Rímur af Lykla Pétri og Magelónu – Þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu 3

Rímur af Lykla Pétri og Magelónu – Þriðja ríma

RÍMUR AF LYKLA-PÉTRI OG MAGELÓNU
Fyrsta ljóðlína:Brotnaði tvisvar Frosta far í flœða inni
bls.166–173
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Rímur

Skýringar

Þriðja ríma
Braghenda
1.
Brotnaði tvisvar Frosta far í flœða inni,
bágt mun veita bernsku minni
að banga hann saman í þriðja sinni.

2.
Hagleiks mönnum heyri eg marga hrósa lýði,
efnið skapar erfiðis prýði,
af öngvu trú eg fœstir smíði.

3.
So hafa skáldin sögurnar margar samið í ljóðum,
oftast nœr af orrustuþjóðum,
allmjög hrósa köppum góðum.

4.
Hölda sveitin hlýðir því og heldur mœti,
síður trú eg seimgrund kœti,
sinnir hún lítt um bardagalœti.

5.
Vil eg því ekki um vopnagný fyrir vífum ljóða,
ekki skal þetta brögnum bjóða,
ber eg minn óð í rann til fljóða.

6.
Öngvu neyt er mærðin mín, eg má það segja,
illa þó eg eiri að þegja,
ef orða krefur siðlát meyja.

7.
Klastra eg ekki mansöng meir fyrir motrar lindi,
Hleiðólfs öldu hind í skyndi
hleypur geyst í fálu vindi.

8.
Viðrix hætti vala far þar vífið rjóða
við hreyfir skildi hafnar glóða,
hryggðin gafst í minnis sjóða.

9.
Í svefnherbergi sitt hún gekk, en sorgin krenkti,
um lykla-riddarann löngum þenkti,
lausan ástum tauminn skenkti.

10.
Fóstru eina foldin átti flæðar glóða,
trausta í ráðum, trúa og hljóða,
tryggðir hélt við svannann rjóða.

11.
Henni vildi hún hugarins opna hreysið byrgða
og rennslið ástar raunar stirða
og ráðin góð í þessu hirða.

12.
Fljótlega kallar fljóðið nú á fóstru sína,
siðug mælti silkilína:
„Segja skal þér ætlan mína.

13.
Af því reynd er ástin þín af elsku og dáðum;
hvað eg þínum hef af ráðum,
hulið skal hjá okkur báðum.“

14.
Fögur lofaði Friggjan eldri Fofnis dúna,
sór það upp á sæmd og trúna:
„Svíkja skal eg ei ríka frúna.

15.
Eg skal gjarnan ef það kann að undirstanda,
leggja ráðin víst í vanda“,
vefjan mælti silkibanda.

16.
„Alla batt eg elsku við þann odda sveigi,
með lyst og kurt það leynt mun eigi,
í leikum vann á fyrra degi.

17.
Farðu snarlega fóstra mín“, kvað fljóðið svinna,
„so dýrra njóti eg dyggða þinna,
darra Þund ef mætti finna.

18.
Ljúfan skaltu lindin klæða lestir yrja
að nýtri ætt og nafni spyrja,
ef næði létta fjúki hyrja.“

19.
Eldri heyrði eikin hrings, hvað auðgrund sagði,
so með hryggum hug í bragði
henni svar í móti lagði:

20.
„Ósköp virðast, meyjan merk, það máttu skilja,
ef ókunnugan auðar þilja
odda njót skal finna vilja.

21.
Ráð mitt er að siðug sætan sorgum hrindi,
Óðins fugl í brjósti bindi,
brúðum hæfir stöðuglyndi.

22.
En þó fljúgi ást um hug fyrir ungu fljóði,
ber það til hún blandast móði,
betra er slíkt að geyma í hljóði.

23.
Fátækum það fer ei vel að fleipra sinni,
ríkum slíkt er rausnin minni,
ráð þú sjálf yfir hugsan þinni.

24.
Margir fríðleik mestan hafa, manndyggð fáir,
þó þú einn í svip nú sjáir
so þér strax ei elsku tjáir.

25.
Ætt þín stór með hæstu hefð og heiðri dýrum,
vera má þann veginn rýrum,
það vel ei sómir tignaskýrum.
26.
Ef foreldrarnir fregna slíkt um fljóðið kléna,
þeirra ást mun ríkust réna,
ráðin góð þér láttu þéna.“

27.
Svaraði meyjan Magelóna mædd af stríði:
„Hvar er nú öll þín hugar prýði,
hvörri eg so gjarnan trýði?

28.
Ef þú sér mér ekkert ráð í angurs pínum,
aldeilis fyrir augum þínum
öndin skilst frá líkama mínum.

29.
Fjarri er því að forðast þurfir föður míns reiði,
þig í öngvar þrautir leiði,
þó þú gjörir sem eg beiði.“

30.
Eftir það í óvit féll fyrir ánauð stríða.
Ástir oft með sorgum svíða,
sá einn veit, er það fær líða.

31.
Atburð þennan óttast nú hin eldri kvinna,
fljótt so gjörði andsvör inna,
yngri hlýddi lindin tvinna.

32.
„Syrg ei lengur sæta mín“, kvað seljan láða,
hafðu náðir niftin þráða,
nóg skal okkur gott til ráða.

