Ísland (bragarbót) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ísland (bragarbót)

Fyrsta ljóðlína:Lifi vort land
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) cAAc
Viðm.ártal:≈ 1800
Tímasetning:1888

Skýringar

Sjá umfjöllun um kvæðið Volaða land eftir sama skáld.
Lifi vort land,
ættleifðin ástkæra góða,
altarið norrænna þjóða.
Lifi vort land!

Stórmerkja land,
brennheitt með hlásvölum faldi,
brynjað með guðdómsins valdi.
Stórmerkja land!

Heimsfurðu land,
hreyfi þú fald eða fingur,
fjallið sem vatnsbóla springur.
Heimsfurðu land!

Sögunnar land,
sett út úr samneyti þjóða,
samt ertu stórveldið ljóða.
Sögunnar land!

Fornstóra land,
fátækt á fjáraflans borði,
flugríkt af stórsæmdar orði.
Fornstóra land!

Örlaga land,
fundið af fræðiguðs hrafni,
frumherji í veraldarstafni.
Örlaga land!

Sækónga land,
laugi þig sjórinn af lotning,
ljómandi fráneyga drottning.
Sækónga land!

Orrustu land,
helheimi hefir þú varist,
heimsfræg í þúsund ár barist.
Orrustu land!

Reynslunnar land,
dregið með djúpsettum rúnum,
dómstóll í sögunnar túnum.
Reynslunnar land!

Lífseiga land,
sístungið sverðum og spjótum,
sífellt á jafnréttum fótum.
Lífseiga land!

Lífsæla land,
nærandi kjark vorn og kjarna,
kraftur og líf þinna barna.
Lífsæla land!

Feðranna fold,
signuð og háblessuð sértu,
sóminn og lífið vort ertu,
feðranna fold!

Mæðranna mold,
lánið og líknin vor ertu,
lukkan og yndið vort sértu.
Mæðranna mold!

Niðjanna fold,
sár þitt skal hjarta vort særa,
sæmd þín oss deyjandi næra.
Geym þú vort hold!