Rímur af Flóres og Leó – önnur ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Flóres og Leó 2

Rímur af Flóres og Leó – önnur ríma

RÍMUR AF FLÓRES OG LEÓ
Fyrsta ljóðlína:Göfug ef að gæfi til hljóð
bls.31–43
Bragarháttur:Samhent eða samhenda (alhent, ferstikla, stikla)
Viðm.ártal:≈ 1625
Flokkur:Rímur
Önnur ríma
 
1 Göfug ef að gœfi til hljóð
gumna sveit og voldug þjóð,
önnur skylda eg lítil ljóð
leiða fram af mærðar sjóð.

 
2 Heimskan fœr mitt hugvit birt,
hvað mun eg geta kvœðin yrkt?
Langtum betra er ljóst og stirt
lýð að skilja en mjúkt og myrkt.

 
3 Elsku bróðir, vara þig við
vonskufullum hrekkja sið,
heimurinn margra heftir frið,
hœttlegt býr til kvalanna rið.

 
4 Púkans svik og geðið grátt
gengur í kringum hvörja átt,
ekki er með honum flœrða fátt
að freista vor á ýmsan hátt.

 
5 Því meir tekur að ólmast œr,
sem enda heims er komið nœr,
allvíða því framgang fær,
fjölda manns í kvalirnar slœr.


6 Á því mannsins liggur líf
að lœra við hann að ganga í kíf,
guðs orðs taktu hjálm og hlíf,
hans burt eldleg skeyti dríf.

 
7 Evangelium á þinn fót,
andans sverð, sú best er bót,
hjálprœðis taktu hjálm og spjót,
honum so búinn gakk þú mót.

 
8 Brynju réttlætis ber þér á,
belti sannleiks líka ná,
trúarskjöld hafðu höndum hjá,
hans með burtu skeytin slá.

 
9 Ef þú þessar örvar hér
í eymdardal á veginum ber
þá mun díkis djöfla her
dáðlaus aldrei granda þér.

 
10 Sœti faðir svipt oss pín,
sœlu gef þá aldur dvín,
kenndu í brjósti um börnin þín,
bœnin komi sú fyrir þig mín.

 
11 Meira að auka mansöngs vín,
mikla eykur hugarins pín,
veit eg sagan vœntir mín,
vill hún að eg komi til sín.

 
12 Fyrri ríman féll nú þar
fönguð kvinnan sorgir bar,
óreyndur og illa snar
afhöfðaður þénarinn var.

13 Ræsir gengur ranni frá
ráðsins til og spurði þá:
„Hvað skal gjöra við hringa Ná
og hennar ungu börnin smá?
 
14 Í sæng hjá drottning sjálfur fann
sofandi einn liggja mann,
og eg deyddi þénara þann,
þó ei talaði neitt við hann.
 
15 Upp á mína æru og trú
eg vil við hana skilja nú,
beiðist dóms þér brennið þrjú,
börnin tvö og þessa frú.“
 
16 Hvör til annars horfði beint,
herrar með sér töluðu leynt:
„Þú hefur ekki þénarann reynt,
það ætla eg vér dæmum seint.“
 
17 Einn af þeim gaf öðling svar,
alkunnugur sá drottning var:
„Aldrei vissi eg af því par
ótrúleik hún með sér bar.
 
18 Af fláttskap og flærðum er
frúnni gjört, það virðist mér,
einninn kemur hún ekki hér,
órannsakað málið er.
 
19 Ekki gef eg úrskurð þann,
elsku herra“, sagði hann,
„ef með sannleik enginn mann
á hana þetta vitna kann.“

20 Annar gaf honum andsvör greið:
„Ógurleg þetta þyki mér neyð,
þér haldið ei yðar háan eið,
sem henni var lofað um æskuskeið.
 
21 Þegar til ekta fekkstu frú,
foreldrum hennar lofaðir þú
ljúfri þessari lauka brú
sem lífi þínu unna nú.
 
22 Á meðan það ekki vitnast víst,
vífið, herra, dæmum síst,
hef eg á grun og helst mér líst,
henni flærð á móti brýst.“
 
23 Á eina leið so allt gaf svar
öðlings ráð í staðnum þar,
ei fékk keisarinn að gjört par,
ódæmt þanninn málið var.
 
24 En hin gamla auðnusnauð,
oft hefur þá við keisarann nauð,
börn og kvinnu í báli rauð
brenna skuli til ösku dauð.
 
25 Þessa gjörir nú fregn að fá
fangin þar sem kvinnan lá,
göfug kallar guð sinn á,
grátin kyssti börnin smá.
 
