Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.
1.
Árin hafði eg
alls á baki
átta yfir
tugina tvenna
þá hið fyrsta
fékk eg séna
af mér komna
eina dóttur.

2.
Hana eg tók
og talaði þannig:
sæl, velkomin
sértu að vísu,
skaplig kind
af Guði gefin,
uppfylling minnar
ævisögu.

3.
Synda minna
sé eg menjar
berlega
á barnsgrát þínum.
Illsku-rót
er upphaf mæðu.
Því er skyldugt
þér eg dilli.

4.
Það verður
mér þá að orði
fyrst þegar þú
fer að æpa:
Guð þig aldrei
gjalda láti,
miskunnsamur,
minna synda.

5.
Ertu nú komin
inn í heiminn
nokkuð meir
en næturgestur.
En(n) hvað margar
áttu að gista
hann veit sem þig
hefir skapað.

6.
Ertu nú fyrsta
ýtt frá landi
á ólgusjó
aldarinnar.
Hvað mörg eða
hvaðan kemur
á þig báran
er hjá Guði.

7.
Ertu nú fyrsta
inn í gengin
Völundarhúsið
villugjarna.
Hann sem hefir
heiminn unnið
aðstoði þig
út að rata.

8.
Nú ertu orðinn
nýr stríðsmaður
endurlausnarans
undir merkjum.
Sjái hann til þín
so þú eignist
þína sál
í þolinmæði.

9.
Ævin manns
er öll að sönnu
eymdafull
og fárra daga.
Þó er langur
lasta-tíminn
og hlið örmjótt
til himnaríkis.

10.
Guð gefi
þú getir ratað
þetta innum
þröngva portið
og varðveitist
á vegi réttum
þangað til
að þú uppleysir.

11.
Auki sá þig
endurfæddi
endurfæðingar
í þér krafta
trúar so að
tendrist ljósið
og ávöxt beri
alla vega.

12.
Ei veit eg
hvört auðið verður
að eg við þig
orðum skipti
þau þegar
að þú fær skilið
og andsvör gefið
aftur á móti.

13.
Því vil eg
að þetta liggi
eftir hjá þér
ef aldri náir.
Það þú skalt
af þanka öllum
óttast Guð
og elska bæði.

14.
Eigi áttu
auði að fagna,
ei höfðingja
hylli stórri
ekki ríkum
ættarmönnum
hvar í margur
hælis leitar.

15.
Hvörninn kanntu
þá að þrífast
utan Guð
þú eigir föður?
En(n) hann hefir
aldrei brugðist
þeim sem hafa
þóknast hönum.

16.
Herradóms
er hans í valdi:
auður, heiður,
afl og gæfa.
Sjálfur er hann
sinna allra
mikil laun
og mæta skjöldur.

17.
Þess vegna
skal það nú ganga
eitt fyrir þér
undan hinu
að þú orð
og andsvör drottins
iðkir meðan
endist lífið.

18.
Það er skýrust
skemmtan manni
óyndis
í aumum högum
huggun gild
og heilnæm regla,
prýði, ást
og yfirvinning.

19.
Guð bið eg þér
gefa virðist
nýta gáfu
náms og mennta,
í lærdóminum
lostugt hjarta
og ávöst
í öllum dáðum.

20.
En það dugir
ekki að læra
utan fylgi
ótti drottins;
hann að elska
og hönum treysta
iðkananna
er einka brúkun.

21.
Sá sem þekkir
það hið góða
elska mun það
og umfaðma.
Hann sem elskar
hann viðleitast
rétt að þóknast
þeim hann unni.

22.
Að Guð þekkir
og þig sjálfa,
þar með heim
í þriðja máta,
næsta mikil
nauðsyn krefur
ef klakklaust viltu
komast héðan.

