Sýslunefndarmannskjörið á Hrófbergi á Jónsmessu 1912 – Fyrri ríma: Liðsafnaðurinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sýslunefndarmannskjörið á Hrófbergi á Jónsmessu 1912 1

Sýslunefndarmannskjörið á Hrófbergi á Jónsmessu 1912 – Fyrri ríma: Liðsafnaðurinn

SÝSLUNEFNDARMANNSKJÖRIÐ Á HRÓFBERGI Á JÓNSMESSU 1912
Fyrsta ljóðlína:Magnús hlerar fram hvað fer
Bragarháttur:Ferskeytt – oddhent – hringhent
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1912
Flokkur:Rímur
1.
Magnús hlerar fram hvað fer
fullvel sér að gengur:
Gunnlaug her óvígur ver
völd svo beri lengur.

2.
Tals ljómandi ber hann brand
beitt er andans stálið
þegar um land hann þeytir gand
þá fer að vandast málið.

3.
Eygló friðar sóknar svið,
sýnist miður skreyta,
valið lið og vígbúið
verinn styður hneita

4.
Ingvar herkinn hildarserk
hölda lerkar framur,
heldur á merki hetjan sterk
hermanns verkum tamur.

5.
Nokkrir segja Sigurey,
sverða Frey nástæðum
fylgja eigi álms að þey
í skjaldmeyjarklæðum.

6.
Björn ráðslyngur bens við þing
bragna stingur geiri,
öllum hringinn heims um kring
hervíkingum meiri.

7.
Sá með her allhraustan fer
hringa verinn sterki,
hríð þar sverust orra er
Ólafur ber hans merki.

8.
Vermunds kundar geirs um grund
glæst af mundar þvitum
Baldurs tundur bjart í mund
brennur í hundrað litum.

9.
Kikna og iða vellir við
veðra riðar kofi
Sumarliði hans við hlið
heldur að griðarrofi.

10.
Gili- þar úr -Þjóðbrókar
þyrstir í hjarar veður
hörku snarir hrímþursar
honum fara meður.

11.
Brandar fá ei bitið þá
bens nær há menn þingin
líkt og sjái ísmöl á
er stálgrá fylkingin.

12.
Guðrún háum aldri á
otar bláum málmi
áður sjá nam enginn þá
undir gljáum hjálmi.

13.
Hervöru á hún minna má
Mistar- kná í -vési
vígreif láar geisla gná
Græna- frá er -nesi.

14.
Þessi her um hauðrið fer
og herör sker upp nýja
margur hér því hræðslu ber
og hugsar sér að flýja.

15.
Guðjón stoðar þjóðlið það
þunns við hroða-gjálfur
þó er skoðun ýmsra að
hann ani í voða sjálfur.

16.
Háll er svaði um sóknarhlað
sárs þá naður gellur
tel eg skaða ærnan að
ef sá maður fellur.

17.
Sigra enginn ýta kann
afreks drenginn ríka,
vígs- því –gengi Halldórs hann
hefur nú fengið líka.

18.
Sá í mundum skekur skálm,
skúr á þundar hvelfi
gylltum undir ægishjálm
aldar hundruð skelfi.

19.
Geystar fara fylkingar
fram þær bar á láði
haslaður þar, sem völlur var
virða skarinn áði.

20.
Létti róli bænda ból
blundi fól hún Gríma
júní sól á silfur-stól
sat við pól þann tíma.

21.
Varð um óttu í hernum hljótt,
hug og þrótt að örva,
þessa nótt við drauma drótt
dormaði rótt hin fjörva.

22.
Árla stóðu fletjum frá,
Freyrar glóða strauma,
suma hljóða setti þá
sögðu ei góða drauma.

23.
Aðrir spá um Mistar mel,
mundu fáir hníga
jóreyk sá við suðurhvel
sveitin þá upp stíga.

24.
Vígs á mótið ferð var fljót
framreið sjót járnvarin
moldin rótast glymja grjót
gota fótum barin.

25.
Hristar þjóna glatt var geð,
gullu tónar naða,
reið þar Jón og Magnús með
marga ljónhugaða.

26.
Ása hara blys hver bar,
búnar í hjarar hviðu,
með þeim skara skrautbúnar
skjaldmeyjar fram riðu.

27.
Nokkur friðar von ei var,
vígs að miði snúnir,
fylktu liði foringjar
fleins í kviðu búnir.

28.
Vals á þingum vel forsjáll
vig-mæringur harði,
arm fylkingar annan Páll,
orku slyngur varði.

29.
Þar með ýtum fá eg Finn
frægan rít að bera,
þá gat líta Þórarinn
þótti nýtur vera.

30.
Fetbreiðsstingjum foringjar
fleins á kynngi jörðu,
best þar syngja bæsingar
brjóst fylkingar vörðu.

31.
Geirvangsraðar armi í
otaði glaður falnum.
Magnús hraður hjörs við gný
hetja úr Staðardalnum.

32.
Sérhver bíður búinn þar,
brandar úr hýði stikla,
honum fríðir fullhugar,
fylgdu í stríðið mikla.

33.
Sló um Göndlar - ljóma - lönd
langt af bröndum vera.
Guðlaugs hönd þar hjalta vönd
hlaut að röndum bera.

34.
Þrýtur skíma dagur dvín
dökk er að Gríma snúin
lagar bríma hirtu Hlín
hérna er ríman búin.

35.
Bætti upp rýran stefja stofn
stjörnu - týri - lauga
gylltra víra - læsi - lofn
ljóðin hýru auga.