33.
Að þreyja og bíða þeim mun skást sem þraut er bundinn
eg skal“, segir gullhlaðs grundin,
„ganga sjálf á riddarans fundinn.“

34.
Skýrar létu skikkju Hrundir skrafinu linna,
öldruð gekk til kirkju kvinna,
kappsöm rétta bæn að vinna.

35.
Í helgan stað kom þiljan pells, er þorngrund trúði,
vafin guðvefs vænu skrúði,
var þar fyrir riddarinn prúði.

36.
Áfram kraup hún Ulli hrings þá ekki fjærri,
hvort hún bað með hyggju skærri,
hirði eg ekki geta nærri.

37.
Eftir bæn réð grundin siðug gylltra spanga
þussa máls að geymir ganga,
hann gaf henni kveðju ekki stranga.

38.
Öldruð snót til orða tók hjá Ulli klæða:
„Mér er í hug við riddarann ræða,
runnur hlýði Kraka sæða.

39.
Sé eg hlyninn hildar dúks með herra jafni
undir þjóð í sínu safni
so þér dyljið ætt og nafni.

40.
Magelóna mig hefur beðið meyjan gegna,
um allt þetta yður að fregna,
er eg nú komin hennar vegna.

41.
Allt þér megið inna slíkt fyrir utan vansa
bryggju ungri bjartra kransa.“
Bendir ýrs nam þá að anza:

42.
„Ef forvitni er á slíku ungu fljóði,
af háu er eg herra blóði,
heyra má það sprakkinn rjóði.

43.
Heiti mínu hélt eg þó í hylming lengi,
leynt skal það fyrir mætu mengi,
maður fær það vita engi.

44.
Hét eg því þá heiman reið“, kvað hirðir sjóða,
„bríkin fegurst báru glóða
bið eg haldi mér til góða.“

45.
Grams son tók þá gullhring einn og glatt nam inna:
„Gjör so vel hin góða kvinna,
greið meyjunni bólið linna.

46.
Blíð mun pella lindin ljós með lítillæti
geðsöm þiggja góins stræti,
gjört var það af hagleiks mæti.“

47.
„Gjarnan það sem girnist þú eg gjöra nenni
og fingurgullið færa henni,
so fljóðið yðar dyggðir kenni.“

48.
Sætan kvaddi hjörva hlyn með hýru sanna,
gekk so fljótt í sal til svanna,
sat þar fyrir bauga Nanna.

49.
Sprundi fagnar spektarfullu sprakkinn skæri,
tvinngrund spyr hvað tíðinda væri,
talaði hún þá gafst til færi:

50.
„Yður bað heilsa hirðir Fjölnis hallar ljóma,
allri prýddur æru og sóma,
er mér skylt hið sanna að róma.

51.
Orma dúns hér baug eg ber af buðlungs hendi,
þann sem yður seggurinn sendi.“
Sorgin tók að létta af kvendi.

52.
Gladdist víf þá grettis bólið gjörði líta.
„Þakka eg blíðum bendir ríta“,
brúðurin talar með ásján hvíta.

53.
„Linna bóls mun lestir ekki af lágu slekti,
Kristur gæfi eg kappann þekkti,
so kærleik mínum það ei hnekkti.

54.
Hans skal vera hjartað mitt með hýrleiks æði,
ef lukkan vill þau léna gæði,
þó líf og fé í hættu stæði.

55.
Aldrei skal eg öðrum manni elsku sýna.“
öldruð svaraði lauka lína:
„Láttu þessa ræðu dvína.

56.
Elska slík er ekki góð, sem auðgrund hefur,
illa um síðir ending gefur,
annars betra sóminn krefur.

57.
Betri er biðlund beðin ein en bráðlega ráðin,
ljúfari elsku lifnar sáðin,
en löng það verkar tímans dáðin.

58.
Oft kom hnekkir of skjótt þeim er ástir bundu,
so fyrir eina stutta stundu
sterka og langa iðran fundu.

59.
Hirð ei öllu hlýða því sem hugurinn dæmir,
betra er að sjá hvað sæmir,
sveima í burtu þankar slæmir.

60.
Elskan syndum oftast nær og angri býtir,
sjálf kann ekki sjá hvað lýtir,
sorg og þrá við endann hnýtir.

61.
Margir eru menn af frægðum mikils virtir,
áður en mikið um einn hirtir,
ætt hans gjörla kanna þyrftir.

62.
Oft er gall í sinni sætt, en sykur í munni,
þú veist ei nema verða kunni
vötnin lygn með djúpu grunni.

63.
Vel má unna vöskum manni vegleg sæta,
samt ber jafnan sóma að gæta“,
seljan talaði linna stræta.

64.
„Gott er í tíma að gæta sín þó grimm sé mæða,
svinnri meyju satt skal ræða,
seint er meinið verst að græða.

65.
Við skulum hafa fátt um flest“, kvað frúin svinna,
„huggun vil eg harma þinna
á hæfilegum tíma vinna.“

66.
Við soddan ræðu sefaðist stríð fyrir silkihrundu,
vitugri kvaðst vella grundu
vel í öllu hlýða mundu.

67.
Senn kom Njörva dóttir dökk og dreifðist víða,
til hvíldar gengur fljóðið fríða,
feikna sorgir mátti líða.

68.
Bangað hef eg bátinn geirs þó bilaði kraftur,
dauflega þykir dróttum skaptur,
detti hann nú í sundur aftur.