23.
Ef guðrækin
viltu vera
máttu búast
við mótlæti.
Af því áttu
og að venja
þig við það
að þola nokkuð.

24.
Ef guðrækin
viltu vera
þá verður þú
þér að neita
og það ekki
allt að sæma
sem þér kann til
sinnis vera.

25.
Ef guðrækin
viltu vera
víst má þér ei
vaxa í augum
glys veraldar,
gengi og auður.
Fáum tveimur
tekst að þjóna.

26.
Ef guðrækin
viltu vera
hugsaðu um
þig hendi aldrei
forhugsað
það fær þú vitað
Guði vera gjört
til styggðar.

27.
Ef guðrækin
viltu vera
flýja skaltu
að forsmá annan
en þig halda
öllum fremur
óverðuga
í augum drottins.

28.
Ef þú hittir,
sem oft kann vera,
blíðmálugan
bakvaskara
lát þú vel yfir
hans vinalátum
en set traustan lás
á tungu þína.

29.
Eitt er hið mesta
meistara-stykki,
ómissandi
í öllum greinum,
munninum haga
mátulega.
Það er vandi
að þegja og tala.

30.
Elska sannleik
í öllum hlutum.
Hann meðkenndu
hvað sem gildir
annað hvört þegar
æra drottins
eður velferð annars
við það liggur.

31.
Þó skaltu ei
við þrætinn keppa.
Oft hefir vandi
af því risið.
Ef hann lætur
sér ekki segjast
villist hann
en vertu afsökuð.

32.
Engum láttu
orð þín liggja
til óvirðingar
né ógeðþekknis
en brúkaðu aldrei
blíðyrði mikil.
Þau plaga að fylgja
fölsku sinni.

33.
Vertu hógvær
og varast deilur
en ef orðum
áttu að skipta
skrafaðu satt
með skýrum rökum,
yrðstu svo aldrei
við óráðvandan.

34.
Brúkaðu aldrei
breytni í orðum,
spottið fylgir
fordildinni
en ofurbúralegt
orðatiltæki
hæfir þó aldrei
hæversku fólki.

35.
Lofa ei miklu
en lát ei bregðast
það sem þú hefir
heitið eitt sinn.
Eftir þinn munn
skal aldrei finnast
ósannindi
né orðaskvaldur.

36.
Hvað á þig vinnur,
hvað þú tilhneigist,
hvörninn þú vilt
þína hagi tilsetja,
hvað þú elskar,
hvörju þú treystir
glósaðu ei
fyrir ganta hvörjum.

37.
Lofaðu aldrei
lesti annars.
Þögn er betri,
þó í máta.
Hræsni köllum vér
hvörs manns skækju
en þögn er sjaldan
á þing borin.

38.
Forðastu róg
sem fjandann sjálfan
og slá þér frá öllum
slaðurtungum.
Hjá villudýrum
vil eg búa
heldur en soddan
háska-öndum.

39.
Forvitni, grunsemd,
félag skrafinna,
laussinni, mælgi,
léttferðug skemmtan,
trúgirni, fals
og flokkadráttur
eru rætur þær
sem rógurinn vex af.

40.
Illum gef þú
eftirdæmi
af þér gott
en öngum hneyksli.
Þó skaltu eigi
þar til sigta
að heilagleik þínum
hæli aðrir.

41.
Einföld vertu
eins og dúfa,
höggorms þar hjá
hafðu slægðir.
Háll er mörgum
heimsins kviður.
Sæll er því hvör
sig soddan geymir.

42.
Stöðuglyndi
og stríð við holdið,
ef Guðs ótta
í þér fylgir,
muntu ei,
þó misjafnt falli,
sneipulega
sneiðing rata.

43.
Þegar þú fær
að þekkja heiminn
finna muntu
að fast er ekkert
uppá það
sem ætla megi.
Hann er eins
og hafið í logni.

44.
Treystu Guði
fyrst og framast.
Síðan skaltu
sjálf þig vara
og þó um öngan
illa meinir
eigðu ei mikið
undir neinum.

45.
Gott er að hafa
góðra manna
hylli og ástir
hvað sem gildir
en falaðu þá
með flensi aldrei
og haf ei von
á höfðingjunum.

