Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Króka-Refs rímur 12

Króka-Refs rímur – Tólfta ríma

KRÓKA-REFS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Fallna verð eg Vestra ferju við að reisa
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Fallna verð eg Vestra ferju við að reisa.
Ellefu taldi tvinngrund ljósa,
tólftu vildi eg núna glósa.

2.
Leiðast tekur loksins mér þau ljóð að smíða.
Lötum mun þó lítið stoða
lengi verkið fyrir sér skoða.

3.
Norðra farið næsta lasið nauða kenndi,
œrið þungt er árum undir,
uppi stóð um langar stundir.

4.
Mastrið feyskið finn eg víst með fúinn reiða.
Segls er rifin voðin víða,
við vindinn ekki þolir að stríða.

5.
Lasnar þóftur, bifast bönd, en brotna snœldur.
Saumur slitinn sést og heldur,
súðin rifin leka veldur.

6.
Örðugir standa árahlummar illa skafnir,
brotnir skautar, keipar klofnir,
kjölur og viðir innan rofnir.

7.
Bœði er stýrið brotið mitt og beygðir krókar.
Ryðgaðar standa lykkjur líka,
lasna kalla eg ferju slíka.

8.
Fœ eg því varla farminn kvæða flutt að sinni.
Oftast trú eg útveg banni
efnaleysið hvörjum manni.

9.
Veit eg minn er visku brunnur vanmátt fylldur.
Þursleg heimska þessu veldur,
þagað get eg ekki heldur.
10.
Hlés fyrir glóða Gefni ein skal ganga ríma.
Mansöngs bíði málið heima,
má það siðug brúðurin geyma.


11.
Hvarf eg frá, þar hélt hann Narfi hafs á brunna.
Vindurinn gjörði voðir spenna,
víðirs karfinn tók að renna.

12.
Aftur víkur óðs með listir erindi sagna,
þar sem stoltur stýrir þegna
stórum málum átti að gegna.

13.
Enginn fann, að öðling við þau orðin þegði
né hugsaði um, hvað halurinn sagði,
hvörgi sína ræðu lagði.

14.
Burt var Narfi, buðlung lét þá blása hljóði.
Síðan þessa sjóli gáði,
sjálfur þanninn ræða náði:

15.
„Hvör var sá sem hér nam standa hermannlegur?
Sannlega mér sagði hugur
sem hann væri ókunnugur.

16.
Kufli bláum klæddur var á kappa fundi,
svarðreip loðið lífið spenndi,
líka bar hann spjót í hendi.“

17.
Höldar kváðu heita Narfa halinn dýra,
skemmu leigði lestir geira,
lýðir vissu ekki meira.

18.
Öðling spurði, ef hann mundi erindum skila.
Allir sögðu hann heimsku hjala,
hvörgi neitt af viti tala.

19.
„Verða má“, að vísir kvað, „af visku greinum,
lestir branda, leifður tjónum,
lítill ekki var fyrir sjónum.“

20.
„Kallið Grana“, gramur réð so gumnum bjóða.
Fannst þá ekki fleygir klæða.
Fylkir gjörði enn að ræða:

21.
„Meiri er von, að munum síðar móði safna.
Horfist nú til illra efna,
orðin hans þó mun eg nefna.
22.
Saupsáttur við sverðhúss-Grana sagðist orðinn.
Hygg eg skálp sé hús af sverði.“
Hilmir þanninn ræða gerði.

23.
„Íslands þjóðin þanninn mælsku þekkir sína.
Saup og mysa, so má greina,
sannlega hefur þýðing eina.

24.
Missátt þeim á milli farið mun þá hafa
so hygg eg sé satt án efa,
sögð mun raunin vitni gefa.

25.
Framar sagði: Fjallskerða mitt fljóðið vildi.
Merki eg það í minnis veldi,
málma Þundinn fleira hrelldi.

26.
Í fornu máli firðar gjöra fjallskörð játa,
get eg það munu gilin heita.“
Geymir talaði linna reita.

27.
„Giljaðar kallast konur víst, eg kann það glósa,
nær menn á þær legorð lýsa.
Látum þessa þýðing vísa.

28.
Get eg þess, að Grani hefur gengið víða
lystugur sér að leita fljóða.
Lýðir nefndu hann kvennagóða.

29.
Málið þetta mun ei þurfa meir að sverfa.
Komið mun hafa til kvinnu Narfa
kesju bör með hyggju djarfa.

30.
Stórkeraldað strax kvaðst hafa stýrir víga
sterkan geymi steyptra bauga
strábeygis í gegnum auga.

31.
Keröld víð eru kölluð sár, sem kappar heyra.
Hneigir stráin hríðin stóra.
Hér hefur hann meint hann ljóra.

32.
Litið hefur lestir hrings með lund so dyggva
viðureign þeirra gegnum glugga.
Grani hugði að þeim skugga.

33.
Langhúsuðu báðir beint, kvað brjótur hringa.
Rannur heitir húsið langa.“
Hirðir talaði bjartra spanga.

34.
„Hygg eg báðir hafi þá með húsi runnið,
bæði hinn þar úti og inni.
Ekki var hans hræðsla minni.