26 „Sjá þú mig fyrir soninn þinn“,
sagði frú með grátna kinn,
„himnaríkis herrann minn,
hörmum mínum bót á vinn.“

27 En þrem dögum eftir það,
allt sitt ráð nú keisarinn bað
að dæma frú til dauða í stað
og dvelja ei lengur þessu að.
 
28 En sem fyrr þeir ansa nú:
„Ekki munum vér dæma frú,
aldrei rauf hún yður trú,
eiðinn er best að haldir þú.
 
29 Viljum látið víf með frið,
vildara ráðs ei þarftu við,
er henni slíkt með illsku snið
ógott bruggað flærðar mið.
 
30 Best er að fæða upp börnin smá,
so bera megi sér merki á.
Óefað munu allir sjá,
yður hvort að líkjast þá.“
 
31 En sem heyrði úrskurð þann,
er allt hans ráð mót honum fann,
um öðlings hjartað elskan rann,
en aldrei þénara gleymdi hann.
 
32 Keisarinn talar við kerling nú:
„Kátlega gjörir mér harma þú,
öngvan dóm vill yfir frú
allt mitt ráðið segja af trú.
 
33 Ætla þeir fyrir svika seið
sætu komna í slíka neyð,
þín vil eg ráðin þiggja greið.“
Þessu af varð kerling reið.

34 Til ráðsins hleypur refla Lín
rétt sem annað villisvín,
upp yfir fólkið allt nú hrín,
ekki var þá kerling frýn:
 
35 „Eiðrofar með illri lund,
þér aktið ei keisarann meira en hund,
honum aukið harma und,
heljar til ei dæmið sprund.
 
36 Þér viljið bæði börn ótrú
bölvuð skuli uppfæða nú,
gjöra af hóru göfuga frú,
guði á móti er breytni sú.“
 
37 Ríkis hugðu ráðin skær,
hún rétt mundi með öllu ær,
þorði enginn þegn frábær
þorngrund mót sig setja nær.
 
38 Hafði ekki harmamóð
hjjálp jarðneska keisarans fljóð,
en hin gamla ær og óð
var ólm og þyrst í saklaust blóð.
 
39 Fljóðið svarar: „Fylg þú mér,
sem fyrst hana láttu brenna hér,
aðra frú til ekta þér
aftur tak, so meinið þver.“
 
40 Öðling fyrir þann illsku hljóm
eld lét kveikja í staðnum Róm,
en þó fengi öngvan dóm
átti að brennast kvinnan fróm.

41 Þrjátíu keisarans þénarar nú
þorna fóru að sækja brú,
bæði tóku börn og frú,
bálinu öll að höfðu þrjú.
 
42 En sem drottning eldinn sér,
auðgrund þá við þénara tér:
„Sannleik munu þið segja mér,
saklausa því leiðið hér?“
 
43 Þénarar ansa því hún biðr:
„Þorum vér ekki að dvelja viðr,
keisarinn býður í báli yðr
brenna nú, sem lítt er siðr.
 
44 Um kórónu lífsins, kæra frú,
kónginn dýrðar biðjið nú,
því vér sórum, það er vor trú,
þessa ei lengur bera muntú.“
 
45 Við keisarann hrædd var kvinnan þá,
kunni slíkt að heyra og sjá,
andvarpar með ærna þrá
upp til guðs í himininn há:
 
46 „Dýrstur“, segir hún, „drottinn hér
af dauðans ógnum bjarga mér,
voldugur þinn það vilji er,
víst bið eg ei þess móti þér.
 
47 Þar sem lifandi ljósið skín,
ef líða verð eg dauðans pín,
settu upp á sálu mín
sigurkórónu dýrðar þín.“

48 Komu þeir fram með kvinnu og jóð,
keisarinn þar við eldinn stóð,
sárt aumkaði sorgfullt fljóð
sæmdar herrans ráðin góð.
 
49 Hilmir bauð með höstugt ráð
henni kasta í eldsins gráð,
kvinnan niður kraup á láð,
keisarann beiddi um hjálp og náð.
 
50 „Hjartans kæri herrann mætr“,
hún nú talar og sáran grætr,
„sannleiknum nú gefið að gætr,
guð er réttvís, dýrðar sætr.
 
51 Á eg nú, þitt ektaker,
ósek fara í bálið hér?
Í eiði lofaðir áður mér
að unna rétt sem sjálfum þér.
 
