðu af dögling dýrum
Dagobertó fá.

111 Clemus skær er karl að líta
kátur af linna brú,
í skríkjum hlær með skeggið hvíta
og skrafar við Flóres nú:
 
112 „Dagobert fríði gefur þér gengið,
gleður það löngum mig,
hef eg úr stríði heilan fengið,
hjartkær son minn, þig.
 
113 Gjörir mig ríkan gjald, sem tærði,
góð sú lukka var,
um hafið eg slíkan hingað færði
og hér í Párís bar.
 
114 Eg hefi sorgað sumar og vetur
sóaðir gjaldi þú,
hefurðu borgað hvörjum betur
hest og fuglinn nú.
 
115 Við skulum báðir í borgina ríða
og birta kóngi frá,
fyrir þínar dáðir þarft ei kvíða,
þú munt sæmdir fá.“
 
116 „Fús skal gera,“ kvað Flóres mætur,
„faðir sem líkar þér,
hvað þú vera ljúflega lætur,
lyndir allvel mér.“
 
117 Í borg með skyndi bragnar lögðu,
búið sem þetta var,
dýr tíðindi djarfir sögðu
Dagobert nú þar.

118 Sem hilmir söguna heyrir og mengi,
hirðin gladdist sú.
Nóg hef eg böguna bangað lengi
blákalt stirða nú.
 
119 Seyrugur snúinn Sónar strengur,
settur orða mar,
leirugur fúinn lóna þvengur
léttur skorða var.