35.
Hann kvaðst hafa hreiðurballað hirðir spjóta.
Hægt er þess“, kvað gramur, „að geta,
gjöri eg það í hug að meta.

36.
Hreiðurböllur heitir egg, sem hvör má skilja.
Hefur eggjað hinn að dvelja,
hræðslan þó hann gjörði kvelja.

37.
Marghrossaði móti hann, kvað meiðir bauga.
Stóð eru kölluð hross í haga,
í hópa löngum saman draga.

38.
Við hefur staðið sveigir sverðs með sinnið styggva.
Fékk hann hal að fagurröggva,
frá eg mælti hetjan glöggva.
39.
Oft er á kápu kölluð rögg sem konur taka.
Má það heita lagður líka“,
listug mælti hetjan ríka.

40.
„Laufa Týr mér líst hann hafa lagt með spjóti,
skipskeggjaði skjóma beiti,
skrafinu trú eg þanninn breyti.

41.
Skips er kallað skeggið barð, eg skruma ei þetta.
Barist hefur bendir hrotta.“
Buðlung ríkur nam so votta.

42.
„So lyngknappað sagðist hafa segginn dauða,
borið mun hafa búkinn síðan
beint upp undir garðinn skíða.“

43.
Rétt að sönnu ræsir allt nú ráða gjörði:
„Hnappur lyngs má heita byrði.
Hölda sveitin þetta virði.

44.
Mun þann dauða manninn hafa moldu hulið.
Nú er leyst úr myrku máli“,
milding ræddi klæddur stáli.

45.
Leita skipar lofðung þess, sem lífinu týndi,
líka hins, sem hjó með brandi
hirðmann kóngs og fyllti grandi.

46.
Líkið Grana lýðir fundu ljóst með greinum.
Firrðir lífs er fjarri að vonum,
fann þá enginn neitt af honum.

47.
Að morgni eftir milding lét til manna blása.
Hilmir réð so hátt að glósa,
heyra mátti þjóðin ljósa:

48.
„Tíðindi urðu næsta nóg í návist vorri.
Því fer betur þau eru færri,
þetta gegnir raunum stærri.

49.
Höldar kenndu hirðmann vorn að heiti Grana.
Í gær var veginn geymir fleina,
eg get það ekki blíðu neina.

50.
Enginn hefur ýta so af Ísalandi
þorað að hreyfa hryggðar fundi
handarjaðri vorum undir.

51.
Heldur get eg hafi sá Refur hingað leitað,
grænlenskum sem gjörði úr máta
glettingar í frammi láta.“

52.
Eftir þetta öðling gjörði ýtum bjóða
leita Refs um landið víða,
líka hafsins strauma stríða.

53.
Ræðan vikur ræsir frá og röskvum firðum.
Segir Refs af sjávarferðum,
seglin breiðast í gusti herðum.

54.
Strengur glumdi, stefnið skalf, en stundi reiði.
Skeiðin fauk á laxa láði
löðurs undan storma gráði.

55.
Allt að Danmörk undan sigldi Ullur hringa.
Kaskur náði kljúfur spanga
fyrir kónginn sjálfur inn að ganga.

56.
Málavöxtu alla fyrir öðling tjáði,
vísir því um viðtekt beiðir,
vænleg frá eg hann svörin greiðir.

57.
„Ef satt er allt, hvað segir frægur sveigir styrjar,
skilst mér það“, kvað skýfir herja,
„skylt mun hvörjum sig að verja.

58.
Fyrst þú leitar ljóst til vor með lyndið hýra
og varning þinn oss vildir færa,
víst er mætti ríkið næra,

59.
velkominn skal veitir auðs“, kvað vísir frægur.
„Heldur ertu hermannligur,
hvör veit, nema þér fylgi sigur.

60.
Þú skalt bústað þiggja af oss til þýðra náða.
Þegar stundir lengur líða,
lukku muntu stærri bíða.

61.
Hlýrar báðir, B]örn og Steinn, skulu buðlung þjóna.
Þeim vil eg allar sæmdir sýna,
ef seggir stunda blíðu mína.

62.
Þormóður, þinn þriðji son“, kvað þengill blíður,
„fyrst má sinni fylgja móður,
fleina Týr mun aukast hróður.“

63.
Sagði Refur sjóli skyldi sjálfur ráða.
„Látið þér hjá mér hlýra bíða“,
hetjan svaraði lyndis þýða.

64.
„Meðan fjárhlut mínum kann að mestu lóga.“
Ræsir kvað hann ráða mega.
Runnur gladdist nöðru teiga.

65.
Á sigludýrið safnað hafði svörð og tönnum,
hér með dýra hvítum skinnum.
Í historiunum þetta finnum.

66.
Hvítabirni hafði fimm og harla stóra,
fimmtíu líka fálka dýra.
Frá eg so vilji bókin skýra.

67.
Fimmtán hvítir fundust þar með fegurð glæsta.
Virðar höfðu málminn mesta
og marga aðra gripina besta.


68.
Um tíma gjörði eg Týrs með farminn til að reyna.
Norðra ekki farið fúna
flotið getur lengur núna.