52 Sæti herra, sannleik finn“,
segir hún, „haltu trúnaðinn,
hef eg ei flekkað hjúskap þinn,
hvar til guð sé vottur minn.
 
53 Einhvör hér mig hatar ríkt,
hef eg þar fyrir meinið slíkt,
því verður ekki málið mýkt,
mér er þetta af flærðum drýgt.
 
54 Þvi skal líða þolinmóð
þennan deyð“, kvað grátið fljóð,
„út af hjartans innstum sjóð
allri gefa til heimsins þjóð.

55 Gjörði þetta guð og mann,
þá gálga krossins saklaus fann,
og blóðið niður af benjum rann,
bað fyrir þeim, sem píndu hann.
 
56 Börnin, herra, bið eg þig
að brenna ei, þó kveljir mig,
það er neyðin þrefaldlig
ef þau fá saklaus dauðans stig.
 
57 Bæði eru þau blóðið þitt,
bundin saman við lífið mitt,
veit eg þó fyrir vélanna kvitt
varla er þeim um ríkið fritt.“
 
58 En sem ræðu endar fljóð,
allir grétu af sárum móð,
einkanlega hin auma þjóð
er ölmusu gaf kvinnan góð.
 
59 Harmþrunginn nú herrann sá,
hún var viljug dauðann á,
kenndi í brjóst um bauga Ná,
börnin líka aumkar smá.
 
60 Mikil elska mýkir hans geð,
miskunnsemi var keisara léð,
sér grunaði sjálfum með
sætu mundi órétt skeð.
 
61 Ærðist upp hin gamla gríðr:
„Gjör ei dvelja, son minn fríðr,
skipaðu henni, buðlung blíðr,
á bálið skuli kasta lýðr.“

62 Keisarinn ansar auðar brú:
„Eg hef lofað drottning trú
og hlýt það að efna nú,
ekki skal því brenna frú.“
 
63 Dögling þá við drottning tér:
„Við Díonisíum eg það sver,
þú brennd skalt ekki á báli hér
né börnin þau þú eignar mér.
 
64 Minn fyrir eið sú miskunn skín,
mátt ei hreppa dauðans pín,
en með báðum börnum þín
burtu skalt úr ríkjum mín.
 
65 Ef hér við þig verður vart,
vil eg brennir furðu snart,
af auðæfum mínum í þinn part
ekki færðu góssið margt.“
 
66 „Veglegi herra“, vífið tér,
„vera so hlýtur, bón mín er,
að þú fáir mætan mér
mann til fylgdar, hvar sem fer.
 
67 Illir hafa á mig sett
yður við þennan flærðar prett,
ókrenkt hjúskaps er mín stétt,
einn guð veit eg tala það rétt.
 
68 Sjáðu nú til“, kvað sorgar fljóð,
„so mér veitist fylgdin góð,
víst so ei á veganna slóð
sé vondri burt af svikin þjóð.“

69 Keisarinn veik frá vífi hljóðr,
varla gat talað hryggur og rjóðr,
upptendraðist elsku sjóðr,
á beit hjartað sorgar móðr.
 
70 Frúr og karla fljóðið kveðr,
fátæka og ríka meðr,
um alla borgina angrið skeðr,
ákaft þetta kerling gleðr.
 
71 öðlings frú með ærna þraut
í óvit sorgar falla hlaut,
vífin dreyptu á veiga laut
og vundu með henni hvarma skaut.
 
72 Bjóst á stað með börnin ung,
brúðar var þá hyggjan þung,
hest fékk frúin harma þrung
og hundrað krónur í sinn pung.
 
73 Fimm voru riddarar fengnir frú,
fylkir urðu að sverja trú,
í eyðiskóg einn auðar brú
að þeir skyldu láta nú.
 
74 Skógur í burtu skammt er þar,
skaðsöm dýr og morðingjar
innan um hann allan var,
apynjur og flugdrekar.
 
75 Þangað riddarar fluttu fljóð,
frúin reiddi börnin góð,
dapran bar þá drottning móð,
dundi af augum táraflóð.

76 „Herra mínum heilsi þér“,
harmþrungin so brúðurin tér,
„segið eg beri þau börn með mér,
sem blóðið hans og holdið er.
 
77 Einn guð veit, hvort eg mun fá
minn ástar herra, keisarann, sjá,
bið eg mig og börnin smá
bevari drottinn háska frá.
 
78 Koma mun þar að keisarinn sér“,
kvinnan so við riddara tér,
„hvörsu hans hefur móðir mér
margfalt bruggað heiftar ker.“
 
79 Kvinnan skildi kappa við,
kveður og þakkar fylgdarlið,
höfðu riddarar harma klið,
hún brá ekki frómum sið.
 
80 Veit nú ekki veglegt sprund,
hvört víkja skal með hryggva lund.
Láta verð eg Fjölnirs fund
falla niður um eina stund.