Reyniviðurinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Reyniviðurinn

Fyrsta ljóðlína:Í Eyjafirði aldinn stendur reynir
bls.428
Bragarháttur:Tersína (þríhenda)
Viðm.ártal:≈ 1875

Skýringar

Svo segir í Ljóðmælum Gísla:

Reyniviður sá, sem saga þessi er sögð um, stendur enn í Möðrufellshrauni fram í Eyjafirði. Hann er roðinn afargamall og feyskinn mjög og liggur nú við falli, en margar hríslur hafa verið teknar af honum og gróðursettar á ýmsum stöðum, t.a.m. á Akureyri, og eru þær nú orðnar að stórum trjám. Það er enn mál manna að Jón byskup Arason hafi oft í æsku sinni setið undir honum, þegar hann var að smala fé á Grýtu.
I.
Í Eyjafirði aldinn stendur reynir
í auðri kleif, í löngum fjalladal,
þar sem að bruna bunulækir hreinir

um bjarta grund úr dimmum hamra sal,
þar sem að autt er allt og naktir klettar
og aldrei heyrist neinna manna tal;

en ef að vindur hreyfi hríslur þéttar,
þá heyra menn sem væri barna kvein,
og ef af reyni dökkgræn blöðin detta

á dreyrrauðan við viðjarfótinn stein,
þá hættir kvein og kyr þá blöðin lafa,
þó hvíni vindur enn í laufi á grein;

því skylduboði og skuld þau fullnægt hafa.

II.
Á Ísalandi er það gömul saga,
en aðrir dæmi, hvort hún muni sönn,
að eitt sinn hafi út í grænum haga,

þá engin lengur sást á grundu fönn,
sér unað tvö og ástarrómi hjalað,
hin unga mær, sem birkihrísla grönn

sig beygir upp að björk, svo fái svalað
und blöðum hennar laufi, er skrældi sól,
sig ástrík beygði, er þau höfðu talað

um eina stund, að brjósti manns og fól
við barm hans höfuð, björtu lokka safni 
hún byrgði roða þann á kinnum ól

sú ástafeimni, engu sem að nafni
má öðrum lýsa. Svo hún undi þá –
en unglingurinn, Akillesar jafni,

í augun mændi þýð og himinblá
og vafði um meyna vænum örmum sínum –
vísir himna einn þau bæði sá.

Þá komstu, húm, með helgum blíðleik þínum,
er hjartna veikra margoft ólgu leit,
og sviptir þeim – það svíðr í huga mínum –

úr sakleysisins faðmi á harma reit;
því eins og óvit yfir hugann svífi
ástalöngun kviknaði í brjósi heit

og beygjandi sig barminn meyjar yfir
brennandi kossi hann þrýsti á heita vör,
sem titraði, því tilfinningin lifir

þar tveggja sálna mætist ásta fjör.
Þeim heimur hvarf, er hugir saman runnu,
þau heldur fundu ei þá bana ör,

sem ásta kossar, er á vörum brunnu,
ýttu svo djúpt að hjartarótum þeim.
Horfnir svo voru hinstir geislar sunnu,

húm og dimma ríkti í auðum geim –
þau vöknuðu – eg vildi eg mætti þegja!
því verr ei nokkur vaknaði í heim –

þau voru systkin – því skal meira segja?
þöglar stjörnur hurfu af himinlind;
þeim báðum hefði betra verið að deyja

í blundinum, en drýgja slíka synd
og vakin dauðadóm í vindi að heyra;
döpur starði hin voðalega mynd

og hel þeim mót úr húmi stokkin dreyra,
hrakti þau um dimma sorgar leið,
svo munaðarlaus þau máttu hvergi eira,

myrkrað varð þeim bjartast æsku skeið;
sakleysisblómið bliknað var hið staka,
það blómgast ei þar syndin yfir leið,

einmana í heim þau urðu sí að vaka,
því ógnir sviptu þeim af hverjum blund.
Eins og hrísla, er úti vindar skaka,

þau ung og fögur hnigu svo að grund,
að aldrei, aldrei aftur fengu að líta
yndis dag frá hinni döpru stund,

þá höggormur þeim hjörtu tók að slíta –
hann hafði læðst í brjósti áður kyrrt;
sem Adam fyrr þau urðu því að sýta;

úr Edens garði rak þau syndin burt.
En hví skal lengur harmasögu draga?
– í heimi fádæmi er goldið hvert –

á höggstokk entu harma mesta daga,
haugur var í kletta þröngum gjör,
þeim vanhelg féllu fyrir sverði laga.

En þið, sem aldrei beitta banaör
funduð með kvöl við hjarta yðar hnita,
svo heimi dæið meða lifði fjör!

dæmið þau ei, þó bjarta blómið hvíta
þau bliknað sæi hníga að grundu dautt
og aldrei gróa aftur mætti líta –

því ei var lífið þeirra tómt og autt:
skærast um stund þeim lýsti blysið bjarta,
sem blika engum meður hjarta snautt –

dæmið þau ei, því syndin þeirra svarta
var synd af ást, er flestum vinnur á
og ákafast hrífur ætíð fagurt hjarta

svo eigi lengur sér það ráða má.
En harmið þau, því heimi synd er goldin,
hegningu veröld aldrei meiri sá.

Nú bleik sér geymir bein í skauti moldi,
og blóm á leiði þó ei grói nein,
hefur samt aumkað harma þeirra foldin,

því hrísla spratt á lágu dysi ein,
dimmleitur reynir dökkum limum meður,
dreyrroðin eru blöð á hverri grein.

Hann yfir leiði enn þá dapur kveður
um undur slík og mun því hætta seint,
á meðan þjóta þung um tinda veður.

Þeir sem að hafa margt um ævi reynt
finna og vel, hvað felur hinn dapri staður,
þó fái ei skilið það, sem er öllum leynt,

því „Urðar orði kveður engi maður“.

III.
Þið sem að hafið hlýtt á sögu mína
og helgað nokkur meðaumkunar tár
forlögum þeirra, er farsæld misstu sína

og fengu um ævi dýpstu hjarta sár:
ó, gráti þið við gröf, er reynir hylur!
í gröf þau hafa legið mörg um ár –

enginn stunur enn þá reynis skilur
og enginn þýða laufa rúnir má,
því ásta harmur er svo djúpur hylur

að aldrei maður neinn í botninn sá.
Ó, ást, þú hefur ungum bakað dauða
og ótal hrukkum þrýst á fagra brá,

svo nú þau hvílast hvít und stein’num rauða,
en hvarfla hugir þó um lága gröf
og líða saman loftið gegnum auða,

sem lifðu enn við fyrstu ásta gjöf.
Farið vel, andar fögru, um aldurdaga
eg fæ ei gleymt af yðar ævitöf

því, er mér sagði þessi harma saga.