Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu 4

Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu – Fjórða ríma

RÍMUR AF LYKLA-PÉTRI OG MAGELÓNU
Fyrsta ljóðlína:Galars fley fyrir gullhlaðs ey
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Rímur

Skýringar

Fjórða ríma
Skáhent
1.
Galars fley fyrir gullhlaðs ey
gjörði eg þrisvar banga,
fjórða eitt mun furðu greitt
Fals úr nausti ganga.

2.
Eddu rök og orðin spök
ágœt skáldin kunna,
hyggjan hrein í hvörri grein
hitti á visku brunna.

3.
Heyrði eg títt að fólkið frítt
flest um Eddu rœddi,
fróðleiks mennt og málið hent
mér í augum blœddi.

4.
Meinta eg þá ef mætti sjá
mála farminn dýra,
mjúkan óð um menja slóð
mundi eg kunna að skýra.

5.
So til bar, og vel það var,
vífunum satt eg inni,
bragarins tól fyrir brúna sól
bar mér einu sinni.

6.
Ljóst þá sá og leit eg á
letrið fornra spjalla,
þar á mót komu skiptin skjót,
skildi eg orðin varla.

7.
Heimskari þá eg fór þar frá,
feilaði sérhvör glósa,
engu nœr, því að mér hlær
orða snilld að hrósa.

8.
Virða dygg má falda Frigg
Fjölnis rosta þenna,
þeir fá laun fyrir Berlings baun,
sem bragina vanda kenna.

9.
Mig vantar mennt, sem vel er hent,
viljann má eg þó sýna,
hringa Rist ef hefur á lyst
að heyra böguna mína.

10.
Geymda eg fyr í gríðar byr
Gillings bana virði,
Njörva jóð um jafna slóð
jökla sprundið byrgði.

11.
Sofna réð sú sæmd var léð
seljan Fofnis binga.
Darra Þund um dimmustund
dreymdi Nönnu hringa.

12.
Yggjar fund af hringa Hrund
hætta skal um tíma.
Sónar lá að segja frá
svipti öldu bríma.

13.
Vopna rjóður vænn og góðr
vafinn ástar bandi
sorgar far með sútum bar
í Sviðrix hauka landi.

14.
Í kirkjuhús réð kappinn fús
kurteis enn að ganga,
fann þar dyggur örva Yggr
aldraða þöllu spanga.

15.
Refla Gná þá riddarann sá
reika í helgu porti,
kvaddi þann hinn kaska mann,
kærleik ekki skorti.

16.
Mælti sprund við þorna Þund
þar með ræðu slíka:
„Heilsaði þér sú hefðir ber,
hilmirs dóttir ríka.

17.
Gullsins hring hið góða þing
glöð réð yður þakka,
gáfan sú sem greini eg nú
geðjaðist lindi stakka.“

18.
Visku tamur sómasamr
sveigir gylltra branda,
ansaði ljóst með öngvan þjóst
eikinni greipar sanda.

19.
„Hringinn þann“, kvað mektar mann,
„minnstan skenk eg kenni,
þetta gaf eg þussa skraf
þér en ekki henni.

20.
Satt skal tjá og segja frá,
seljan elda Rínar,
máls um bug það hef eg í hug
að hætta á dyggðir þínar.

21.
So er mitt geð og sinni með
sárum trega bundið
hrings fyrir Vör, þá ástar ör
eg hef mesta fundið.

22.
Hennar frægð og fremda nægð,
fest með siðum góðum,
hefur mig spennt og hjartað brennt
heitum ástar glóðum.

23.
Hér til bið eg mér leggja lið
lindi grábaks heiða,
málin slík fyrir menja brík
minna vegna greiða.“

24.
„Heyri eg það“, að hýrleg kvað
hlökkin orma torga,
„að ei mun rétt með öllu létt
efni þinna sorga.