46.
Góðum alltíð
gott til verður
þó að vondir
þrykki æru.
Því er bestur
þessi vegur,
að vanda sig
og vera stillinn.

46.
Þar fyrir
ef þig vill lokka
voldugur
til verka ljótra
kærleika hans
kaup þú aldrei
fyrir sóma
og samvisku þína.

47.
Vertu ei framfús
þar fyrirmenn sitja.
Hætt er fátækum
við höfðingja borðið.
Heyr ógjarna
hölda launmæli.
Þar er eigi kenndur
sem hann kemur eigi.

48.
Enn ef góðu
er að þér vikið
láttu þér
ei lengi streigja.
Hofmóðs kenna þau
herralæti
og færa með sér
forsmánina.

49.
Hátt skaltu fyrir þér
hugsa aldrei.
Nasir rak það
niður á sumum.
Sá á flatri
foldu liggur
hefir ekki
hvaðan hann detti.

50.
Heimskur maður
í hefðar sæti
asni er
með *eyru af gulli
en lágur sá,
af list forstendur,
garðinn sinn
mun gjöra frægan.

51.
Ef þú mikið
á þig lítur
máttu vita
þér vísan hnekkir.
Andvaraleysi
er upphaf fallsins
og hofmóður
hrösuninnar.

52.
Vertu ætíð
yfirmönnum
með auðmjúkri lotning
undirgefin,
þínum líkum
þæg, viðfellin,
aumum ástar
og góðvikin.

53.
Ekki sakar
þó óráðvöndum
sýnir á þér
sérgæði nokkuð.
So máttu forðast
selskap þeirra.
Betra er autt rúm
en illa skipað.

54.
Sér að lifa
sýnist mörgum
hentugt vera
og halda af því,
en vér köllum þann
allra bestan
sem öðrum jafnan
er þjónandi.

55.
Hirtu aldrei
hvað heimskir gambra
og virtu að öngu
vinskap þeirra.
Þar er líka
lof í falið
að geta misþóknast
manni vondum.

56.
Að hilma yfir
hinn ófróma
kærleik góðan
kalla margir.
Þetta áttu
þó að varast.
Akurmaðurinn
orminn vermdi.

57.
Vertu ei gefin
fyrir virðingunum,
sjálfar fylgja þær
siðgæðinu;
forðast oftlega
frekan biðil
en hænast að þeim
sem hirðir ei um þær.

58.
Eitt er líka
athugandi
að vera ei ofvandur
að virðingu sinni.
Háðvör grunsemi
hér af sprettur.
*Þessi er vön
að þiggja fréttir.

59.
Áttu því þetta
allt að varast
so grandvarlega
gangir í öllu.
Orðinn er blettur
á æði góðu
ef þú velkist
í vondum rógi.

60.
Líka er snertur
af losaæði
ónytjurölt
á aðra bæi.
Það sá eg aldrei
siðuga brúka.
Misjafnt skartar
margra gaman.

61.
Ef þér kann
til eyrna berast
að einhvör um þig
illa ræði
drep þú hans árás
með dagfarsprýði
en lát ekki víðar
við þig koma.

62.
Tak ei mjeg hart
á hrösun annars,
kannske þig viðlíkt
kunni að henda,
hlakka ei yfir
hans óförum.
Engi er betri
af annars falli.

63.
Eg sá þrennt ljótt
á ævi minni
og aldrei heyrði eg
af því raupað:
siðuga mey
í solli drengja,
konu drukkna
og kjöftugan yngling.

64.
Vitur er sá
sem víslega gengur.
So eru hyggindi
sem í hag koma.
Forsjálum dugir
*fyrri varinn
en heimskan svíkur
hinn síðari.

65.
Ef vandasamt eitthvað
viltu byrja
gef fyrst gætur
og grunda að því
*hvað það rentar
ef rétt fellur
og hvar við lenti
ef versta tækist.

66.
Ef sú vogunin
virðist meiri
en ávaxtar
er til vonin
held eg betra
heima setið.
Hægt er heilan vagn
til húss at draga.

