Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Söngur um heimsendi

Fyrsta ljóðlína:Þegar kominn er heimsendir
Bragarháttur:Óháttbundið ljóð
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:2004
Flokkur:Sónarljóð

Skýringar

Ort í Varsjá í síðari heimsstyrjöld. – Íslenzki textinn styðst framar öðru við þýðingu eftir Karl Dedecius (f. í Póllandi 1921). Hann er virtasti kunnáttumaður þýzkumælandi þjóða í pólskum nútímabókmenntum og mjög mikilvirkur þýðandi pólskra ljóða jafnt sem lausamáls.
Þegar kominn er heimsendir
hringsólar suðandi býfluga kringum skjaldfléttu,
fiskimaður gerir við glitrandi net.
Í hafi stökkva höfrungarnir fjörmiklir,
spörfuglsungar krækja klóm í þakrennu
og húð slöngunnar er gullin, eins og á að vera.

Þegar kominn er heimsendir
ganga konur með sólhlífar yfir víðan vang,
rennur drykkjumanni í brjóst við brún grasflatar,
á götu heyrast grænmetissalar kalla
og bát undir gulu segli er stefnt í átt til eyjar,
fiðluhljómur hvílir í lofti
og skjótt líður heiðstirnd nóttin hjá.

Og þeir sem bjuggust við þórdunum og eldingum
verða vonsviknir.
Og þeir sem bjuggust við stórmerkjum og lúðurþyt erkiengla
skilja ekki að einmitt nú gerist það.
Svo lengi sem uppyfir sveimar sól og tungl,
svo lengi sem hunangsfluga flýgur til rósar,
svo lengi sem börnin björtu og rjóðu fæðast
trúir því enginn að einmitt nú gerist það.

Aðeins öldungurinn gráhærði, sem gæti verið spámaður,
en er það ekki, því öðru þarf hann að sinna,
mælir, og bregður bandi á tómatana:
Þessi eru hin einu endalok,
þessi eru hin einu endalok.