25.
Hringa láð með heiður og dáð
hef eg trúnað svarið.
Hvörninn er, það inntu mér,
elsku þinni varið?

26.
Ef býtir hjalls vill bryggju tjalds
í bráðum kærleik unna,
þarftu ei við þýða mey
þann veg framar nunna.“

27.
Hjörva Þór með sannleik sór
sínu geði fjærri
á þá grein að auka mein
öðlings dóttur kærri.

28.
„Heldur er í huga mér“,
kvað halurinn stála prúði,
með ærusemd fyrir utan skemmd
að unna hringa Þrúði.“

29.
„Ef með tryggð og ærudyggð
elskar hringa línu,
fyrir hvörja sök þá hefur til rök
heiti að leyna þínu?“

30.
„Hét eg því um hyggju bý“,
halurinn nam so greina,
„njóta seims í nálægð heims
nafni mínu að leyna.

31.
Mætta eg hljótt fyrir mildings drótt
við meyju sjálfur ræða,
um nafnið mitt og hér með hitt
hana skyldi eg fræða.“

32.
„Vel má það“, so vífið kvað,
„veitast brjóti sverða,
trúan eið af *tjörgu meið
taka mun eg þó verða.“

33.
Játaði strax sá stýri lags,
er stýfði rönd í hildi,
eiðinn vann með öllu hann
eins og kvinnan vildi.

34.
Grams son tók, sá gleðina jók,
gullhring einn að bragði,
henni fékk, sem honum var þekk,
hýrugjarn og sagði:

35.
„Bið eg nú fljóð að buðlungs jóð
bauginn færa vilji.“
Þegar já kvað þorna Ná.
Þanninn frá eg þau skilji.

36.
Hrundin þekk til hallar gekk
og hitti svannann rjóða,
gladdist þá hún svinna sá
selju ægis glóða.

37.
Heilsun bar sú hinni þar,
sem hafði aldurinn þyngri,
grams frá nið, en gladdist við
guðvefs þöllin yngri.

38.
„Plátu grér sá prúður er,
prýðir spekt og æra,
fingurgull fyrir álma Ull
á eg þér að færa.

39.
Elskar þig sá ilja stig
Urnis kljúfa mundi,
því vill traustur tiginn og hraustur
tala við silki Hrundi.

40.
Þetta nú ef þýðri frú
þóknast honum veita,
vil eg þá“, segir vella Ná,
„við þar gjarnan leita.“

41.
Meyjan kvað: „Mér kært er það,
ef kanntu slíku valda,
so megi eg tal við tiginn hal
í tíma réttan halda.“

42.
Annars dags þar eftir strax
eikin nöðru spanga
bænafús í heilagt hús
harla skjótt nam ganga.

43.
Riddarinn snar sá randir skar
reikaði eftir vanda,
seima Ná, er segi eg frá,
séð gat hirðir branda.

44.
Greinir bók til bæna tók
bríkin kvenmanns skarta,
stutta stund með ljúfri lund
las hún *fátt af hjarta.

45.
Síðan gekk að sæmdar rekk
svinn og þanninn tjáði:
„Hrannar báls þér, hlynur stáls,
heilsa þöllin náði.“

46.
Blítt því tók sá brandinn skók,
brjótur *skjöldsins græna:
„Hvar er að finna, hrundin svinn,
hilmirs dóttur væna?“

47.
„Silkirein nú situr ein,
sorgir öngvar krenkja,
oftast nær gjörir ágæt mær
um elskhuga sinn að þenkja.

48.
Málma grér þeim menntir ber
má eg hið sanna ræða,
ágæt snót af innstri rót
elskar Þundinn klæða.

49.
Á morgundag með hefðar hag“,
hringa sól nam inna,
„máttu víst, það meina eg síst,
meyjuna sjálfur finna.

50.
Þú mátt sjá að segi eg frá
satt í öllum greinum,
lítið port og laundyr vort
á laukagarði einum.