67.
Hugsaðu um
hvað hyggnir segja
og hend það upp
sem hænan kornið.
Viturt orð
í tíma talað
dýrara er
en djásn af gulli.

68.
Milli svalls
og mikillrar nísku
mjór er sumum
meðalvegur.
Hvað sem fyrir
hönum víkur
hefir ætíð
illa gefist.

69.
Vel þér ekki
vini marga.
Þeir eru bestir
þá vel gengur.
Alla skaltu þó
elska af hjarta
og óvinskap
á engum hafa.

70.
Tem þér æ
frá ungdóminum
stöðuglyndi
með hreinum huga.
Vinskap þetta
vel mun geyma
en skjaldan eldast
skólabræður.

71.
Ofsa og reiði
áttu að forðast.
Orðsök er það
til yfirsjónar.
Á þeim voða
ætla eg margir
skaðlegt hafi
skipbrot liðið.

72.
Hugsa ei um
hentugt færi
til hefndar á
þínum hatursmanni.
Gjörðu hönum
gott í öllu
en aldrei illt
þó orka megir.

73.
Girnstu aldrei
það getur ei fengið;
það er að auka sér
órósemi.
Þér skal lynda
þitt hlutskipti.
Sá hefir nóg
sér nægja lætur.

74.
Hvör sem lætur sér
huginn fallast,
hann er farinn
í hvörju bangi
en þolinmæðin
þrautir allar
yfirvinnur
og aldrei bilar.

75.
Ekki hlýðir
ofsa-kæti
högum vorum
í heimi þessum.
Fífla hlátur
er fanta æði.
Sorg og gleði
sé í hófi.

76.
Hugsaðu þá
við hag þinn fellur
að hamingjan kunni
hnekkir rata.
Síður mun þá
sældin ginna
eða hryggðin
of mjög beygja.

77.
Ekkert er fast
í öllum heimi
utan dyggð
með djúpum rótum.
Vel hana því
en virð þú annað
eins og væri
það utan við þig.

78.
Þakka Guði
þá vel gengur,
eins líka
í andstreyminu.
Hann veit hvað
oss hagar betur
og elskar þá
hann agar barnið.

79.
Eitt veit eg heimsku
allra mesta,
og sá hana þó
til sumra manna,
að látast mikill
af láni annars.
Hvörjum er næst
það hann er sjálfur.

80.
Heimskir lofa
hoflátungar,
þykjast miklir
þá þeir státa,
en óhreinmennska
er artin svína.
Svei þá báðum
með sömu virðing.

81.
Eins skaltu vanda
æru þína
þó engi manna
að þér hyggi.
Aldrei fannst
það fólstu ekki.
Guð og samviskan
gætir að öllu.

82.
Ávirðing þína
ætíð játa
og bið þá forláts
sem braustu á móti.
Mörgum þykir þar
mikið fyrir.
Það er þó vegur
til viðréttingar.

83.
Láttu þér ei
líka miður
umvöndun
af ærlegum manni.
Högg hins vísa
hugnist betur
en léttferðugra
lof í eyrum.

84.
Trú og hlýðni
tvær eru systur
sem haga sér vel
í húsum öllum.
Ef þeim fylgja
iðni og ótti
muntu húsbændum
hugnast þínum.

85.
Hér að styðji
hönd og munnur
með æru og dyggð
í öllum stöðum.
Framdregur það
ef fátækt kefur.
Skín á gull
þó í skarni liggi.

86.
Það sem þú átt
til þarfa að læra
stundaðu vel
á ungu árum.
Æskan skapar
ævina mannsins.
Lengst býr kerið
að luktinni fyrstu.

87.
Sá er ónýtur
sem ekkert kunni.
Sá kann ekkert
er ekkert lærði.
Sá lærði aldrei
sem lék sér alltíð.
Það skal dýrt kaupa
sem kostar mikið.

