Rímur af Oddi sterka – Sjöunda ríma – Dómadagsríma Odds sterka | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Oddi sterka 7

Rímur af Oddi sterka – Sjöunda ríma – Dómadagsríma Odds sterka

RÍMUR AF ODDI STERKA
Fyrsta ljóðlína:Eitthvert mesta yndið var
bls.181–184
Bragarháttur:Samhent – hringhent (hagkveðlingaháttur)
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1932
Flokkur:Rímur
Sjöunda ríma
Dómadagsríma Odds sterka

1.
Eitthvert mesta yndið var
eftir lestaferðirnar,
þegar gest að garði bar,
góðum hesti áði þar.
2.
Hversdagsfasi bóndi brá,
basl og asi gleymdist þá,
ætti í vasa vinur sá
víndögg glasi fögru á.
3.
Höndin titrar, brosa brár,
barnsleg glitra í augum tár,
gleðin vitrast, skín við skjár,
skemmukytran salur hár.
4.
Öls við teiti söngur svall.
Sólskinsleitur kotajarl
gjarn að veita gekk í hjall,
gróf upp feitan skyrhákarl.
5.
Karlinn ungur aftur var,
áraþungann fislétt bar.
Um afrek sungu æskunnar
englatungum minningar.

*

6.
Æskan göfug hauður, höf
heims af jöfur fékk að gjöf.
Ellin höfug heimtar töf,
hrökklast öfug niður í gröf.
7.
Æskan hnellin, hraust og fröm
heldur velli, framsókn töm.
Hopar elli íhaldssöm
uns hún féll af heljarþröm.
8.
Elli sótti allt sitt lið,
illt og ljótt, á heljar svið.
Tregðan, óttinn, íhaldið
æskuþróttinn berjast við.
9.
Öldurót og orrahríð
er til bóta hverri tíð.
Ellin ljót og æskan fríð
eiga hljóta þrotlaust stríð.
10.
Sein í vöfum svæflum á
sefur höfug frelsisþrá.
Gengur öfug auðstétt flá
eftir djöfuls stefnuskrá.
11.
Snauður, þjáður bað um brauð,
brauði ráða hróðug gauð,
gauð sem dáðu aðeins auð,
auð sem smáði þjóðar nauð.
12.
Byltir þjóð í svefni sér,
sem á glóðum valdstjórn er,
ógnahljóð að eyrum ber,
eldi og blóði rigna fer.
13.
Leysist öfl sem auðnan gaf,
eisa djöfla færi í kaf,
hreysi göflum gangi af,
geisi í sköflum þjóðar haf.
14.
Brotni í himin boðaföll,
belji svimhátt yfir fjöll.
Fangakima, kirkju, höll
kurli brim og jafni um völl.
15.
Eilífstæð og öllum vís
yfir gæði mannheims nýs
sól, sem bræðir allan ís,
úr þeim græði síðan rís.

*

16.
Kveð ég hátt uns dagur dvín
dýran hátt við baugalín.
Venus hátt í vestri skín.
Við skulum hátta elskan mín.