51.
Gakk þar inn“, kvað gullskorð svinn,
„geymir Fofnis beðja.“
Létti tal með hrund og hal,
hvört nam annað kveðja.

52.
Annars dags nam unda lax
Ullur fljótt að ganga,
dyrum að sem drósin bað,
til dyggrar *lindi spanga.

53.
Hann komst í sal þar vífa val
vitug sitja náði,
gladdist þá er grams son sá
glæstan linna sáði.

54.
Í göfugan sess og getið er þess
geymir setti hún klæða,
siðugt sprund við sverða lund
síðan gjörði ræða:

55.
„Þó dirfskan sú sé dárleg nú,
darra viðurinn svinni,
tvinna rein með tryggða grein
treysti eg manndyggð þinni.

56.
Bið eg dyggur branda Yggur“,
blóminn talaði fljóða,
„heiðurinn þinn og hefðin svinn
haldi mér til góða.

57.
Bón mín er að bauga grér
birti oss hið sanna
um nafn og ætt, því nú er ei hætt
við návist fleiri manna.

58.
Gangi í vil“, segir gullhlaðs Bil,
„Gefni valdra þrauta,
ef so er sem álíst mér.“
Ansaði hirðir skrauta:

59.
„Ætt og nafn sem erinda safn
yður skal greint með sanni,
þó er bæn að brúðurin væn
birti það öngvum manni.

60.
Pella þöll með prýði snjöll
Pétur má mig kalla,
greifa son með giftu von
geymir frænings palla.

61.
Próvinsland með bitrum brand
buðlung gjörir verja,
faðir minn er sá frægðir ber
fleygir linna skerja.

62.
Móðir mín að menntum fín
mest fær lof að þiggja,
svinn og rjóð er sætan fróð
systir Frakka tiggja.

63.
Mér kom fregn“, segir mætur þegn,
„menja um bjarta Hildi,
hingað reið því rétta leið,
reyna sannleik vildi.

64.
Ofsögum sagt af yðar makt
aldrei trú eg verði.
Nú er í hug um blíðu bug
að biðja mér hringa Gerði.

65.
Vilji nú hin væna frú
við mig tryggðir festa,
gengi mér að hendi hér
með heiðri lukkan besta.“

66.
Svinn var snót til svara fljót,
sáru létti kífi:
„Eigðu vald með erlegt hald
yfir mínu lífi.

67.
Okkar best skal ástin fest
með yndis bandi hreinu,
hjartað mitt og hugboð þitt
hylli bæði að einu.

68.
Í ótta *guðs skal álma Ulls
elsku bundið sæði,
fyrir utan flekk“, segir auðar Hlökk,
„unnast megum við bæði.“

69.
Tvinna grund við *tjörgu lund
trúlofun hafði setta.
Keðju gulls til álma Ulls
eina gjörði að rétta.

70.
Sverða Týr í sinni hýr
sorgir öngvar krenkti,
einn gullhring so ágætt þing
aftur henni skenkti.

71.
Skildu senn að skrafinu enn,
skiptist ást fyrir báðum,
héldu tryggð með hreinni dyggð
heiðri prýdd og dáðum.

72.
Enginn mann það merkja kann
að meyjunni herrann unni,
hugarins stig so hvort fyrir sig
í hófi stilla kunni.

73.
Eftir það, so óðurinn kvað,
auðugur stýrir landa
burtreið senn lét semja enn
siðuga hlyni branda.

74.
Lykla merkur stýrir sterkur
strax á völlinn hleypti,
hertogum sex, því heiðurinn vex,
hann til jarðar steypti.

75.
Sigur bar af seggjum þar,
sæmdum margra hnekkti,
hjörva bör þann dúði dör
drengja enginn þekkti.

76.
Hélt þá sveit frá höllu teit
heim til sinna landa.
Suðra far við Sónar mar
so mun eg láta standa.