88.
Fátækt og auður
falla misjafnt.
Metorð og vinsældir
víkja þar eftir,
en kostir þeir
sem komstu yfir,
fylgja þeir ætíð
þó fari annað.

89.
Haf þú ætíð
eitthvað að gjöra.
Illt lærum vér
með iðjuleysi.
Þá er Satan
með þönkum vondum
á allar síður
ástormandi.

90.
Innföll vond
ef að þér koma,
so sem kristna menn
kann að henda,
láttu þau aldrei
um sig búa.
Oft verður eldur
af einum neista.

91.
Þá skaltu stunda
þína kallan
og hafa þér
við huginn fastan,
biðja Guð
og brjóta heilann
hans í fögrum
helgidómi.

92.
Hérmeð er ekki
hæversk skemmtan
löstuð eða
leikur í hófi.
Það er betra
en þungt hugferði.
Af tvennu illu
skal taka hið minna.

93.
Það er miðpunktur,
upphaf og endir,
í öllu þessu
áður sögðu
að temja sínar
tilhneigingar.
Annars er dauðum
draumur sagður.

94.
Hugsaðu ætíð
um þinn dauða.
Ei bíða sumir
ellidaga.
Bústu daglega
við bana þínum,
og muntu so loksins
fara í friði.

95.
Að drauma-þvættingi
dárlegra manna
gæti aðrir,
en Guði treystu.
Hugsaðu þínir
hagir séu
í hans forsjón
allir saman.

96.
Vertu aldrei
so annt viðlátin
að þú bænina
undan fellir.
Sú skal mín
hin síðasta vera
áminning við þig,
elsku dóttir.

97.
Far þú á stað
í friði drottins,
ráðvönd fram
í rauna-heiminn.
Það sem brestur
á þessar reglur
upp bið eg finni
andi drottins.

98.
Það skal mínum
moldar-auka
æra og gleði
að þú gangir
á Guðs vegi
alla daga
og upprísir hrein
á efsta degi.

99.
Guð, sá sem
þig gjörði í fyrstu,
aftur keypti
og endurfæddi,
ávaxti þig
í öllu góðu
til heiðurs sínu
heilaga nafni

100.
so þú vaxir
að visku og árum,
Guðs vináttu
og góðra manna,
og so blífir
alla daga
ker til heiðurs
í húsi drottins.

101.
Hann, sem hefir
mitt hæli verið
mildilega
frá móður knjánum
og leikið við mig
sem ljúfur faðir,
taki við þig
tryggða fóstur,

102.
varni slysum,
verndi og hlífi,
ráð á leggi
og raunum bæti,
styrki vel
í stríði öllu
og sendi hjálp
í hentugan tíma.

103.
Og þá loksins
ertu komin
að takmarki
ára þinna
líknsamur
þig láti finna
hóp útvaldra
í himnaríki.

104.
Allra drottins
barna bænir
eitt í amen
yfir þig falli
í frægu nafni
föður og sonar,
hér með líka
heilags anda.

105.
Nú hef eg vandað
þér vöggukvæði
en skil það á þig
í skemmtunarlaunum
að það geymir
ef gefst þér aldur
hvört eg er lífs
eða lík í moldu.

Amen.


Athugagreinar

Jón Jónsson sýslumaður í Rangárvallasýslu sendi Jóni Eiríkssyni handritið sem hann lét prenta bókina eftir og þegar Jón sá ljóðin rifjuðust þau upp fyrir honum og kunni hann sumt af þeim utan að. Á örfáum stöðum mundi hann ljóðlínur öðruvísi en í handriti stóð og lét hann prenta þær eins og hann kunni þær en gat þess neðanmáls hvernig þær eru í handritinu. Hér er fylgt prentun Jóns en hér fyrir neðan getið lesbrigða samkvæmt handriti eins og í útgáfunni:
50.4 eyru af gulli] eyrna-gulli.
58.7 Þessi er vön] Þess er von.
64.6 fyrri varinn] fyrrirvarinn.
65.5 hvað það rentar] hvört.